Meðalfellsvatnið var spegilslétt og algjör kyrrð ríkti í sveitinni hans Björns Inga Knútssonar þegar blaðamann bar að garði einn fagran sumarmorgun í júní. Björn Ingi býr allt árið í kring í sumarbústað við vatnið og er útsýnið út um stofugluggann eitt og sér nógu góð ástæða fyrir því. Björn Ingi hefur staðið í ströngu undanfarið við að byggja útiborðstofu við hlið hússins síns þar sem hann hyggst reka vínskóla innan skamms. Vínskólinn við vatnið hefur verið draumur hans lengi en vínáhuginn, sem lengi hefur verið fyrir hendi, hefur aðeins farið vaxandi með árunum. Björn Ingi hefur ferðast víða um heim og klárað ýmis viðurkennd vínnámskeið, nokkuð sem aðeins allra áhugasömustu vínáhugamenn myndu leggja á sig.
Vínfræðsla er aðalatriðið
Það er bæði hlýlegt og smart í Vínskólanum hans Björns Inga. Langt tréborð smellpassar inn í rýmið og þar geta gestir horft út á vatn á sólsetrið á meðan þeir dreypa á eðalvínum þessa heims. Á einum vegg er betrekkt með lokum af vínkössum úr tré sem gefur herberginu skemmtilegan blæ. Björn Ingi hellir upp á dásamlegt kaffi og býður upp á fersk kirsuber og súkkulaði sem er ekki amalegt að gæða sér á með morgunkaffinu. Hann kemur sér vel fyrir og segir blaðamanni allt um ástríðuna fyrir vínum og hvernig hann brennur fyrir að vekja áhuga annarra á þeim guðaveigum.„Ég er einn í þessari kennslu til að byrja með en konan mín Rakel mun stíga inn í ef við þurfum að vera tvö. Ég mun taka hér á móti hópum og hef tekið nokkra hópa nú þegar í prufur. Ég hef ástríðu fyrir þessu og er sjálfur mjög fróðleiksþyrstur en efnið er viðamikið og endalaust hægt að læra,“ segir hann og segist hlakka til að taka á móti fyrstu gestunum en hann mun taka hámark tíu manns á námskeið. Björn Ingi segist ætla að bjóða upp á einhver námskeið fyrir ferðamenn, þótt hann hugsi þau fyrst og fremst fyrir landann.
„Fyrir ferðamenn mun ég bjóða upp á íslenska smárétti beint frá býlum hér í kring og para saman við vín,“ segir hann en segist alla jafna ekki ætla að bjóða upp á mat þar sem þetta er ekki veitingahús heldur fræðsla og smökkun, og þar er vín og matpörun eitt viðfangsefnið. Til dæmis verður í vetur sérstakt námskeið um hvernig eigi að para saman vín og hefðbundinn jólamat okkar Íslendinga.
„Fólk segir gjarnan að það sé að koma í vínsmökkun til mín en ég leiðrétti það alltaf því fólk er að koma hingað í vínfræðslu. Vínsmökkun er þegar söluaðili leyfir þér að smakka afurð sína til að selja þér hana og kynna. Ég er ekki að kynna neinar vörur og þessi námskeið eru ekki fyrir fólk sem er að leita að djammi eða gæsa- og steggjapartíum. Þetta eru hágæðanámskeið,“ segir hann en þess má geta að fyrstu námskeiðin verða nú í ágúst og hægt er að nálgast upplýsingar á vinskolinnvidvatnid.is.
Ævintýri í Kyrrahafinu
Þessi mikli vínáhugi og ástríða kviknaði allra fyrst þegar Björn Ingi bjó í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, en þar bjó hann frá ársbyrjun 1996 til ársloka 1998. Þar starfaði hann sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá frönsku skipafélagi.„Ég var fyrst í Sydney og síðar í Auckland en athafnasvæði fyrirtækisins var Suður-Kyrrahaf. Ég fór oft í ferðir til Papúa Nýju-Gíneu, Fídjí, Nýju-Kaledóníu og margra fleiri eyja. Þetta var mikið ævintýri. Ég hafði verið farinn að smakka vín áður en ég bjó í þessum löndum en þarna vaknaði áhugi á að vita meira um vín og víngerð frá þessum stöðum. Það var vínbúð rétt hjá þar sem ég bjó og einu sinni í viku mættu þangað vínbændur til að kynna afurð sína. Ég vandi komur mínar þangað til að hlusta og smakka og þar kviknaði þessi áhugi fyrir alvöru,“ segir Björn Ingi en hann flutti svo heim og tók við stöðu flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli.
