Ragnar G. Kvaran fæddist 11. júlí 1927. Hann lést 1. júní 2022. Útförin fór fram 13. júní 2022.

Látinn er eftir snarpa sjúkdómslegu einstakur vinur, Ragnar G. Kvaran.

Ragnar og Hrefna eiginkona hans voru okkur hjónum nánir vinir alla tíð. Þrátt fyrir að þau dveldu langdvölum erlendis rofnaði aldrei sá þráður sem tengdi okkur saman. Fjör og uppátæki fyrstu búskaparáranna breyttist í einlæga vináttu og gleði yfir öllum þeim samverustundum sem við nutum.

Ragnar var einstakur maður og fyrir mér var hann fjölgáfaður heimsborgari. Glöggskyggnt náttúrubarn þegar hann umgekkst hrossin, hagmæltur og listrænn, einstakur húmoristi og gleðigjafi á góðri stund. Betri dansherra gat maður ekki óskað sér. Hann hafði þann eiginleika að gefa sig að öllum jafnt, ungum sem öldnum. Hann átti til óborganlega uppátektasemi sem öllum kom í gott skap. Eitt sinn er þau Hrefna komu í matarboð til okkar Árna á Birkimelnum gerði hann mér þann grikk að mæta með hálft yfirskeggið rakað af. Ég tók ekki eftir neinu á meðan aðrir hlógu að þessu glensi.

Flugið átti hug Ragnars og því helgaði hann alla starfsævi sína. Lengst starfaði hann hjá Cargolux og bjó fjölskyldan því í Lúxemborg í fjölda ára. Við Árni áttum ótal gleðistundir með Ragnari og Hrefnu á ferðalögum um Evrópu þar sem þau kynntu fyrir okkur klassíska byggingarlist, menningu og mat, margt okkur framandi og nýtt. Aðrir rekja flugferil Ragnars betur en ég, en það veit ég að Ragnar var traustur og farsæll flugstjóri alla tíð.

Minnisstæð er koma þeirra Ragnars og Hrefnu í töðugjöld á túnið í Söðulsholti, fljúgandi á gulri TF-KAK og okkur var svo sannarlega létt þegar hún sveif á loft yfir stóðhestagirðinguna.

Þegar Árni minn lauk prestskap sjötugur reyndist Ragnar betri en enginn. Hann gaf Árna gamalt golfsett og tók hann með sér nær daglega í golf og sund. Þeir félagarnir spiluðu nánast allt árið á Hvaleyrarholtinu og síðan var tekinn sundsprettur í Kópavogslauginni. Árni hætti í golfinu vegna sjóndepru, sagðist slá svo langt að hann sæi ekki boltann lengur, en Ragnar hélt áfram. Ragnar hélt heilsu og þreki ótrúlega lengi. Manni fannst nánast að elli kerling ynni ekki á honum.

Ragnar mátti þola mikið andstreymi í veikindum Hrefnu og andláti hennar. Það að missa tvo syni sína væri síðan mörgum óbærilegt. Þrek hans var mikið að takast á við þetta allt.

Önnu dóttur Ragnars bið ég Guðs blessunar svo og öllum hans afkomendum, ættingjum, tengdafólki og vinum.

Hvíl þú í friði, kæri vinur.

Rósa Björk

Þorbjarnardóttir.