Hedwig Franziska Elisabeth Meyer fæddist í Rechterfeld í Niedersachsen-héraði í Þýskalandi 25. mars 1929. Hún lést á Skjóli 27. apríl 2022.

Foreldrar hennar voru Johann Carl og Bernardine Meyer. Hedwig er fimmta í röð fjórtán systkina. Eftirlifandi systkini hennar eru öll búsett í Þýskalandi. Hedwig ólst upp í Rechterfeld en þurfti ung að standa á eigin fótum, enda systkinahópurinn stór.

Hedwig kom til Íslands 1956 sem au pair. Hún var au pair hjá fjölskyldu á Hólatorgi 6. Sinnti þar börnum og aðstoðaði á heimilinu.

Hún kynntist Guðmundi Kristni Guðjónssyni kaupmanni og þau giftust. Guðmundur Kristinn lést 3. mars 2013. Hedwig og Guðmundur eignuðust tvo syni: 1) Guðjón Karl bifvélavirkjameistari, f. 30. október 1960. Hann er í sambúð með Ástríði Ólafíu Jóndóttur (Ástu Lóu) tanntækni. Börn hennar eru: a) Steinunn Þuríður, gift Gísla Stein og synir þeirra eru Eyþór Kári og Viktor Númi. b) Helga Hrund, dóttir hennar er Natalía Rún. 2) Hilmar Bernard tannlæknir, f. 13. ágúst 1962, d. 23. febrúar 1995. Hann var í sambúð með Kolbrúnu Steinunni Hansdóttur sjúkraliða og áttu þau saman einn son, Hilmar (Andra) Meyer Hilmarsson, f. 21. maí 1995.

Þegar Hedwig öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt varð hún að taka upp íslenskt nafn og fékk þá nafnið Heiða Karlsdóttir en hún var alltaf kölluð Heddý. Seinna meir, þegar mátti breyta þessu, þá breytti hún nafninu sínu til baka í fæðingarnafn sitt en sleppti Franziskunafninu.

Hedwig og Guðmundur hófu búskap á Kárastíg 1 í Reykjavík og ráku þar matvöruverslun ásamt föður Guðmundar. Hún vann líka á Landakotsspítala sem gangastúlka á skurðstofudeild. Hedwig var lærð saumakona og vann við það í Þýskalandi og á Íslandi, m.a. hjá Andersen og Lauth og var yfirmaður hjá saumastofu Hagkaups. Hún tók að sér kjólasaum heima fyrir meðan hún sinnti heimilisstörfum.

Hedwig var sungin sálumessa í Landakotskirkju 12. maí 2022, í kyrrþey.

Fallin er frá okkar ástkæra Hedwig Meyer, sem kom til Íslands árið 1956 í þeim tilgangi að hjálpa til við stórt heimili okkar á Hólatorgi 6 í Reykjavík. Þegar hún lenti á Reykjavíkurflugvelli tók Nonni frændi á móti henni. Hann var klæddur í Hekluúlpu með hettuna niður á nef. Henni leist ekki alveg á hann og varð hálfsmeyk en þegar hún kom heim og sá börnin sofandi varð hún strax rólegri.

Við systkinin nutum þess að hafa hana hjá okkur þar sem hún gekk í öll verk heimilisins. Hún var einstaklega myndarleg og vandvirk. Ekki nóg með að hún hafi sinnt hefðbundnum heimilisstörfum heldur saumaði hún líka föt á okkur meðan hún dvaldi hjá okkur og svo heilmikið eftir að hún hætti í vistinni. Má þar nefna fermingarkjóla, frakka á Denna úr gömlum frakka af pabba og svo síðast en ekki síst brúðarkjól á Oddnýju. Hún var guðmóðir hennar. Hedwig og Dóa systir sem lést fyrir rúmu ári voru alveg sérstakar vinkonur og hittust oft. Hún bauð okkur systkinum og mökum oft í mat og síðast þegar hún varð níræð fyrir 3 árum.

Það var alltaf líf og fjör í kringum Hedwig og gaman að vera með henni. Hún hafði einstakan húmor. Hún kom oft á Hólatorgið í heimsókn meðan mamma var á lífi og kom með systkini sín þegar þau komu í heimsókn til hennar. Mamma var nefnilega snjöll í að læra tungumál og hafði lært dönsku, ensku og frönsku en réð svo til okkar þýskar stúlkur til að læra þýsku og það gekk mjög vel.

Hvernig fann mamma þessa frábæru konu? Jú, það var með auglýsingu í þýsku safnaðarblaði og tekið fram að um fjölskyldu biskupsins væri að ræða. Jóhannes Gunnarsson, þáverandi kaþólski biskupinn, var bróðir afa okkar Friðriks, sem bjó á heimilinu.

Hedwig kynntist manni sínum Guðmundi hér á Íslandi sem varð okkur til happs, því að hún ílengdist hér á landi. Þau bjuggu sér fyrst heimili á Kárastíg í fjölskylduhúsi þar sem líka var verslun sem fjölskyldan rak.

Við vottum fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Megi hið eilífa ljós lýsa henni um aldir alda.

Jóhannes, Bjarni, Oddur, Friðrik, Oddný, Þorgerður og Guðmundur Halldórsbörn.