„Ég hafði þá ekki mikinn tíma til að sinna þessu áhugamáli því ég var í mjög annasömu starfi en áhuginn var enn fyrir hendi og ég notaði tækifærið þegar ég gat til að heimsækja vínræktarhéruð ef ég var í fríi,“ segir Björn Ingi sem er nú nýhættur sem yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, en vinnur enn þar sem ráðgjafi í samgöngu- og flugmálum.
Hann dreymir um að gera vínfræðsluna að aðalstarfi.
„Ég er að keyra þetta verkefni áfram og hef mikinn metnað fyrir því. Ég veit að ég verð aldrei ríkur af þessu en þetta veitir mér mikla ánægju og ég brenn fyrir þetta.“
Erum ekki vínræktarland
Eitt leiddi af öðru og vínáhuginn óx og varð að mikilli ástríðu. Einhvers staðar á leiðinni kviknaði hugmynd sem nú er að verða að veruleika.„Ég er búinn að ganga með þessa hugmynd í maganum í fjölda ára, að setja upp vínskóla,“ segir hann og segist hafa viljað sérhanna hann fyrir Íslendinga.
„Við erum ekki vínræktarland og því finnst mér vanta að fólk viti meira um hvernig léttvín er búið til, um þrúgurnar, landslagið, loftslagið og jarðveginn. Ég hef sett upp námskeiðin þannig að þau eru afar fræðandi,“ segir hann og segir hvert námskeið taka tvo til tvo og hálfan tíma.
„Ég byrja á að bjóða upp á smá freyðivín í glas og útskýri hvað það er og hvernig það er búið til. Ég segi líka frá glösunum og hvers vegna þau eru eins og þau eru. Ég er svo með myndir á glærum og tala út frá þeim. Eftir um klukkutíma af bóklegri fræðslu smökkum við tvö rauðvín og tvö hvítvín, sem eru þá hvor af sínum ásnum. Við smökkum annars vegar arómatískt hvítvín og hins vegar hvítvín eins og Chardonnay sem er unnið öðruvísi. Varðandi rauðvínið smökkum við létta þrúgu, sem er ljós á lit, og einnig stórt og höfugt vín, kraftmikið,“ segir hann og segir fólk hafa tækifæri á að spýta ef það svo kjósi, enda eru ef til vill einhverjir bílstjórar í hópnum.
„Við reynum að taka fyrir eitt vínræktarsvæði, eða eitt land, en ég hef tekið sérstök próf í gegnum tíðina eins og WSET L-3 (Wine and Spirit Educational Trust) og svo námskeið þar sem eitt sérstakt vínræktarland er tekið fyrir á vegum Wine Scholar Guild. Þar hef ég lokið prófi í Frakklandi og Spáni, og er sem stendur að læra um Ítalíu,“ segir Björn Ingi og bendir á innrömmuð skírteini á veggjum máli sínu til stuðnings.
Í dag er ég alæta
Við göngum út fyrir skólann og skoðum fallegt umhverfið. Tíkin Esja fær að fylgja með og er afar spök og gæf. Björn Ingi og Esja setjast út á bekk og blaðamaður smellir af nokkrum myndum. Það er ekki úr vegi að spyrja að lokum hvort ástríðuvínáhugamaðurinn og vínkennarinn tilvonandi eigi sér uppáhaldsvín.„Ég er alæta en verð að viðurkenna að ég hafði viljandi haldið Frakklandi utan við mengið af því að það er frekað flókið og auðveldara að byrja á löndum eins og Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Ég elskaði nýsjálensk hvítvín og mörg áströlsk kraftmikil vín höfðuðu mjög til mín í byrjun. Svo hefur það breyst og ég er í dag alæta. Mér finnst núna til dæmis Spánn einstaklega sjarmerandi vínræktarland og hef ferðast þar töluvert um. Þar er mikil flóra í bæði rauðvíni og hvítvíni,“ segir hann og segir einnig að Ítalía höfði mikið til sín.
Það er ljóst að Björn Ingi er eins og barn sem getur ekki beðið eftir jólunum; hann getur ekki beðið eftir að opna Vínskólann við vatnið.
„Ég mun nálgast viðfangsefnið þannig að almenningur geti haft af bæði gagn og gaman. Ég mun tala mannamál og við munum hafa léttleikann að leiðarljósi meðan við fræðumst um þetta heillandi viðfangsefni.“