Nanna Jakobsdóttir fæddist 27. janúar 1936. Hún lést 11. maí 2022.

Útförin fór fram 24. maí 2022.

Mig langar að minnast hér á minningasíðum Morgunblaðsins vinkonu móður minnar og móður vinkonu minnar, Nönnu Jakobsdóttur, sem dó 11. þ.m. Hrafnhildur og Nanna, frúin á númer 20 og frúin á númer 30 við Móabarð í Hafnarfirði, sátu saman í tveimur eldhúsum, annað var appelsínugult, hitt blátt, löngum stundum, oftast á morgnana, en líka síðdegis. Þær lögðu fallega á borð fyrir tvær, sparibollana, krús með molum í og hreinan öskubakka. Mamma reykti kent og Nanna handrúllaði. Ef Nanna átti sígarettupakka geymdi hún pakkann í fallegu leðurhylki. Vinkonurnar ræddu um bækur, bækur og aftur bækur. Þær voru lestrarhestar, eða lestrargeitur, eða lestrarspætur, spenntar og æstar fyrir hverri nýrri bók eftir þær Jakobínu Sigurðardóttur og Svövu Jakobsdóttur, og fleiri og fleiri. Þegar ég var svo lítil að ég gat falið mig í skoti appelsínugula eldhússins sat ég þarna og hlustaði á samtölin. Eða lá undir borðinu frammi á gangi. Bókmenntaumræðan var eldheit. Svo ræddu þær leikhús, jafnrétti og stjórnmál. Nanna bjó í undursamlegri kyrrð. Í stofu hennar og Sveinbjörns voru bækur og málverk og þægileg og skemmtileg húsgögn, stór gluggi sem mér finnst að vísi út í blómagarðsríki. Þarna tefldum við Hildur Sveinbjörns- og Nönnudóttir og spiluðum og ég starði og gat ekki hætt því á málverk af systkinum við arineld. Rólegheitin á heimilinu held ég að bókmenntaástin hafi kynnt og líka algjörlega hinn kímnigáfaði spekingur sem var Nanna. Fjölskyldu Nönnu Jakobsdóttur sendi ég mínar hjartans samúðarkveðjur.

Kristín Ómarsdóttir (Stína).