Kúnstir Með leyfisgjöldum freistaði McDonalds þess að lækka skattstofn sinn í Frakklandi.
Kúnstir Með leyfisgjöldum freistaði McDonalds þess að lækka skattstofn sinn í Frakklandi. — PASCAL GUYOT / AFP
Skyndibitarisinn McDonalds hefur fallist á að greiða nærri 1,25 milljarða evra sekt og komast þannig hjá dómsmáli um meint skattaundanskot á árunum 2009 til 2020.

Skyndibitarisinn McDonalds hefur fallist á að greiða nærri 1,25 milljarða evra sekt og komast þannig hjá dómsmáli um meint skattaundanskot á árunum 2009 til 2020.

Hefur dómstóll í París fallist á að McDonalds greiði annars vegar 508 milljóna evra sekt og hins vegar 737 milljónir evra í vangoldna skatta, en skyndibitastaðakeðjunni er gefið að sök að hafa beitt fjárhagslegum brellum til að lækka skattbyrði sína.

Árið 2014 hófst umfangsmikil rannsókn á skattamálum McDonalds í Frakklandi og vöknuðu grundsemdir um að greiðslur til móðurfélags í Lúxemborg ættu sér ekki eðlilega skýringu.

Ku veitingastaðakeðjan hafa hagað málum þannig að veitingastaðirnir í Frakklandi greiddu félaginu í Lúxemborg hátt gjald fyrir að nota vörumerki fyrirtækisins. Töldu rannsakendur ljóst að um sýndarviðskipti væri að ræða og tilgangurinn aðallega að færa tekjur félagsins frá háskattalandinu Frakklandi yfir í öllu hagfelldara skattaumhverfi í Lúxemborg.

Voru greiðslurnar til félagsins í Lúxemborg mjög breytilegar á milli veitingastaða, án þess að greina mætti nokkra ástæðu fyrir misháum gjöldum, og þótti það sýna að greiðslurnar hefðu fyrst og fremst þann tilgang að lækka tekjuskattstofn McDonalds í Frakklandi.

Á tímabilinu sem um ræðir greiddi McDonalds 2,2 milljarða evra í skatta af starfsemi veitingastaðakeðjunnar í Frakklandi.

Um er að ræða næststærstu skattasekt sem greidd hefur verið í Frakklandi en met var slegið árið 2020 þegar flugvélaframleiðandinn Airbus þurfti að greiða stjórnvöldum 2,1 milljarð evra vegna vangoldinna skatta. ai@mbl.is