Austin Butler á rauða dreglinum í Lundúnum á dögunum.
Austin Butler á rauða dreglinum í Lundúnum á dögunum. — AFP/Justin Tallis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ævi rokkkóngsins Elvis Presleys er rakin í tali og tónum í kvikmyndinni Elvis, sem kemur í bíó í næstu viku. Baz Luhrmann leikstýrir og lítt þekktur leikari, Austin Butler, fer með aðalhlutverkið. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Frammistaða hans er ekkert minna en stórkostleg. Hann tekur af tærri fegurð utan um hjarta og sál föður míns. Það er auðmjúk skoðun mín að þessi frammistaða sé fordæmalaus og LOKSINS er þetta gert af nákvæmni og virðingu.“

Þannig komst Lisa Marie, einkadóttir rokkkóngsins Elvis Presleys, að orði á samfélagsmiðlinum Instagram eftir að hafa séð Austin Butler túlka föður sinn í flunkunýrri kvikmynd Baz Luhrmanns, Elvis.

Móðir hennar, Priscilla, tók í sama streng á Facebook: „Austin Butler, sem lék Elvis, er frábær. Um miðja mynd litum við Jerry [Schiller, náinn samstarfsmaður Elvis, sem fékk einkasýningu með henni] hvort á annað og sögðum: VÁ!!! Bravó fyrir honum ... hann vissi að hann væri að feta í stór fótspor. Ég get rétt ímyndað mér að hann hafi verið gríðarlega taugaóstyrkur.“

Betra veganesti getur bandaríski leikarinn varla fengið en myndin, sem frumsýnd var í kvikmyndahátíðinni í Cannes í lok maí, verður aðgengileg alþýðu manna í öllum betri kvikmyndahúsum, vítt og breitt um heiminn, frá og með lokum næstu viku.

Gagnrýnendur eru upp til hópa sammála mæðgunum; Butler þykir negla Elvis og margir spá honum tilnefningu til Óskarsverðlauna.

„Hann fer á kostum, sérstaklega í fyrri hluta myndarinnar, með einlægum takti sem fær okkur til að hugsa hvaða hæðum Elvis hefði getað náð hefði hann ekki orðið fórnarlamb skuggahliðar sinnar eigin frægðar,“ skrifar Pete Hammond í Deadline Hollywood og bætir við að Butler sé sem skapaður fyrir hlutverkið.

Philip De Semlyen, gagnrýnandi Time Out, segir að þegar Butler hnykki mjöðmunum í fyrsta sinn á sviði í myndinni, sé það eins og að „horfa á tvær stjörnur fæðast í senn“.

Myndin sjálf fær gegnumsneitt frekar jákvæða dóma, þó inn á milli megi finna gagnrýnendur sem eru ekki eins hrifnir.

Um er að ræða ævisögulega kvikmynd sem segir sögu Elvis frá því að hann var barn og þangað til hann féll frá langt fyrir aldur fram, lúinn á líkama og sál. Þar á milli slær hann rækilega í gegn sem rokkari og kvikmyndaleikari, svo annað eins hefur varla sést. Fá menn örlög sín í vöggugjöf eða knýja þau einfaldlega dyra? Þá fer talsvert rými undir flókið samband Elvis við umboðsmann sinn, Tom Parker ofursta, sem Tom Hanks leikur, einnig við mikla hrifningu gagnrýnenda. „Sumir myndu segja að ég væri skúrkurinn í þessari sögu,“ segir Hanks seiðandi röddu í stiklu myndarinnar. En deildu þeir Elvis mögulega bara sömu ástríðu, sömu sýn?

Eðli málsins samkvæmt er tónlistin rauður þráður gegnum myndina og hver Elvis-smellurinn af öðrum fær að heyrast. „Ef þú þorir ekki að orða hugsun þína þá skaltu syngja!“ segir Elvis í stiklunni.

Elvis syngur að vonum sjálfur, eins Austin Butler, en einnig koma við sögu listamenn á borð við Stevie Nicks, Eminem & CeeLo Green, Kacey Musgraves, Måneskin og Jack White. Þá samdi tónlistarkonan Doja Cat sérstaklega lag fyrir myndina undir sterkum áhrifum frá Elvis. Það heitir því viðeigandi nafni Vegas.

