Kunnuglegu andliti brá fyrir á hlaupabrautinni við Laugardalsvöllinn fyrir leik Íslands og Ísraels í Þjóðadeildinni í fótbolta í gærkvöld. Lars Lagerbäck var mættur á nýjan leik á heimaleik íslenska landsliðsins.
Kunnuglegu andliti brá fyrir á hlaupabrautinni við Laugardalsvöllinn fyrir leik Íslands og Ísraels í Þjóðadeildinni í fótbolta í gærkvöld.

Lars Lagerbäck var mættur á nýjan leik á heimaleik íslenska landsliðsins. Núna í nýju hlutverki sem viðmælandi Viaplay í útsendingu frá leiknum fyrir og eftir leik.

Meðal þess sem þar kom fram var að Lars skýrði frá því að það hefði verið Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sem hefði viljað að hann viki úr þjálfarateymi Íslands. Eins og menn muna var hann þeim Arnari og Eiði Smára, þáverandi aðstoðarþjálfara, til aðstoðar og ráðlegginga framan af árinu 2021.

Eflaust hefði mátt nýta þekkingu og reynslu Svíans lengur og betur í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað en einhverra hluta vegna gekk það ekki upp. Því miður.

En það var gaman að sjá hann á vellinum og ekki síst þegar íslensku leikmennirnir gengu til búningsklefa og þeir Birkir Bjarnason og Hörður Björgvin Magnússon, þeir einu sem eftir eru í liðinu í dag frá tíma Lars, komu og föðmuðu sinn gamla leiðtoga.

Eftir leik ræddi hann svo um leikinn við þá Hannes Þór Halldórsson og Rúrik Gíslason, tvo til viðbótar af þeim sem léku undir hans stjórn.

Ekki gafst mikill tími til að hlusta á þá félaga og mat Lars á leiknum en ég heyrði þó að hann var sérstaklega hrifinn af Hákoni Arnari Haraldssyni, Skagamanninum unga, og sagði að það væru margir efnilegir og áhugaverðir leikmenn að koma upp í íslenska liðinu um þessar mundir.