Þorvaldur Jóhannsson
Þorvaldur Jóhannsson
Eftir Þorvald Jóhannsson: "Vestfirðingur ættaður að austan spáir góðu sumri á Austurlandi en segir að Austfjarðaþokan verði ekki frá þeim tekin."

Eftir fremur mildan og léttan vetur, vorið frekar í kaldara lagi, er sumarið nú mætt í fjörðinn. Það gefur væntingar um spennandi vikur fram undan. Þá vaknar áleitin spurning: Fá Austfirðingar svipað eða betra sólarsumar en í fyrra? Veðurglöggur Vestfirðingur ættaður að austan spáði hárrétt fyrir sumrinu í fyrra, sem var eitt það hlýjasta og sólríkasta í fjölda ára. Sami Vestfirðingur hefur nú spáð ekki síðra sumri í ár. Hann segir þó að Austfjarðaþokan verði sennilega ekki frá okkur tekin. Er það bara ekki í lagi?

Eftir mögnuðustu loðnuvertíð í fjölda ára, sem skapaði mikil umsvif og verðmæti í kaupstaðnum, keppist Héraðsverk nú við að hefja af fullum krafti framkvæmdir við snjóflóðavarnargarða í rótum Bjólfs norðanmegin byggðarinnar, þ.e. Öldugarð, Miðgarð og Bakkagarð. Framkvæmdir þessar munu standa yfir í næstu þrjú ár.

Umfangsmiklar framhaldsrannsóknir verða á og við landnámsbæinn Fjörð, en þar fundust merkilegar fornminjar síðastliðið sumar.

Umhverfismatsskýrsla Fjarðarheiðarganga fór í kynningu á dögunum með umsagnarfresti til 7. júlí. Stefnan er sett á að bjóða göngin út fyrir áramót og að framkvæmdir hefjist seinni part næsta árs.

Unnið er að því að finna varanlega lausn á nýrri staðsetningu fyrir sögulega verðmæt hús sem nú eru á hættusvæði eftir skriðurnar miklu í desember 2020, m.a. Angro og Hafnargötu 44 (bæjarskrifstofurnar). Tækniminjasafnið, sem missti stóran hlut af safna- og húsakosti sínum, vinnur nú að stórhuga endurreisn og uppbyggingu á nýrri lóð á Lónsleiru.

Seyðisfjarðarhöfn er með í undirbúningi og kallar á allmiklar framkvæmdir m.a. lengingu viðlegukanta og landfyllingu vegna ört fjölgandi heimsókna skemmtiferðaskipa og annarra krefjandi hafnsækinna verkefna. Alls eru bókuð um 70 skip í sumar. Næsta sumar lofar góðu, nú þegar bókuð rúm 100 skip.

Höfnin er fjórða stærsta skemmtiferðaskipahöfn landsins. Það er því mikið um að vera í höfninni og í bænum þegar farþegar í hundraðatali streyma í land nær daglega. Fara þeir m.a. í rútum yfir Fjarðarheiði í skoðunarferðir til Héraðs, Borgarfjarðar eða Fjarðabyggðar. Aðrir njóta fegurðar fjallanna og mannlífsins í göngutúrum sínum með eða án leiðsögu í bænum. Nýju jarðvegsgarðarnir sem settir voru upp til varnar íbúðabyggð, t.d. neðan Neðri-Botna, mynda nú skemmtilegt upphaf gönguleiðar ofan byggðarinnar að sunnan áleiðis inn að Fjarðarseli og áfram að Gufufossi.

Sumrin á Seyðisfirði eru því alþjóðleg og heyrast mörg tungumál og þjóðerni þeirra sem ganga um göturnar og virða fyrir sér húsin, garðana og mannlífið.

Skútum, sem ekki hefur mikið farið fyrir síðustu ár, fjölgar nú og er fjörðurinn vinsæll viðkomustaður þeirra á siglingum t.d. norður fyrir. Lungaskólanemendur fóru í vor er annanámi þeirra lauk. Góð aðsókn er að skólanum að sögn forstöðumanns. Þessir hressu krakkar setja bjartan og skemmtilegan tón í bæjarlífið á veturna. Nýrra nemenda í haust er beðið með tilhlökkun.

Ekki má gleyma Norrænu okkar, sem kemur að venju vikulega með farþega og bíla frá Evrópu. Að sögn er fullbókað sumarmánuðina.

Já nú er sumarið svo sannarlega komið.

Gróðurinn vælir af ánægju og grasið kallar á slátt og snyrtingu. Aspirnar, sem teinréttar í röðum prýða innkeyrsluna í bæinn, bugta sig og beygja góðlátlega í andvaranum. Ferðamenn streyma aftur í kaupstaðinn brosandi út að eyrum og eru strax mættir í Regnbogastrætið með „græjurnar“ sínar til myndatöku.

Bláa kirkjan boðar fjölbreytta sumartónleikaröð að vanda og veitingastaðirnir rómuðu El Grillo, Aldan og Nord-Austur Sushi/Bar við enda götunnar bjóða fjölbreytta gómsæta rétti. Tveir veitingastaðir við Austurveg, Studio 23 og Orkan-Áfylling, ásamt Herðubíó, Skaftfelli Bistro og sumarsýningu Skaftfells, kalla til sín akandi og gangandi og bæta í fjölbreytileikann og framboðið.

Nýja ísbúðin hennar Ingrid er vinsæll viðkomustaður. Hagavöllur, níu holu golfvöllur, grænn og glettinn, mætir gestum við komuna í bæinn akandi niður Fjarðarheiðina. Fjarðaráin, vaxandi silungsveiðiá, rennur hljóðlát en ákveðin neðan við Evrópuveginn inn í kaupstaðinn á leið sinni til sjávar.

Já, mannlífið á Seyðisfirði er sannarlega að lifna við og býður gesti velkomna að njóta á komandi sumri.

Höfundur er fv. bæjarstjóri, nú eldri borgari. brattahlid10@simnet.is