[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Björnsson fæddist 18. júní 1962 á Selfossi en ólst upp í Úthlíð í Biskupstungum, þeim þekkta ferðaþjónustubæ. „Í minni barnæsku var á Úthlíð algjörlega hefðbundinn sveitabúskapur, kýr og kindur.

Ólafur Björnsson fæddist 18. júní 1962 á Selfossi en ólst upp í Úthlíð í Biskupstungum, þeim þekkta ferðaþjónustubæ. „Í minni barnæsku var á Úthlíð algjörlega hefðbundinn sveitabúskapur, kýr og kindur. Þarna voru afi og amma, langamma og föðurbróðir minn, Jón Hilmar Sigurðsson, bóndi og langhlaupari. Tungurnar voru frekar afskekktar lengi vel, sem dæmi kom rafmagnið ekki fyrr en 1966. Síðan breytist þetta 1978 þegar foreldrar mínir taka alfarið við búskapnum og fara meira í ferðaþjónustu og minnka hefðbundinn búskap. Þá var ég farinn í nám en ég var öll sumur og allar helgar heima í Úthlíð. Svo fara foreldrar mínir alfarið út í ferðaþjónustu, 1993, en þá voru þau búin að finna heitt vatn á svæðinu. Önnur stór breyting verður síðan 2004 þegar mamma fellur frá og þá komum við systkinin inn í reksturinn og hlutafélag er stofnað.“

Ólafur gekk í grunnskóla í Reykholti og Skálholti í Biskupstungum og varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1982. Hann fór síðan í lagadeildina við Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í lögfræði 1987.

Ólafur var lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg 1987-1989 en hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður og fasteignasali frá 1989 til dagsins í dag. Hann var einn af stofnendum Lögmanna Suðurlands, sem var lengi stærsta lögmannastofan á Suðurlandi, með tíu manna starfslið. Hann seldi sinn hlut í vetur og stofnaði Lögmannssstofu Ólafs Björnssonar með Skúla syni sínum og Kristófer tengdasyni.

„Við tökum við öllum málum þegar maður er lögmaður á landsbyggðinni; einkamálum, opinberum málum, sakamálum og alls kyns búskiptum. Starfið tók síðan óvænta stefnu árið 1999 þegar þjóðlendumálin komu fram og íslenska ríkið fór að gera kröfu um að stórir hlutar af landinu yrðu þjóðlenda sem áður voru kallaðir afréttir og almenningar. Fyrsta krafa íslenska ríkisins var sett fram 1. mars 1999 hér á Suðurlandi um að stór hluti jarða bænda í uppsveitum Árnessýslu yrði þjóðlenda auk allra afréttarlanda. Þetta lenti fljótt inni á mínu borði, m.a. vegna þessa að það var gerð mikil krafa í Úthlíð, mína heimajörð. Við fórum að verjast þessu fyrir bændur og málin hafa þróast þannig að ég hef verið að vinna í þessu alla tíð síðan. Ég hef því verið að vinna fyrir bændur og landeigendur umhverfis landið í 23 ár í þessu máli sem hefur verið talsverður hluti af minni vinnu. Ég hef ferðast mikið út af þessu og verið tímafrek vinna en engu að síður afskaplega skemmtileg og gefandi. Ég hef kynnst landinu og fólkinu sem vissi ekki betur en það ætti sitt land.“

Niðurstöður í málunum hafa fallið á báða vegu. „Það er oft hárfín lína hvort landið lendir sem eignarland eða þjóðlenda og hvorum megin sönnunarbyrðin liggur. Úr þessum málum hefur orðið til mikið gagnasafn og ég hef sagt að þjóðlendumálin séu nýjasta jarðabók Íslands, eins og sú sem Árni Magnússon og Páll Vídalín voru látnir gera 1703. Núna sér svo sem fyrir endann á þjóðlendumálinu, en óbyggðanefnd er að fara að taka fyrir síðustu jarðirnar.“

Ólafur var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi 1998-2002, sat í samkeppnisráði 1994-2006, var formaður knattspyrnudeildar Ungmennafélags Selfoss 1991-1993, formaður Sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi 1993-1998 og varaformaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins í Árborg 2008-2022. Hann hefur verið í íþróttadómstól ÍSÍ í tæp 20 ár.

Helstu áhugamál Ólafs eru golf, hestamennska og ræktun sauðfjár. „Svo er ég í Karlakór Selfoss og var lengi formaður utanfaranefndar kórsins, en við höfum m.a. farið til St. Pétursborgar og Bolzano á Ítalíu. Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í kórstafinu. Þetta er 60 manna kór og er mitt bakland, bæði í blíðu og stríðu.“

Fjölskylda

Eiginkona Ólafs er Inga Margrét Skúladóttir, f. 12.12. 1960, félagsráðgjafi. „Við bjuggum í Reykjavík þegar ég var í skóla og vann þar en fluttum á Selfoss 1991 og höfum verið hér síðan. Ég hef verið bóndi í Úthlíð í hjáverkum frá 2004 og við erum því líka mikið þar.“ Foreldrar Ingu Margrétar voru hjónin Egill Skúli Ingibergsson, f. 23.3. 1926, d. 22.12. 2021, verkfræðingur og borgarstjóri, og Ólöf Elín Davíðsdóttir, f 6.8. 1930, d. 11.9. 2019, húsmóðir og verslunarmaður. Þau gengu í hjónaband 1952 og voru búsett í Reykjavík.

Börn Ólafs og Ingu Margrétar eru: 1) Andri Björn, f. 10.2. 1986, tölvunarfræðingur á Selfossi; 2) Ólöf Sif, f. 31.7. 1987, húsmóðir á Selfossi. Maki: Kristófer Ari Te Maiharoa, lögfræðingur. Börn þeirra eru Inga Birna, f. 2012, og Rakel Nadia, f. 2016; 3) Skúli Geir, f. 19.7. 1994, lögfræðingur á Selfossi. Maki: Bertha María Arnarsdóttir sálfræðingur. Barn þeirra er Hekla Margrét, f. 14.7. 2020; 4) Ágústa Margrét, f. 26.8. 1996, verkfræðingur í Skollagróf í Hrunamannahreppi. Maki: Guðjón Örn Sigurðsson, bóndi í Skollagróf. Dóttir þeirra er Elín Fjóla, f. 30.9. 2021.

Systkini Ólafs eru dr. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir á Hólum í Hjaltadal, f. 7.1. 1964; Hjördís Björnsdóttir, framkvæmdastjóri í Úthlíð, f 10.5. 1966, og Jónína Birna Björnsdóttir, markaðsstjóri í Hafnarfirði, f. 20.10. 1971.

Foreldrar Ólafs: Hjónin Björn Sigurðsson, f. 6.7. 1935, bóndi í Úthlíð, og Ágústa Margrét Ólafsdóttir, f. 6.11. 1935, d. 20.9. 2004, húsmóðir í Úthlíð. Þau gengu í hjónaband 1961.