Bjarni Gunnarsson
Bjarni Gunnarsson
Eftir Bjarna Gunnarsson: "Hér búa um 65 þúsund manns (28,6% íbúar höfuðborgarsvæðisins) og samkvæmt könnuninni eru 71,6% íbúanna hlynntari almenningssamgöngum sem er afgerandi meirihluti."

Í nýlegri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Rúnar Vilhjálmsson prófessor við HÍ var spurt hvort þú teldir mikilvægara að auðvelda almenna bílaumferð eða auðvelda umferð almenningsvagna í þínum bæjarhluta. Svör við þessari spurningu segja væntanlega til um skoðun viðkomandi almennt á samgöngumálum, en ekki hvort viðkomandi ætli að nota viðkomandi samgöngutæki.

Niðurstöður könnunarinnar eru áhugaverðar og mismunandi eftir hverfum og eru mínar vangaveltur um þær eftirfarandi:

Miðborgin (miðbær, Vesturbær og Austurbær)

Hér búa um 65 þúsund manns (28,6% íbúar höfuðborgarsvæðisins) og samkvæmt könnuninni eru 71,6% íbúanna hlynntari almenningssamgöngum sem er afgerandi meirihluti.

En mér er spurn hvort þessi meirihluti ætli að nota almenningssamgöngur. Er ekki kosturinn við það að búa í miðborginni að geta gengið og hjólað sinna erinda og væntanlega ekki margir í miðborginni að nota almenningssamgöngur til að ferðast innan miðborgarinnar. Það læðist að mér sá grunur að íbúar miðborgarinnar séu langþreyttir á bílafjölda og bílastæðaleysi og hafi þær væntingar að með efldum almenningssamgöngum fækki bílum í miðborginni og um leið verði auðveldara fyrir þá að ferðast um á sínum bílum.

Breiðholtið

Hér búa um 22 þúsund manns (9,7% íbúanna) og eru 64,9% íbúanna hlynntari almenningssamgöngum og er það eflaust vegna þess að almenningssamgöngur fyrir Breiðholtið eru ekki nógu góðar.

Úthverfin og nágrannabæir

Hér búa um 140 þúsund manns (61,7% íbúar höfuðborgarsvæðisins) og eru 38,8% íbúanna hlynntari almenningssamgöngum og 61,2% hlynntari því að auðvelda almenna bílaumferð og eru því skoðanir þessara íbúa allt aðrar en íbúa miðborgarinnar og Breiðholtsins. Samt eru almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu hugsaðar þannig að úthverfin og nágrannabæir noti þær mest.

Niðurstaða mín er því sú, til að forðast mistökin við Íslandsbankasöluna, að það þurfi að kynna borgarlínuna miklu betur. Best væri að senda inn á hvert heimili höfuðborgarsvæðisins teikningu af fyrirhugaðri borgarlínu þar sem stoppistöðvar væru merktar með t.d. 500 m radíus (ca göngufæri að stoppistöð) og íbúar spurðir hvort þeir myndu nota borgarlínuna til daglegra nota (vinna, skóli, innkaup, frístundir o.fl.).

Það þarf líka að segja íbúum hvað borgarlínan eigi að kosta, hver muni borga hana (bifreiðaeigendur munu borga hana að mestu), hvað kosti að reka hana og hver muni borga það.

Kostnaðurinn við borgarlínuna

Í stöðuskýrslu Betri samganga (1. apríl 2022) um verkefni samgöngusáttmálans kemur fram að fjárfestingar við stofnvegi séu áætlaðar 52,2 ma.kr. og við borgarlínu 49,6 ma.kr. Þetta eru villandi upplýsingar þar sem kostnaður við Miklastokk (ca 25 til 30 ma.kr.) og Sæbrautarstokk (ca 10 ma.kr.) er talinn með stofnvegum, en þessar stokkaframkvæmdir gera lítið til að minnka umferðartafir, heldur eru þær til að koma borgarlínunni fyrir og bæta þær vissulega umferðarástandið við Miklatún og bæta tengingu nýrrar Vogabyggðar við önnur hverfi. Því væri réttara að segja að fjárfestingar við stofnvegi væru um 15 ma.kr. og við borgarlínu um 87 ma.kr.

Framkvæmdatíminn

Í stöðuskýrslu Betri samganga kemur fram að áætlaður framkvæmdatími við gerð Miklastokks (stokkur frá Snorrabraut austur fyrir Kringlumýrarbraut) sé árin 2025 til 2029, bygging Sæbrautarstokks er áætluð árin 2024 til 2027 og gerð borgarlínu um Suðurlandsbraut er áætluð árin 2022 til 2025.

Ég bara spyr: hvernig dettur mönnum í hug að byggja á sama tíma Miklastokk (þá lokast Miklabrautin meira og minna) og Sæbrautarstokk, sem lokar að mestu Sæbrautinni. Auk þess ætti framkvæmdum við borgarlínuna um Suðurlandsbraut að ljúka árið 2025 og er þá búið að þrengja mjög að bílaumferð um götuna og er það ekki til hjálpar þegar Miklabraut og Sæbraut eru meira og minna lokaðar.

Nú er bara að vona að nýir meirihlutar á höfuðborgarsvæðinu endurskoði málefni borgarlínunnar og greini hverjir séu líklegir til að nota hana, hvað hún muni kosta, hverjir borgi hana, hvað kosti að reka hana og hverjir borgi rekstrarkostnaðinn.

Verðum við ekki að vita þetta? Annars er lagt af stað í rándýrar framkvæmdir sem við vitum ekki hvernig nýtast.

Og hvað mun tafakostnaðurinn vegna framkvæmdanna kosta okkur?

Höfundur er umferðarverkfræðingur.