Alissa White-Gluz, söngkona Arch Enemy.
Alissa White-Gluz, söngkona Arch Enemy. — AFP/Vivien Killilea
Nýtt efni Nú eru aðeins tveir mánuðir þangað til Deceivers, ellefta breiðskífa Arch Enemy, lítur dagsins ljós en melódíska dauðamálmbandið frá Svíþjóð hefur ekki sent frá sér nýtt efni í fimm ár.
Nýtt efni Nú eru aðeins tveir mánuðir þangað til Deceivers, ellefta breiðskífa Arch Enemy, lítur dagsins ljós en melódíska dauðamálmbandið frá Svíþjóð hefur ekki sent frá sér nýtt efni í fimm ár. Í samtali við málmgagnið Blabbermouth upplýsir gítarleikarinn Michael Amott að bandið finni fyrir mikilli eftirvæntingu en það lauk nýverið við Ameríkutúr. Þvert á spár virðist Arch Enemy njóta enn meiri lýðhylli eftir að skipt var um söngkonu fyrir átta árum og hin kanadíska Alissa White-Gluz leysti hina þýsku Angelu Gossow af hólmi. Amott kveðst þó ekki búa yfir neinni leyniformúlu. „Ég segi bara eins og Elvis: Ég veit ekkert um tónlist. Ég fylgi hvorki formúlu né ákveðnu verklagi. Þarf þess ekki. Treysti bara á innblásturinn og hugmyndaflugið.“