Meistarar Viktor Gísli Hallgrímsson, hvítklæddur, fagnar meistaratitlinum með þremur samherjum sínum í GOG.
Meistarar Viktor Gísli Hallgrímsson, hvítklæddur, fagnar meistaratitlinum með þremur samherjum sínum í GOG.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Danmörk Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

Danmörk

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, varð um helgina danskur meistari með liði sínu GOG eftir að liðið hafði betur gegn Aroni Pálmarssyni og félögum í Aalborg, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari, í æsispennandi úrslitaeinvígi.

GOG vann annan leik liðanna í Álaborg á sunnudag, 27:26, eftir að fyrri leiknum á heimavelli GOG hafði lokið með 25:25-jafntefli á miðvikudag. Einn sigur reyndist nóg til þess að tryggja titilinn.

„Þetta er mjög skrítið kerfi hérna í Danmörku. Við þurftum þrjú stig þannig að það dugar að taka jafntefli og sigur,“ útskýrði Viktor Gísli í samtali við Morgunblaðið. Hann var vitanlega í skýjunum með sigurinn enda um fyrsta danska meistaratitil GOG í 15 ár að ræða.

Liðið vann tvöfalt á tímabilinu þar sem það stóð einnig uppi sem deildarmeistari. „Líðanin er bara geggjuð. Það er gaman að vinna Aalborg loksins einu sinni í úrslitaleik á þessum þremur árum sem ég var hérna. Það er góð tilfinning,“ sagði Viktor Gísli sem verður 22 ára í næsta mánuði og á að baki 35 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Náðu loks að skáka Aalborg

Sigurinn um helgina var sérlega sætur þar sem GOG hefndi til að mynda fyrir tap gegn Aalborg í bikarúrslitum í apríl síðastliðnum en GOG og Aalborg hafa elt grátt silfur saman undanfarin ár. „Já klárlega. Við töpuðum líka á móti þeim í undanúrslitunum um danska meistaratitilinn í fyrra.“

Að sögn Viktors Gísla hefur danski meistaratitillinn mikla þýðingu fyrir fólk á svæðinu en GOG leikur heimaleiki sína í smábænum Gudme sem tilheyrir Svendborg-sveitarfélaginu á eyjunni Fjóni.

„Það er fólk bæði í Gudme og Gudbjerg sem styður okkur. GOG stendur fyrir Gudme Oure Gudbjerg, sem eru þrír litlir bæir sem eru svona kjarninn, en svo eru líka margir í Svendborg sem styðja okkur,“ útskýrði hann.

Hefði ekki getað endað betur

Þriggja ára dvöl Viktors Gísla hjá GOG er nú lokið en hann er búinn að semja við franska stórliðið Nantes. Hann sagði það ánægjulegt að hafa endað dvölina í Danmörku á meistaratitlinum.

„Já það er bara geggjað. Þetta hefði ekki getað endað betur. Ég hefði í rauninni ekki getað beðið um betri leið til að kveðja.“

Spurður hvenær hann haldi formlega til Nantes sagði Viktor Gísli: „Við byrjum að æfa 20. júlí þar en ég er ekki alveg kominn með dagsetninguna á því hvenær ég fer sjálfur út. það verður bara einhvern tímann fyrir það.“ Fyrst flytur hann heim til Íslands áður en hann flytur búferlum til Frakklands. „Ég flyt eftir þrjá daga til þess að koma mér heim sem fyrst.“

Vonast eftir Meistaradeildarsæti

Á nýafstöðnu tímabili hafnaði Nantes í öðru sæti frönsku 1. deildarinnar á eftir París Saint Germain. Ekki er enn komið á hreint hvort Nantes fylgi PSG í Meistaradeild Evrópu en félagið mun í það minnsta láta á það reyna.

„Þeir eru að berjast um að fá „wildcard“-sæti til þess að komast í Meistaradeildina. Ég held að það sé mjög langt síðan franska deildin hefur bara verið með eitt lið í Meistaradeildinni þannig að ég er bjartsýnn á að liðið muni fá þetta „wildcard“-sæti,“ sagði Viktor Gísli.

Hann greindi frá því að samningur sinn við Nantes væri til næstu þriggja ára. Samningur Viktors Gísla við GOG var einnig til þriggja ára og kvaðst hann afar spenntur fyrir nýrri áskorun.

„Ég er mjög spenntur. Ég hlakka til að prófa eitthvað nýtt eftir að hafa verið hérna í Danmörku. Þetta var alltaf planið, að fara eitthvað annað eftir þrjú ár hérna, þannig að það er gott að uppfylla það markmið,“ sagði Viktor Gísli að lokum í samtali við Morgunblaðið.