Vestmannaeyjar Hugmyndir um jarðgöng komu fram fyrir aldarfjórðungi.
Vestmannaeyjar Hugmyndir um jarðgöng komu fram fyrir aldarfjórðungi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Garðarsson Vestmannaeyjum Á fyrsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja á nýju kjörtímabili var tillaga Njáls Ragnarssonar um að fela bæjarstjóra og bæjarráði að ræða við stjórnvöld um að kanna fýsileika á gerð jarðganga milli Eyja og lands samþykkt með níu atkvæðum samhljóða. Í henni felst að afla gagna sem þegar liggja fyrir varðandi rannsóknir á jarðlögum og ljúka þeim. Einnig að uppfæra gögn sem þegar eru til um þjóðhagslegan ávinning af slíkri framkvæmd.

Ómar Garðarsson

Vestmannaeyjum

Á fyrsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja á nýju kjörtímabili var tillaga Njáls Ragnarssonar um að fela bæjarstjóra og bæjarráði að ræða við stjórnvöld um að kanna fýsileika á gerð jarðganga milli Eyja og lands samþykkt með níu atkvæðum samhljóða. Í henni felst að afla gagna sem þegar liggja fyrir varðandi rannsóknir á jarðlögum og ljúka þeim. Einnig að uppfæra gögn sem þegar eru til um þjóðhagslegan ávinning af slíkri framkvæmd.

Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður og blaðamaður, kom fyrst fram með hugmyndina fyrir um aldarfjórðungi og fagnar að nú eigi að dusta rykið af gögnum sem þegar liggja fyrir og gera frekari rannsóknir ef þarf.

„Ég hef aldrei verið í vafa um að göng milli Eyja og lands séu raunhæfur möguleiki. Það hefur lengi legið fyrir að þetta er hægt,“ segir Árni. „Eimskip lét gera úttekt á hugsanlegum göngum, rannsókn sem að mig minnir kostaði fimm milljónir. Þetta er gerlegt og engin fyrirstaða en göng hér á milli kosta 70 milljarða króna. Það er ekki svo mikið þegar horft er á árlegan kostnað við að halda uppi samgöngum á sjó milli Eyja og lands. Þetta er bara bisness.“

Árni segir magnað að sjá að nú sé bæjarstjórn komin af stað. „Kominn tími til. Þetta er framtíðin og ég hef trú á að núverandi bæjarstjórn geti hreyft við málinu. Það munu ekki líða önnur 25 ár áður en fyrsti bíllinn fer í gegnum göngin. Kannski tíu ár. Það er alveg raunhæft en þá þarf að vinna hratt og ákveðið og beita þeim þrýstingi sem þarf.“

Þarf ekki að leita langt

Árni segir hugmyndina hafa orðið til þegar menn settust niður og fóru að kanna möguleika á bættum samgöngum til Vestmannaeyja. „Við Magnús Kristinsson útgerðarmaður fórum á ráðstefnur erlendis og kynntum okkur jarðgangagerð. Það var aldrei spurning að göng eru möguleiki. Við þurfum ekki að leita langt og gaman að sjá Færeyinga gera þetta eins og menn. Af miklum krafti og með trú á framtíðinni,“ sagði Árni.

Í greinargerð segir að lengi hafi verið rætt um möguleikann á jarðgöngum milli Vestmannaeyja og lands. Á síðasta ári var lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um rannsóknir á jarðlögum milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum með tilliti til fýsileika jarðganga á milli Eyja og lands.

Í meistararitgerð Víðis Þorvarðarsonar frá 2020 kemur fram að þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum geti verið um 95 milljarðar króna. Rekstur Herjólfs kosti um 650 milljónir á ári, dýpkun Landeyjahafnar um 400 milljónir og nýtt skip, sem endurnýja þarf á tíu til fimmtán ára fresti kosti um 5 milljarða.