Oft var áður sagt að svo lengi væri hægt að ljúga að sumir færu að trúa. Þetta er þekkt, og þegar ráðandi öfl í fjölmiðlaheiminum, blöðum, sjónvarpi og útvarpi, hamra á sömu lyginni nógu lengi þá er ekkert undarlegt að sumir fari að trúa. Því sannleikurinn er aldrei sagður og fær aldrei að sjást eða heyrast.
Þöggun er annar þáttur í fjölmiðlaheiminum sem er af sama toga, þ.e. að segja ekki frá þeim atburðum sem skaða aðila í valdastöðum í þjóðfélaginu, hvorki í pólitíkinni né efnahagslegum samsteypum.
Þetta má kalla andlegt vopn og getur verið afar sterkt í baráttu um völd og áhrif.
Í BNA eru gífurlega fjársterkir aðilar í fjölmiðlageiranum, í blaðaútgáfu, útvarpi, sjónvarpi og ekki síst í kvikmyndagerð. Ég held að það sé nokkuð öruggt að engin þjóð hafi framleitt fleiri kvikmyndir á undanförnum árum en Bandaríkjamenn. Í kvikmyndum auglýstu þeir sig mjög vel á mörgum sviðum. Þar fóru hetjur um héruð og heiminn, riðu á hestum sem hertækjum og unnu marga sigra. Þessir fjölmiðlayfirburðir BNA hafa haft mikil áhrif í Evrópu um alls konar málefni og skoðanir almennings.
Og allt ber hér að sama brunni; að rugla svo einstaklinginn að hann sé ófær um að mynda sér skoðun sem byggð er á viðurkenndum staðreyndum. Þetta er það sem kallað er heilaþvottur.
Þessi þáttur í baráttu þjóða og einstaklinga getur verið mjög áhrifamikill til að ná völdum og því vil ég kalla þetta andlegt vopn. Þetta vopn drepur menn ekki líkamlega en getur verið mjög stór þáttur í átökum aðila um völd og áhrif og valdið styrjöld eins og nú er háð í Úkraínu. Bandaríkjamenn hafa verið afburðasnjallir að beita þessu vopni á undanförnum árum og það svo að hálfur heimurinn lítur á BNA sem vin sinn og verndara. Einnig hafa þeir nýtt sér mjög vel fjölmiðlavopnið til að stofna bandalög þjóða eins og Atlantshafsbandalagið.
Sovétríkin sálugu eru nú ekki svipur hjá sjón frá því sem þau voru við endalok heimsstyrjaldarinnar með Rússland í broddi fylkingar. Þá var öll Austur-Evrópa, frá Eystrasalti til Svartahafs að Tyrklandi, á áhrifasvæði Rússlands. Í dag eru öll Eystrasaltslöndin sjálfstæð og Pólland, Ungverjaland, Úkraína, Tékkland, Rúmenía og Georgía.
Svo vikið sé að tilurð þessa stríðs þá er hún að mínu mati að undirlagi BNA.
Þeir buðu forseta Úkraínu að koma í NATO, sem orsakaði það að hernaðarbandalag var komið á þröskuldinn að Rússlandi, þ.e. landamæri þess.
Stofnun NATO, Atlantshafsbandalagsins, var 1949 að frumkvæði BNA og var hugsað í upphafi sem varnarbandalag þjóðanna við norðanvert Atlantshaf.
Í því voru þeir ráðandi sem gefur að skilja vegna stærðar herskipaflota þeirra. Þá var kalda stríðið í hámarki og voru Bandaríkjamenn og Rússar í kapphlaupi með að framleiða kjarnorkuknúna kafbáta sem skotið gætu kjarnorkusprengjum frá kafbátunum.
Þáttur Bandaríkjanna í heimssögunni er blóðugri en flestra annarra þjóða og frá síðari heimsstyrjöldinni hafa þeir átta sinnum háð styrjöld.
Höfundur er eldri borgari.