Myndin var lengi í pípunum en strax árið 2014 var gert heyrinkunnugt að ástralski leikstjórinn Baz Luhrmann hygðist gera sögu Elvis skil á hvíta tjaldinu. Hann er kunnur fyrir myndir á borð við Rauðu mylluna, William Shakespeare's Romeo + Juliet og Strictly Ballroom. Luhrmann skrifaði handritið sjálfur ásamt Sam Bromell, Craig Pearce og Jeremy Doner.

Skriður komst þó ekki á verkefnið fyrr en 2019, þegar Butler var ráðinn í aðalhlutverkið og hristi þar af sér áskorendur á borð við Ansel Elgort, Miles Teller og Harry Styles. Tökur hófust í janúar 2020 en lágu niðri mánuðum saman vegna heimsfaraldursins. Þeim lauk loks í mars í fyrra.

Endaði á spítala

Butler gaf sig allan í verkefnið og endaði meira að segja á spítala degi eftir að tökum lauk. „Ég vaknaði sárkvalinn og brunað var með mig á spítala,“ segir hann í samtali við breska tímaritið GQ.

Hann mun hafa verið greindur með sýkingu og þurfti að liggja inni í heila viku. Butler er ekki í nokkrum vafa um að veikindin hafi tengst verkefninu, enda hafi hann verið lengi í karakter. „Líkami minn gaf sig bara eftir að ég hætti að vera Elvis,“ segir hann.

Í viðtalinu kemur fram að hans nánustu hafi tekið eftir breytingum á Butler meðan á gerð myndarinnar stóð og að rödd hans sé önnur í dag. „Fjölskyldan segir að ég hljómi ekki lengur eins og ég sjálfur,“ segir hann.

Butler þurfti að skipta tíma sínum milli Elvis og sjónvarpsmyndaflokksins Masters of the Air, sem gerist í seinna stríði, en alltaf fylgdi kóngurinn honum.

„Ég hugsaði með mér: Svona hefur Elvis liðið þegar hann var kvaddur í herinn. Eina stundina er maður umkringdur veinandi aðdáendum og þá næstu kominn í einkennisbúning, eins og hver annar maður.“

Cary Fukunaga, leikstjóri Master of the Air, fór ekki varhluta af þessu. „Þegar hann mætti á svæðið var heilmikill Elvis í honum,“ hefur GQ eftir honum.

Sjálfur viðurkennir Butler að honum þyki vænst um Elvis af öllu því fólki sem hann hefur aldrei hitt. Þeir eiga líka sitthvað sameiginlegt.

„Móðir hans féll frá þegar hann var 23 ára og móðir mín dó einnig þegar ég var 23 ára. Ég fékk gæsahúð þegar ég komst að þessu og ég hugsaði með mér: Gott og vel, ég get tengt við þetta.“

Hvort Butler á svo nokkurn tímann eftir að losa sig við Elvis, mun tíminn leiða í ljós.

Lék kaldrifjaðan morðingja

Austin Butler er þrítugur að aldri, fæddur í ágúst 1991. Fram að þessu hefur hann einkum verið þekktur fyrir leik sinn í myndaflokkum í sjónvarpi, svo sem Switched at Birth, The Carrie Diaries og The Shannara Chronicles. Þá fór hann vel með hlutverk hins kaldrifjaða morðingja Tex Watsons í kvikmynd Quentins Tarantinos Once Upon a Time in Hollywood árið 2019 þannig að hann hefur áður spreytt sig á persónu sem í raun og sann er/var til. Næsta verkefni Butlers á hvíta tjaldinu er vísindaskáldsagan Dune: Part Two.

Kvikmyndir um ævi þekktra dægurtónlistarmanna hafa á umliðnum árum vakið mikla lukku og vinsældir þeirra í kjölfarið aukist, nægir þar að nefna Bohemian Rhapsody um Freddie Mercury og Rocketman um Elton John. Hvort Elvis fer á svipað flug á komandi vikum og mánuðum verður að teljast frekar sennilegt. Ekki satt?