Ingibjörg Sigríður Pétursdóttir fæddist 2. maí 1930. Hún lést 27. maí 2022.

Foreldrar hennar voru Ólafía Sigurðardóttir frá Eyri við Önundarfjörð og Pétur Jónsson frá Kimbastöðum í Skagafirði.

Hún var áttunda í röð 13 systkina.

Ingibjörg fór ung til starfa á Akranesi og þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum, Jakob Jóhannesi Sigurðssyni, f. 18. júlí 1926, d. 9. júní 2012.

Börn þeirra urðu tvö: Ólafur Pétur, f. 30. apríl 1950, maki María Jakobsson, og Sigurður Rúnar, f. 11. maí 1952, maki Björg Óskarsdóttir. Barnabörnin eru Sigrún Sóley Ólafsdóttir, Lísa Ólafsdóttir, Ingibjörg Ylfa Ólafsdóttir, Jakob Jóhannes Sigurðsson og Óskar Sigurðsson.

Útförin hefur farið fram.

Inga móðursystir var engri lík, svo góð og hjálpsöm, einlæg og innileg. Fylgdist vel með öllum og var inni í málum, ávallt í góðu skapi og hugsaði fyrst og síðast um aðra og skildi varla að fólk ómakaði sig vegna hennar, eða hefði af henni áhyggjur. Fórnfús á tíma og óspör á allt hið góða. Þegar faðir okkar dó, kom Inga norður til Akureyrar, til þess að létta undir með mömmu og gerði það af nærgætni og kærleika, eins og allt sem hún tók sér fyrir hendur.

Inga hafði sérstaklega næmt auga fyrir hinu listræna og hvers kyns hannyrðir léku í höndunum á henni. Hún fylgdist með tíðarandanum og tískunni og gat saumað flíkur sem sómt hefðu sér á sýningarpöllum í París. Hún nam klæðskurð ung að árum og saumaskap stundaði hún alla tíð. Þá átti vefnaður einnig hug hennar og þar nutu myndrænir hæfileikar hennar sín í ofnum veggmyndum sem voru eins og fegurstu málverk. Margir í stórfjölskyldunni eiga slíkan vefnað eftir Ingu.

Inga bjó Jakobi og sonunum, Ólafi Pétri og Sigurði Rúnari, einstaklega fallegt heimili. Hver hlutur átti sér sinn stað og sögu – og minningarnar eru fjölmagar, hvort heldur í Bólstaðarhlíð, Hvassaleiti, Reynilundi eða Garðatorgi. Allt til mikillar fyrirmyndar og það var óvenjulega gaman að kíkja í heimsókn til Ingu og Jakobs. Á efri árum hóf hún að leika golf og var félagi í GKG um árabil. Golfið veitti henni yndi og var glíma sem átti við frænku, enda var hún aldursforseti og aufúsugestur á golfmóti afkomenda foreldra sinna.

Hún var létt á fæti og eitt sinn þegar henni var skutlað heim að Garðatorgi, fyrir fáeinum árum, kvaddi hún og hljóp frá bílnum svo undurlétt, hoppaði yfir polla á stéttinni, eins og unglingsstelpa.

Og nú er hún farin frá okkur, elsku frænka, sú næstsíðasta af 13 systkinum. Henni er vafalítið vel tekið í sumarlandinu og best gætum við trúað því að hún stykki þar léttfætt yfir laufgaðar greinar.

Við geymum fallega minningu um einstaka frænku. Blessuð sé hún og megi eilíflega vera almættinu fólgin.

Kæru frændur, Óli og Siggi, við vottum ykkur og fjölskyldum ykkar innilega samúð okkar.

Jón Rafn, Pálmi Ragnar, Katrín Ólína, Ragnhildur Ólafía og Dagbjört Helga – Hrafnhildar- og Pétursbörn.

Inga frænka og mamma okkar Björg voru systur, tvær úr 13 systkina hópi. Þær voru miklar vinkonur en sjö ár voru á milli þeirra, þær áttu líka börn á svipuðum aldri. Það var allnokkur samgangur á milli fjölskyldnanna, þótt Inga og Jakob byggju á Skaganum fyrstu hjúskaparárin.

Einhverju sinni fóru fjölskyldurnar saman í sunnudagsbíltúr til Þingvalla á Volkswagen-bjöllu þeirra Ingu og Jakobs, alls sjö manns, þá þétt setinn bekkurinn. Á meðan karlpeningurinn renndi fyrir fisk í vatninu tíndu kvenleggurinn og börnin ber. Mesta sportið var þó að drekka nestið „öll saman“ á teppi úti í guðsgrænni náttúrunni, þótt gæftir berja og fisks væru ekki miklar.

Það var sérstaklega gaman að fá Ingu frænku í heimsókn í Langagerðið á sjötta áratugnum. Þeir tímar voru oft rifjaðir upp, þegar frænka kom að sumri til í blíðskaparveðri, þá var lagst í sólbað úti í garði og mikið hlegið og skrafað. Á þannig dögum var hægt að drekka miðdegiskaffið úti, þar sem fram var borið franskbrauð með tómatsneiðum og gúrku ásamt ávaxtasafa eða mjólk. Í þá daga voru tómatar og gúrkur ekki í boði hversdags. Við stelpurnar nutum þess að vera með þeim systrum og dýrkuðum sólina eins lengi og hægt var þessa sólardaga.

Inga og mamma áttu sameiginlegt áhugamál sem var tíska og fatasaumur. Um þau mál var mikið rætt, spáð og spekúlerað. Þegar þær lögðust á eitt við að skapa nýja flík var ekki að spyrja að útkomunni sem var alltaf flott og óaðfinnanleg, svo sem brúðar- og ballkjólar okkar systra báru vitni um. Inga var samviskusöm, nákvæm og vandvirk með eindæmum og einstök smekkmanneskja svo að eftir var tekið. Allt sem hún tók sér fyrir hendur var 150%.

Inga frænka var í sérstöku uppáhaldi hjá okkur systrum. Hún var höfðingi heim að sækja og segja má að hún hafi borið okkur systur á höndum sér. Það var allaf stutt í gaman og grín með tilheyrandi: „stelpur gvuuuuuuuuuuuð...“ Það var mikið hlegið og grínast þegar systurnar hittust og nutum við dæturnar góðs af að hlusta á og taka þátt í glensinu. Hún var líka hlýr og góður vinur, ráðagóð og ætíð jákvæð og hvetjandi í okkar garð.

Á efri árum fór frænka að stunda golf, það gerði hún af sömu gæðum eins og allt annað sem hún tók sér fyrir hendur. Þar, sem og annars staðar, var hún ætíð til fara eins og klippt út úr tískublaði. Með hækkandi aldri og heilsubresti bar hún sig þó vel, var alltaf teinrétt í baki, smart og glæsileg.

Nú er komið að leiðarlokum, elsku Inga frænka, og kveðjum við þig með söknuð í hjarta og segjum: þar til næst eða þar til við hittumst hinum megin.

Þínar systradætur,

Sigrún (Sissa), Ólafía (Ollý),

Kolbrún (Kolla) og Björg (Dúlla).