Listakona Julie Lænkholm.
Listakona Julie Lænkholm.
Danska myndlistarkonan Julie Lænkholm opnar sýninguna We the Mountain , eða Fjallið við , í Ásmundarsal í dag, 18. júní, kl. 14.

Danska myndlistarkonan Julie Lænkholm opnar sýninguna We the Mountain , eða Fjallið við , í Ásmundarsal í dag, 18. júní, kl. 14.

Í tilkynningu segir að hugmyndafræði Lænkholms eigi rætur að rekja til hugmynda- og aðferðafræði sem snýst um sameiginlega þekkingu og samlærdóm kynslóða. „Hún kannar aðferðir og venjur sem hafa borist munnlega frá kynslóð til kynslóðar, og leggur áherslu í vinnuferli sínu á sögu kvenna sem oft hefur legið í dvala eða gleymst. Hún dregur þá sögu aftur upp á yfirborðið og staðsetur inn í samtímaorðræðu,“ segir í tilkynningu.

Verk sín vinnur Lænkholm oft í textíl og notar hún efni og ull frá ættarbæ sínum Húsavík. Þar kynntist hún jurtalitun í fyrsta sinn og textílaðferðum sem hafa mótað iðkun hennar síðan, skv. tilkynningu. Segir að Lænkholm telji ljóðstafi felast í öllu efni og vinni á þessari sýningu með ljóð Guðnýjar frá Klömbrum, „Saknaðarljóð“, og skoði hvernig sársauki og lækning birtist í senn í ljóðinu. Samlækning og arfleiddur sársauki var rannsóknarefni Lænkholm þegar hún vann að verkum sýningarinnar. Bauð hún þá gestum að taka þátt í opinni rannsóknarvinnu sem hét Wool Gathering, á vinnustofu sinni í Gryfjunni í Ásmundarsal. Á hverri samkomu deildi gestakennari þekkingu sinni til að skapa sameiginlega lækningaleið.

„Sem listamaður er ég aðeins þátttakandi í sköpunarferli verks. Ég reyni að vera farvegur sem leiðir hið ytra niður í gegnum höfuðið og hjartað og út um hendurnar. Þannig get ég búið til hluti sem eru handan minnar ímyndunar og það er miklu áhugaverðara en að ofhugsa verk,“ segir Lænkholm í tilkynningu.

Lænkholm er fædd 1985 og lauk námi við Parsons, The New School of Design í New York en er einnig menntaður hjúkrunarfræðingur með sérhæfingu í hjartaskurðlækningum.