París. AFP. | Stafrænar myndir af marglyttum, sem bylgjast og veltast um í myrku, bleiku hafi eða tugir fiðrilda sem renna saman í eina lífveru – margir eru þeirrar hyggju að þar liggi næstu stórtíðindin í listheiminum.
Argentínski listamaðurinn Sofia Crespo gerði listaverkin sem hér er lýst, með hjálp gervigreindar. Hún er hluti af hreyfingu listamanna, sem setja tölvum reglur og nota algrím eða reiknirita til að búa til ný form, hugmyndir og mynstur.
Þessi geiri er farinn að vekja mikla athygli listaverkasafnara og verðmiðarnir á uppboðum hækka hratt.
Bandaríski listamaðurinn og forritarinn Robbie Barrat – sem kallaður hefur verið undrabarn og er aðeins 22 ára gamall – seldi verk sem heitir „Nude Portrait#7Frame#64“ á uppboði hjá Sotheby's í mars fyrir 630.000 pund (102 milljónir króna) í mars.
Fyrir fjórum árum seldist verkið „Edmond de Belamy“ eftir frönsku listasmiðjuna Obvious fyrir 432.500 dollara (57 milljónir króna) hjá Christie's. Það verk var að miklu leyti byggt á algrími Barrats.
Ballett manna og véla
Safnarinn Jason Baily sagði við AFP að þessi gerð af list væri eins og „ballett milli manna og véla“.Vera kann að þessi listgrein hafi vart slitið barnsskónum en búist er við að miklar breytingar séu í vændum, því að nú er von á öflugum gervigreindarverkfærum, sem geta á nokkrum sekúndum spýtt út myndum af svipuðum gæðum og ljósmyndir.
Listamenn í Þýskalandi og Bandaríkjunum ruddu brautina í tölvugerðri list á sjöunda áratug 20. aldar.
Í eign V&A-safnsins í London eru verk frá síðustu 50 árum, þar á meðal lykilverkið „Plastik 1“ eftir þýska listamanninn Georg Nees frá 1968. Nees notaði handahófskenndan tölvubrunn til að búa til geometrískt mynstur fyrir höggmynd.
Nú nota stafrænir listamenn ofurtölvur og kerfi, sem nefnast Generative Adversarial Networks (GANs) til að búa til myndir, sem eru flóknari en nokkuð sem Nees hefði getað gert sér í hugarlund.
GANs eru gervigreindarforrit, sem etja kappi hvert við annað. Annað forritið býr til mynd samkvæmt leiðbeiningum, hitt er eins konar vaktmaður, sem metur hvort útkoman stenst gerðar kröfur.
Ef svo er ekki, er myndin send til baka til lagfæringar og fyrra forritið reynir að gera betur til að hljóta náð fyrir augum vaktmannsins.
Crespo, Barrat og aðrir í þeirra hópi halda því fram að listamaðurinn sé enn miðpunkturinn í sköpuninni, þótt aðferðir þeirra séu ekki hefðbundnar.
„Þegar ég vinn svona er ég ekki að búa til mynd. Ég er að búa til kerfi sem býr til myndir,“ sagði Barrat við AFP.
Barnapía tölvunnar
Crespo sagði að hún teldi að gervigreindarvélin gæti orðið sannur samverkamaður en í raun væri ótrúlega erfitt að láta eina línu af tölvukóða búa til viðunandi niðurstöður. Nær væri að segja að hún væri eins og barnapía tölvunnar.Tæknifyrirtækin vona að þau geti gert almenningi kleift að nota þessa tækni. Fyrirtækin Google og Open AI hafa hampað nýjum verkfærum, sem þau segja að búi yfir ljósmyndaraunsæi og gefi fólki tækifæri til að sleppa sköpunargáfunni lausri, án þess að búa yfir forritunarþekkingu. Þessi verkfæri breyta mæltu máli í myndir.
Á vefsíðu Google Imagen eru alls kyns furðumyndir búnar til eftir fyrirmælum á borð við: „Lítill kaktus með stráhatt og neon-sólgleraugu í Sahara-eyðimörkinni.“
Forsvarsmenn Open AI halda því fram að forritið Dalle-2 geti borið á borð hvaða listastefnu sem er, hvort sem það er í anda flæmsku meistaranna eða Andys Warhols.
Innreið gervigreindar hefur vakið ótta um að vélar muni taka við af mönnum í allt frá samskiptum við viðskiptavini til blaðamennsku, en listamenn líta svo á að tækniþróunin sé tækifæri frekar en ógn.
Crespo hefur prófað Dalle-2 og segir að þetta sé nýtt stig í að búa til myndir en hún kjósi frekar að nota gömlu tæknina, GANs. Frekar en að ná fram nákvæmni í vinnslu verkanna, vilji hún að hlutirnir hafi órætt útlit og séu ekki auðþekkjanlegir.
Camille Lenglois starfar hjá Pompidou-miðstðöinni í París þar sem er að finna mesta safn samtímalistar í Evrópu. Hún gerir líka lítið úr hugmyndum um að vélar séu að leysa manninn af hólmi. Enn búi vélar hvorki yfir getu til gagnrýninnar hugsunar né sköpunargáfu. Hún bætir við: „Getan til að búa til raunverulegar myndir skapar ekki listamann.“