Herstyrkur Portúgalska freigátan Corte-Real sést hér fara frá bryggju í Sundahöfn. Hún stefnir nú á Noreg.
Herstyrkur Portúgalska freigátan Corte-Real sést hér fara frá bryggju í Sundahöfn. Hún stefnir nú á Noreg. — Morgunblaðið/Kristján H. Johannessen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Kafbátahernaður er hópíþrótt þar sem hver þátttakandi kemur með sína sérhæfðu þekkingu og getu að borðinu.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Kafbátahernaður er hópíþrótt þar sem hver þátttakandi kemur með sína sérhæfðu þekkingu og getu að borðinu. Æfing sem þessi veitir okkur og bandamönnum okkar tækifæri til að auka færnina, þróa nýjar aðferðir og efla samhæfni og samvinnu,“ segir Stephen Mack, undiraðmíráll í bandaríska sjóhernum.

Morgunblaðið fékk að fylgjast með því þegar sex skip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins (NATO) létu úr höfn í Reykjavík um hádegisbil í gær og hefur flotinn nú tekið stefnuna á Noreg. Þar mun hann hitta fyrir fleiri herskip og kafbáta NATO og er tilgangurinn sá að taka þátt í heræfingunni Dynamic Mongoose sem fram fer á hafsvæðinu milli Íslands og Noregs dagana 13.-23. júní. Er um að ræða kafbátaleitaræfingu sem haldin hefur verið frá árinu 2012. Þungamiðja hennar verður að þessu sinni við Færeyjar.

Umferð kafbáta að aukast

„Þessi æfing er augljóst dæmi um getu og vilja ríkja Atlantshafsbandalagsins til að vinna saman sem ein heild,“ segir Mack og bætir við að umrædd heræfing sé bandalaginu afar mikilvæg. Nauðsynlegt sé fyrir ólík skip og loftför að stilla saman strengi svo unnt sé að halda úti öflugum kafbátavörnum á Atlantshafi.

Aðspurður segir hann NATO fylgjast grannt með ferðum kafbáta um Atlantshaf. Umferð slíkra báta frá Rússlandi hefur aukist mjög að undanförnu. „Umferð kafbáta hefur aukist á heimsvísu. Ríki hafa mörg séð mikilvægi kafbáta og Rússland er ekkert frábrugðið í þeim efnum. Og við fylgjumst með,“ segir Mack og heldur áfram:

„Þessari æfingu er þó ekki beint gegn neinni tiltekinni þjóð. Tilgangurinn er að koma saman og æfa kafbátahernað af mikilli fagmennsku.“

Ad van de Sande, flotaaðmíráll í hollenska sjóhernum og stjórnandi fastaflota NATO, segir fastaflotann reiðubúinn til að takast á við öll þau verkefni sem Atlantshafsbandalagið felur honum á hendur.

„Í ljósi þeirra atburða sem nú eiga sér stað í heiminum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að sýna fram á staðfestu NATO og samvinnu. Til að viðhalda og jafnvel bæta viðbragð okkar æfum við stöðugt á hafi úti,“ segir van de Sande og bætir við að alls munu 11 herskip, 16 loftför og þrír kafbátar, þar af einn kjarnaknúinn, taka þátt í heræfingunni. Kemur tækjabúnaður þessi frá níu ríkjum NATO, þ.e. Kanada, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Noregi, Portúgal, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Stærsta skip hollenska flotans, HNLMS Karel Doorman, er eitt þeirra herskipa sem taka þátt og er það yfir 205 metra langt. Meginhlutverk þess er að veita öðrum herskipum birgðir, skotfæri og olíu. Að auki eru um borð tvær öflugar og hraðfleygar þyrlur af gerðinni NH90 sem nýtast vel þegar leita þarf að kafbátum.