Steinþór Hróar Steinþórsson
Steinþór Hróar Steinþórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndavefurinn Variety greinir frá því að íslenska framleiðslufyrirtækið Glassriver undirbúi gerð sjónvarpsþáttaraðar sem nefnist Magaluf og verður með Steinþóri Hróari Steinþórssyni, þ.e. Steinda jr., í aðalhlutverki.
Kvikmyndavefurinn Variety greinir frá því að íslenska framleiðslufyrirtækið Glassriver undirbúi gerð sjónvarpsþáttaraðar sem nefnist Magaluf og verður með Steinþóri Hróari Steinþórssyni, þ.e. Steinda jr., í aðalhlutverki. Ragnar Bragason og Snjólaug Lúðvíksdóttir skrifa handritið og verður verkefnið kynnt á Conecta Fiction-ráðstefnunni á Spáni. Í frétt Variety er rætt við framleiðandann Hörð Rúnarsson hjá Glassriver sem segir að þetta sé öflugt handritsskrifatvíeyki; Snjólaug skrifi þrjá af sex þáttum og sjái til þess að kvenhlutverk verði mikilvæg. Stefnt er að því að Magnús Leifsson leikstýri þáttunum og segir í fréttinni að Magaluf sé létt, rómantísk kómedía með dramatískum undirtóni. Þættirnir eiga að gerast árið 1979 og segja af Halla, sem Steindi leikur, sem heldur í örvæntingu til Mallorca til að vinna aftur hjarta Karenar, æskuástar sinnar. Gerist hann fararstjóri á eyjunni þar sem Karen er að vinna að heimildarmynd um fegurðarsamkeppni. Halli leiðir hóp íslenskra ferðamanna í pakkaferð og er þetta jafnframt fyrsta utanlandsferðin hans. Þegar í ljós kemur að Karen á danskan kærasta syrtir í álinn hjá Halla. Hörður segir í samtali við Variety að á þessum tíma hafi Íslendingar farið með dósamat til Spánar af ótta við að borða mat heimamanna. Sumar persónur þáttanna séu þó á undan sínum samtíma og þeirra á meðal Karen, sem telji fegurðarsamkeppnir karlrembu. Magaluf sé bæði þroskasaga karlmanns og heillar þjóðar þar sem fortíðin sé til skoðunar og hversu mikið íslensk þjóð hafi breyst. Hörður segir þættina eiga eftir að höfða til breiðs aldurshóps.