[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rebekka Hólmfríður Kristjánsdóttir er fædd 14. júní 1932 í Krók 2, Ísafirði og ólst þar upp til 14 ára aldurs en flutti þá til Reykjavíkur. „Það var gott að alast upp á Ísafirði og mér finnst Ísafjörður fallegasti staðurinn á landinu.

Rebekka Hólmfríður Kristjánsdóttir er fædd 14. júní 1932 í Krók 2, Ísafirði og ólst þar upp til 14 ára aldurs en flutti þá til Reykjavíkur. „Það var gott að alast upp á Ísafirði og mér finnst Ísafjörður fallegasti staðurinn á landinu. Svo fluttum við mamma mín til Reykjavíkur og bjuggum í Hátúni. Þar blasti við völlurinn hjá Ármanni.“

Rebekka fór að spila sem markvörður hjá Ármanni í handbolta og vann þar Íslandsmeistaratitil 1948 og 1949. Á þeim árum tók hún einnig virkan þátt í skátastarfi.

Rebekka lauk grunnskólaprófi á Ísafirði og gekk síðan í Ingimarsskóla í Reykjavík og Héraðsskólann á Laugarvatni.

Rebekka bjó í Vestmannaeyjum 1953-1958, en fluttist þá til Reykjavíkur og bjó þar til ársins 1987, þegar hún flutti í Kópavog.

Rebekka vann við ýmis verslunarstörf á yngri árum og síðar sem talsímakona við símstöðina í Vestmannaeyjum og hjá Landsímanum í Reykjavík. „Þar voru allir yfirmenn þéraðir og mér fannst það skemmtilegur siður.“ Rebekka var síðan bókari hjá aðalendurskoðun Pósts og síma.

Hún hóf störf sem fararstjóri hjá ferðaskrifstofunni Sunnu 1978. Hún starfaði samfellt við fararstjórn erlendis til ársins 2002, fyrir ferðaskrifstofurnar Sunnu, Atlantik, og svo Úrval, síðar Úrval Útsýn og Vita. Lengst af starfaði hún á Spáni, bæði á Mallorka og Kanaríeyjum, en einnig á Ítalíu.

Eftir það annaðist Rebekka í nokkur ár tilfallandi fararstjórn í sérferðum, s.s. hópferðum um Evrópu og siglingum, einkanlega í ferðum eldri borgara. Á þessum langa starfsferli nutu þúsundir Íslendinga þjónustu hennar, leiðsagnar og fræðslu. Hún var einn fyrsti íslenski fararstjórinn til að fá fullgilt spænskt starfsleyfi sem fararstjóri á Spáni til jafns á við innlenda. „Ég var yfirfararstjóri og það var mikil ábyrgð. Ég þurfti að fara með fólk á spítala og hef sagt að ég hafi gert allt nema að taka á móti barni. Eitt sinn varð bílslys og ég þurfti að fara með farþega upp á spítala í aðgerð. Svo þurfti annar læknirinn að fara og þá var sagt við mig: Nú ferð í þú í slopp, setur á þig húfu og hanska og ég bendi þér á hvað þú þarft að rétta mér.“

Rebekka hafði umsjón með ferðaklúbbnum „Úrvalsfólk“ um nokkurt skeið ásamt Valdísi Jónsdóttur. „Þá skipulagði ég ferðirnar. Það var alltaf skemmtilegt að vera fararstjóri og mér þykir vænt um alla farþegana sem voru með mér. Eins var alltaf góð samvinna milli okkar fararstjóranna.“

Á síðari árum hefur Rebekka tekið virkan þátt í starfi Hringsins. Hún stundar postulínsmálun af miklum krafti og sinnir öðrum áhugamálum, s.s. ferðalögum erlendis og golfiðkun. „Það er komið ár síðan ég hætti golfinu, en ég fer alltaf á miðvikudögum í postulínsmálun og fer upp í sumarbústað. Ég heyri vel og sé vel og keyri ennþá bílinn.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Rebekku er Sigurður R. Guðjónsson, f. 16.6. 1933, rafverktaki og kaupmaður. Rebekka var gift Guðjóni Pálssyni, f. 23.8. 1929, d. 16.4. 2014, hljóðfæraleikara og tónlistarkennara. Þau slitu samvistum 1958. Rebekka var einnig gift Jóhanni Ara Hróalds Guðmundssyni, f. 25.3. 1925, d. 29.10. 2009, innheimtustjóra hjá Pósti og síma. Þau slitu samvistum 1986.

Börn Rebekku eru 1) Páll Guðjónsson viðskiptafræðingur, f. 16.12. 1950, býr í Kópavogi; maki: Ingibjörg Flygenring; 2) Fanný Guðjónsdóttir, heilbrigðisgagnafræðingur, f. 22.11. 1952, býr í Kópavogi; maki: Þorsteinn Höskuldsson; 3) Herjólfur Guðjónsson, húsasmíðameistari, f. 17.8. 1954, býr í Garðabæ, maki Anna Kristín Fenger; 4) Jón Jóhannsson, rekstrarfræðingur, f. 17.11. 1964 , býr í Kópavogi, maki: Ásta Þóra Valdimarsdóttir; 5) Sigríður Jóhannsdóttir, f. 8.9. 1967, býr í Reykjavík. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin 16.

Systkini Rebekku voru Hanna Helga Kristjánsdóttir, f. 12.8. 1918, d. 15.7. 1938, Margrét Kristjánsdóttir, f. 1.2. 1921, d. 12.9. 1999, Jónína Kristjánsdóttir, f. 3.5. 1922, d. 1.10. 2018, og Magnús Jakob Kristjánsson, f. 10.1. 1925, d. 22.10. 1941.

Foreldrar Rebekku voru Kristján Guðlaugur Einarsson, f. 5.1. 1892 í Hattardal í Álftafirði, d. 24.3. 1979, sjómaður á Ísafirði, og Katrín Hólmfríður Magnúsdóttir, f. 5.10. 1897 í Purkey á Breiðafirði, d. 14.3. 1990, húsfreyja á Ísafirði.