Sigurgísli Skúlason
Sigurgísli Skúlason
Eftir Sigurgísla Skúlason: "Lúther talaði fyrir galdrabrennum: „Guð mun aðeins frelsa einn tíunda hluta mannanna.“"

Séra Davíð Þór sagði í nýlegu viðtali: „Ég veit í sjálfu sér ekki hvort Guð er til eða ekki.“ Þessi ágæti prestur virðist hins vegar ekki efast um tilvist djöfulsins og helvítis samkvæmt nýlegum yfirlýsingum. Samkvæmt kenningu Lúthers eru litlar líkur á að maðurinn komist til himnaríkis. Jafnvel prósenta hinna frelsuðu er fyrirframákveðin. Guð ber einn ábyrgð á frelsuninni og ákveður sjálfur hverjum hann veitir náð. Það leiðir Lúther til kenningarinnar um fyrirætlun Guðs, forákvörðunina. Á andlega sviðinu er allt fyrirframákveðið og einstaklingurinn fær engu ráðið. Lúther fullyrti að „Guð mun aðeins frelsa einn tíunda hluta mannanna“; þ.e.a.s. 10% komast til himnaríkis sem þýðir þá að 90% neyðast til að sætta sig við helvíti. Lúther skipti kenningu sinni í fjórar einingar: Trúin ein, náðin ein, ritningin ein og Kristur einn. Mestu máli skiptir hin guðdómlega hlið, náðin ein. Náðin ein er þungamiðja nauðhyggjunnar. Lúther var mikill nauðhyggjumaður, ekkert pláss fyrir frjálsan vilja. (Heimild: Sjö goðsagnir um Lúther eftir Frederik Stjernfelt, bls. 16. Ámundur Stefánsson þýddi.)

Halldór Laxness talaði um klámkjaftinn Lúther. Ekki er ólíklegt að séra Davíð sé og hafi verið innblásinn af Lúther. Lúther boðaði siðbót sína með sverði, ekki ólíkt því sem gerist hjá íslam eða múslimum. Það er óneitanlega talíbanabragur á predikunum Lúthers, ekki síður en hjá séra Davíð. Það á að senda íslenska stjórnmálamenn í þar til gerðar vistarverur í helvíti. Siðbótarmaðurinn Lúther tók virkan þátt í því að brenna menn á báli fyrir galdra, aðallega konur, sem hann taldi tengjast djöflinum betur en karlmenn. Prestar íslensku þjóðkirkjunnar eru sennilega að fylgja fyrirmælum Lúthers þegar þeir útskýra vistarverur helvítis og tilgang Guðs með þeim.

Þegar Þjóðverjar kynntust boðskap Lúthers var tal siðbótarmannsins um sterka þýska þjóðkirkju undir stjórn harðstjóra/einræðisherra eins og ljúf tónlist í eyrum þýskra nasista. Lúther taldi harðstjórn heppilegasta stjórnarfarið. Lúther var gyðingahatari og hvatti til að bænahús þeirra yrðu brennd. (Heimild: Sjö goðsagnir um Lúther.)

Sumir þjóðkirkjuprestar telja sig geta ákveðið hverjir fari til helvítis og hverjir ekki. Vandinn er bara sá að Lúther telur að enginn geti verið viss um að komast til himnaríkis. Þar kemur kenning hans um að „náðin ein“ ráði þar öllu og maðurinn geti engu ráðið um niðurstöðu Guðs, ekki einu sinni Davíð Þór sjálfur, sem telur sig þó vita hverjir eigi vísan stað í neðra. Enginn getur verið viss um að lenda í tíu prósentunum sem Lúther telur að muni hljóta náð fyrir augliti Guðs um að komast til himnaríkis.

Lúther sá og heyrði í púkum og djöflum allt í kringum sig. Hann taldi t.d. að páfinn í Róm væri sjálfur djöfullinn. Ef kvenfyrirlitning Lúthers, gyðingahatur eða ofsóknir á hendur fólki með önnur trúarbrögð eru nefnd kemur fljótlega að staðalsvarinu: „Þetta var tíðarandinn og Lúther var barn síns tíma.“ Sumir reyna að afsaka Lúther með tíðarandanum. Orðrétt segir prófessorinn Frederik Stjernfelt á bls. 89 í áðurnefndri bók um þetta atriði: „Það var ekkert í tíðarandanum sem gerði kröfu til þess að Lúther yrði sá andstutti, blóðþyrsti dómsdagsprédikari sem raun var á.“

„Fráhvarf frá hans eigin kenningu var guðlast og kallaði ekki aðeins á bannfæringu heldur dauða.“ (Sjö goðsagnir um Lúther, bls. 41.)

Orðrétt er haft eftir Lúther um konur í bók Stjernfelts, bls 66: „Karlar eru breiðir um brjóst og grannir um mjaðmir, þess vegna eru þeir skynsamir. Konur eru grannar um brjóst, með breiðar mjaðmir og rass. Konan skal ráða heima fyrir, það sýnir sköpunarverkið með breiðum mjöðmum, rassi og lærum, svo þær skulu sitja kyrrar. Þess vegna hefur hún enga andlega hæfileika.“

Lúther lét boðorðin 10 ekki flækjast fyrir sér. Sérstaklega hvatti hann stuðningsmenn sína til þess að brjóta sjötta boðorðið: Þú skalt ekki morð fremja. Þegar æðsti biskup lúthersku kirkjunnar í Saxlandi lét drepa 100.000 ánauðuga bændur skrifaði Lúther: „Það var ég, Marteinn Lúther, sem drap alla bændurna í uppreisninni því það var ég sem skipaði svo fyrir að þeir skyldu drepnir. Allt blóð þeirra er á herðum mínum.“ Síðan skrifar hann: „Því eiga allir, hver sem betur getur, að berja, drepa og stinga leynt og ljóst, minnugir þess að ekkert getur verið eitraðra, skaðvænna og djöfullegra en uppreisnarseggur.“ „Bændur hafa vonda samvisku og rangan málstað ... sérhver bóndi sem drepinn er er glataður á líkama og sál og eign djöfulsins um alla eilífð.“ (Sjö goðsagnir um Lúther, bls. 63.)

Það er ólíklegt að þessi skrif Lúthers hugnist sóknarprestinum í Laugarneskirkju. Eina sem mér dettur í hug að komið gæti að gagni við að skýra hugmyndir og hugarástand Lúthers er geðrannsókn.

Lúther er væntanlega átrúnaðargoð séra Davíðs og fyrirmynd í trúarlegum efnum. Prófessorinn Frederik Stjernfelt kemst hins vegar að því í bók sinni „Sjö goðsagnir um Lúther“ að þessi upphafsmaður lúthersku kirkjunnar hafi verið „andstuttur, blóðþyrstur dómsdagspredikari“.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Sigurgísla Skúlason