Feðgarnir Dean og Jordan Gatley. Sonurinn skráði sig úr breska hernum og hélt ótrauður á úkraínskan vígvöll.
Feðgarnir Dean og Jordan Gatley. Sonurinn skráði sig úr breska hernum og hélt ótrauður á úkraínskan vígvöll. — Ljósmynd/Facebook
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Fyrrverandi breskur hermaður, Jordan Gatley, er annar Bretinn sem týnir lífi sínu á vígvöllum Úkraínustríðsins en Gatley féll fyrir byssukúlu þar sem hann tók þátt í vörnum borgarinnar Severódónetsk.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Fyrrverandi breskur hermaður, Jordan Gatley, er annar Bretinn sem týnir lífi sínu á vígvöllum Úkraínustríðsins en Gatley féll fyrir byssukúlu þar sem hann tók þátt í vörnum borgarinnar Severódónetsk.

Gatley gekk úr breska hernum í mars og hélt til Úkraínu til að leggja lóð sitt á vogarskálar þarlendra við að verjast innrás Rússa í landið. Faðir hans, Dean Gatley, greindi svo frá því á Facebook-síðu sinni að fjölskyldunni hefði borist tilkynning um lát hans á föstudaginn og staðfestir breska utanríkisráðuneytið þetta við breska ríkisútvarpið BBC .

Ritar faðirinn á síðu sína að sonur hans hafi unnið að þjálfun úkraínskra hermanna og haldið til Úkraínu að lokinni „vandlegri íhugun“. Míkhailó Podolyak, ráðgjafi Volodímírs Selenskís Úkraínuforseta, birti þau ummæli sín á samskiptamiðlinum Twitter að Bretinn ungi hefði verið „sönn hetja“. „Okkur mun aldrei gleymast framlag hans til varna Úkraínu og hins frjálsa heims,“ ritaði ráðgjafinn enn fremur.

Við herskyldu sína gegndi Gatley yngri stöðu riffilskyttu við þriðja herfylkið í Edinborg í Skotlandi og þurfti, sem fyrr segir, að láta af herþjónustu til að geta haldið til Úkraínu til liðveislu þarlendra. Hörð hríð hefur geisað á götum Severódónetsk síðustu daga og kostað mikið mannfall úr röðum hvorra tveggja, Úkraínumanna og rússneska innrásarliðsins. Greindi héraðsstjórinn Serhiy Haídaí frá því í úkraínskum sjónvarpsfréttum að stórskotaárás Rússa hefði valdið stórbruna í efnaverksmiðju í borginni en í kjöllurum hennar hafast 800 óbreyttir borgarar við í sprengjubyrgjum, að sögn úkraínskra embættismanna.

Harðnar á dalnum

Orrustan um Severódónetsk hefur staðið rúma þrjá mánuði og harðnað mjög í kjölfar þeirrar ákvörðunar Rússa að sölsa undir sig austurhéruðin Lúhansk og Dónetsk frekar en að leggja ofuráherslu á höfuðborgina Kænugarð. Hernám Severódónetsk og nágrannaborgarinnar Lísítjansk yrði stórt skref innrásarhersins í átt að því að hafa tögl og hagldir í Lúhansk-héraðinu.

Hinn Bretinn sem týnt hefur lífi sínu á vígvöllum Úkraínu er Scott Sibley, einnig fyrrverandi hermaður sem hélt til átakasvæðanna sem sjálfboðaliði, og í vor fluttu breskir fjölmiðlar fregnir af því að tveir Bretar til viðbótar, þeir Aiden Aslin og Shaun Pinner, hefðu gefist upp fyrir Rússum þegar þeir urðu skotfæralausir í borginni Maríupól og verið teknir höndum.

Samkvæmt því sem faðirinn Dean Gatley ritar á Facebook-síðu sína hafa fjölskyldunni borist ýmsar orðsendingar frá hópnum sem hermaðurinn fyrrverandi starfaði helst með að vörnum Severódónetsk og honum þar borin vel sagan, sagður hafa búið yfir víðtækri hernaðarlegri kunnáttu og verið hvers manns hugljúfi. „Jordan og hópurinn hans gengu með stolti til sinna verka og hann sagði gjarnan við mig að starf þeirra væri háskalegt, en nauðsynlegt. Hann unni starfi sínu og við erum ákaflega stolt af honum,“ ritar faðirinn að auki.

Vara við ferðum til Úkraínu

Breska utanríkisráðuneytið ræður borgurum sínum eindregið frá því að leggja leið sína til Úkraínu auk þess sem varnarmálaráðuneyti landsins hefur látið í veðri vaka að breskir ríkisborgarar sem halda þangað með það fyrir augum að leggja heimamönnum lið í stríðinu gerðust hugsanlega brotlegir við lög og gætu átt ákærur yfir höfði sér. Yfirmaður breska heraflans bað landa sína þess í mars að fara ekki til Úkraínu til þess að taka þátt í stríðsátökum heldur finna aðrar leiðir til að styðja úkraínsku þjóðina á ögurstundu.