Ólafur Halldórsson
Ólafur Halldórsson
Eftir Ólaf Halldórsson: "Homo sapiens veiðir fuglana með öflugum drápstækjum, en kettirnir stunda fuglaveiðarnar á meiri jafningjagrunni. Þeir nota hvorki byssur né boga."

Prímatategundin Homo sapiens er engu öðru lík. Á steinöld fór tegund þessi í gegnum vitsmunabyltingu sem hafði í för með sér framleiðslu fjölbreytilegra tækja og tilkomu háþróaðs tungumáls. Í kjölfarið gjörbreytti þessi nakti api orkubúskap sínum með banvænum veiðitækjum og byltingarkenndum aðferðum við tilreiðslu matar. Landbúnaðarbyltingin setti svo tilveru Homo sapiens eiginlega á annan endann. Henni fylgdu hugvitsamlegar aðferðir við að lifa á grasi (með því að breyta því í brauð og bjór) og gríðarleg söfnun orkubirgða (korn o.fl.) með meðfylgjandi græðgi og misskiptingu auðs. Landbúnaðarbyltingin breytti líka reglum samfélagsins á víðtækan hátt; tengslum kynja, stjórnun samfélagsins, stéttaskiptingu o.fl. Homo sapiens var varla búinn að aðlagast þessum nýmælum þegar hann efndi í nýjar byltingar í lífi sínu: Vísindabyltingu og iðnbyltingarnar. Áður en hendi var veifað hafði þessi prímati lagt undir sig jörðina, erfðabreytt öðrum lífverum sem komu honum að gagni, tamið sum dýr og útrýmt öðrum. Homo sapiens á því ekki öðru að venjast en að hin dýrin séu auðsveip, enda gildi um þau aðrar reglur.

Það er stundum kostulegt að fylgjast með yfirlæti Homo sapiens. Hann má allt en aðrir helst ekkert. Um nokkurt skeið hefur verið agnúast út í lausagöngu katta. Þeir eiga það nefnilega til að veiða einn og einn fugl. En hér á landi veiðir Homo sapiens fugla í stórum stíl og aðstöðumunurinn er töluverður. Homo sapiens veiðir fuglana með öflugum drápstækjum, en kettirnir stunda fuglaveiðarnar á meiri jafningjagrunni. Þeir nota hvorki byssur né boga og örvar. Ganga semsagt til veiðanna óvopnaðir með öllu.

Einnig hefur Homo sapiens pirrað sig á plöntunni lúpínu. Kallar hana ágenga, innflutta tegund (hann flutti hana reyndar inn sjálfur!) En ágengasta innflutta tegundin hér á landi er sjálfur Homo sapiens. Þegar þessi tegund kom hingað til lands varð hún fljótt ágengasta tegund á þessu landi fyrr og síðar. Hún flutti inn ýmsar aðrar framandi og ágengar tegundir (kindur, svín o.fl) og umbylti vistkerfum landsins. Fyrir í landinu var annað spendýr sem hafði verið hér í óratíma, Vulpes lagopus eða refurinn. Varla var Homo sapiens fyrr fluttur hingað til lands en hann fór að kvarta yfir refnum sem ágengri tegund! Þetta minnir á það þegar nokkrir einstaklingar af tegundinni Homo sapiens keyptu sér hús í nýju hverfi vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði. Ekki leið á löngu þar til sumir þeirra ráku upp stór augu og sögðu: Það er mengandi álverksmiðja hérna rétt hjá okkur! Burt með hana!

Homo sapiens er skrýtin dýrategund, en forvitnileg, og það er sífelld uppspretta undrunar að fylgjast með atferli hennar.

Höfundur er BS í líffræði.

Höf.: Ólaf Halldórsson