Ungir Skagamennirnir ungu Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson setja vaxandi svip á íslenska landsliðið.
Ungir Skagamennirnir ungu Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson setja vaxandi svip á íslenska landsliðið. — Morgunblaðið/Eggert
Í Laugardal Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Jafntefli gefa ekki nógu mikið í fótbolta. Því hefur íslenska karlalandsliðið fengið að kynnast í Þjóðadeildinni. Þriðja jafntefli í þremur leikjum leit dagsins ljós á Laugardalsvellinum í gærkvöld þegar seinni viðureign Íslands og Ísraels lauk á nákvæmlega sama hátt og þeirri fyrri ellefu dögum fyrr í Haifa, 2:2.

Í Laugardal

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Jafntefli gefa ekki nógu mikið í fótbolta. Því hefur íslenska karlalandsliðið fengið að kynnast í Þjóðadeildinni. Þriðja jafntefli í þremur leikjum leit dagsins ljós á Laugardalsvellinum í gærkvöld þegar seinni viðureign Íslands og Ísraels lauk á nákvæmlega sama hátt og þeirri fyrri ellefu dögum fyrr í Haifa, 2:2.

Þetta þýðir að Ísraelsmenn standa afar vel að vígi í þriggja liða baráttunni við Ísland og Albaníu, eru með fimm stig gegn þremur hjá Íslandi og einu hjá Albaníu, og geta nú tryggt sér efsta sætið og sæti í A-deild með því að vinna heimaleikinn gegn Albaníu í september, áður en Ísland leikur gegn Albönum í Tirana.

Það er ekki endilega sætið í A-deild sem heillar, Ísland á erfiðar minningar af stórum töpum þar á undanförnum árum, en þetta getur skipt miklu máli hvað varðar umspilssæti fyrir Evrópumótið 2024. Þar mun niðurstaðan í Þjóðadeildinni hafa eitthvað að segja.

En burtséð frá því var synd að liðinu tækist ekki að knýja fram sigur á Laugardalsvellinum í opnum og nokkuð fjörugum leik þar sem á fjórða tug markskota á báða bóga litu dagsins ljós.

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði fallegt skallamark snemma leiks. Íslenskt skólabókarmark, sama formúla og t.d. fyrra markið gegn Englandi á EM 2016. Langt innkast Harðar Björgvins, skalli leikmanns númer 14, núna var það Daníel Leó en ekki Kári Árnason, og Jón Dagur var mættur á réttan stað og skoraði.

Eins komst Ísland yfir með laglegu marki þegar Arnór Sigurðsson komst að endamörkum og sendi fyrir, boltinn hrökk út þar sem Þórir Jóhann Helgason skoraði með hörkuskoti, 2:1.

Því miður hélt íslenska liðið ekki forystunni sem það náði í tvígang og þá var afdrifaríkt að Arnóri skyldi ekki takast að kom Íslandi í 2:0 í fyrri hálfleik þegar hann slapp aleinn gegn markverði Ísraels. Eftir leikina þrjá í Þjóðadeildinni situr eftir að liðinu gengur ekkert að herja út sigra gegn liðum sem eru svipuð að styrkleika, rétt eins og þegar það gerði þrjú jafntefli í slíkum leikjum síðasta haust.

Er liðið á réttri leið? Já, ég held að leikurinn í gærkvöld hafi sýnt ágætlega skýr merki þess. Arnar Þór Viðarsson virðist vera búinn að finna nokkurn veginn sitt byrjunarlið, m.a. traust miðvarðapar í þeim Daníel Leó og Herði Björgvini. Hann á þó eftir að útfæra betur varnarleik liðsins á miðjunni því Ísraelsmenn komust oft í vænlegar stöður í kringum íslenska vítateiginn og náðu að skjóta að marki í ein 19 skipti í leiknum. Það er alltof mikið.

Hákon Arnar Haraldsson fékk sitt annað tækifæri í byrjunarliðinu og nýtti það vel. Bráðskemmtilegur leikmaður og þeir jafnaldrarnir frá Akranesi, hann og Ísak Bergmann, eru svo sannarlega ekki bara framtíðarmenn – þeir eru leikmenn sem á að byggja framtíðarliðið í kringum.

ÍSLAND – ÍSRAEL 2:2

1:0 Jón Dagur Þorsteinsson 9.

1:1 Ramzi Safouri 35.

2:1 Þórir Jóhann Helgason 60.

2:2 Dor Peretz 66.

M

Hákon Arnar Haraldsson

Þórir Jóhann Helgason

Daníel Leó Grétarsson

Arnór Sigurðsson

Ísak B. Jóhannesson

Dómari : Duje Strukan, Króatíu.

Áhorfendur : 2.778.

Ísland : (4-3-3) Mark : Rúnar Alex Rúnarsson. Vörn : Alfons Sampsted, Hörður Björgvin Magnússon, Daníel Leó Grétarsson, Davíð Kristján Ólafsson. Miðja : Þórir Jóhann Helgason (Albert Guðmundsson 90), Birkir Bjarnason (Aron Elís Þrándarson 79), Hákon Arnar Haraldsson. Sókn : Arnór Sigurðsson (Ísak B. Jóhannesson 61), Andri Lucas Guðjohnsen (Sveinn Aron Guðjohnsen 61), Jón Dagur Þorsteinsson (Stefán Teitur Þórðarson 79).

* Jón Dagur Þorsteinsson skoraði í öðrum landsleik sínum í röð og sitt fjórða mark í 21 A-landsleik þegar hann kom Íslandi í 1:0.

* Þórir Jóhann Helgason skoraði sitt annað mark í 12 landsleikjum, og annað mark gegn Ísrael, þegar hann kom Íslandi í 2:1.

*Enginn þeirra ellefu sem hófu vináttuleikinn í San Marínó síðasta fimmtudag var í byrjunarliðinu í gærkvöld.