Eftir fallið í vor sögðust oddvitar fráfarandi meirihluta í Reykjavík ætla að „haldast í hendur“ í framhaldinu, þar sem samstarfið hefði „gengið svo vel og þau náð góðum árangri“; hugarfar eins og á sönnu kærleiksheimili. Kjörinn fulltrúi VG tók hins vegar skilaboð kjósenda til greina og ákvað að standa á eigin fótum: „Ég vinn fyrir alla borgarbúa. Líka þá sem eru á móti mér.“ Eftir sat lífvana kærleiksheimili með 22 þúsund af 61 þúsund greiddum atkvæðum á bak við sig, sem þýddi að 64% kjósenda höfnuðu stefnu þess og aðgerðum frá fyrra kjörtímabili.
Ljúfsár mynd
Það er umhugsunarefni að téður meirihluti skuli hafa fallið eftir allan þann byr er féll honum í skaut í aðdraganda kosninganna. Þar bar hæst mótmæli og árásir – með stuðningi áhrifamikilla fjölmiðla og samfélagsmiðla – gegn stóru flokkunum og formönnum þeirra vegna bankasölu og meints rasisma. Fjarstæðukenndar vinsældir borgarstjórans virkuðu eflaust einnig sem lóð á vogarskálarnar. Meðan á mótmælum stóð á Austurvelli sást hann iðulega skjótast fram fyrir myndavélar fjölmiðla þar sem hann undirritaði vinsælar viljayfirlýsingar, opnaði viðburði og götuhátíðir og bauð afmælisárgöngum eftirlaunaþega til veisluhalda.
Ætla hefði mátt að hlaðvarpsviðtal Reykjavik Grapevine (youtube.com/watch?v=d-fV47BoouE&t=439s) við hann á ensku fáeinum dögum fyrir kosningar hefði jafnframt gefið byr þar sem kjósendum af erlendum uppruna fór nú fjölgandi. Þar lét borgarstjórinn undarleg orð falla um Framsóknarflokkinn og afstöðu hans til nýrra Íslendinga.
En þrátt fyrir allan meðvindinn birtist okkur ljúfsár mynd af lífvana kærleiksheimili, sem mátti muna fífil sinn ögn fegurri.
Gróskufundurinn
Framsóknarflokkurinn kaus að hefja viðræður við kærleiksheimilið, grunlaus um hinn magnaða pírataanda sem umlék það og þrátt fyrir ummæli borgarstjórans. Blásið var til Gróskufundar, fundar bjartra vona. Gamalkunnug loforð vöknuðu um fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð. „Við erum fólk sem erum málefnaleg,“ sagði oddviti Pírata af sannfæringarhita.
Þau orð hljómuðu sem fyrirheit um uppbyggilegra háttalag en í fyrra, þegar sami oddviti flutti ræðu sína um Sjálfstæðisflokkinn á fundi um ársreikning borgarinnar. Efni ræðunnar var í raun óboðlegt í ljósi 29. greinar sveitarstjórnarlaga og siðareglna borgarfulltrúa frá 2019 og undarlegt að engin eftirmál skyldu verða í kjölfarið; það minnti fremur á Morfís-ræðu sjálfumglaðs framhaldsskólanema en ræðu kjörins borgarfulltrúa með hálfa aðra milljón í laun úr vasa skattborgaranna ásamt öðrum hlunnindum.
Rætur kærleiksheimilisins
Tilurð kærleiksheimilisins er áhugaverð, í raun fullgilt rannsóknarefni doktorsnema á sviði stjórnmálafræða. Ræturnar liggja ekki djúpt en teygja sig víða, meðal annars til glundroða áranna 2006 til 2018 og eftirminnilegra átaka milli kjörinna fulltrúa innbyrðis og þvert á meiri- og minnihluta. Öfgar glundroðans risu hæst með grínframboði, er náði hylli kjósenda með bernskulegum húmor og kosningaloforðum – lýsandi fyrir fum og ráðaleysi kjósenda þess tíma. Framboðið var gjörningur, „stundum svolítið alvarlegur, stundum rosalega skemmtilegur og fyndinn“ sagði meðhjálpari þáverandi borgarstjóra þegar þessum ógæfulega farsa lauk.
Tilurð kærleiksheimilisins má einnig rekja til breytinga á sveitarstjórnarlögum, sem vinstri stjórn hafði fengið samþykktar á Alþingi. Samkvæmt þeim mátti fjölga borgarfulltrúum um 53% og sáu klókir hugsuðir smáflokka á vinstri armi þar tækifæri til að smala saman fulltrúum lítilla flokksbrota gegn höfuðandstæðingnum, er hlaut að venju flest atkvæði.
Án umræddra breytinga á sveitarstjórnarlögum hefðu furðufeikn eins og braggamálið, Vogabyggð með pálmatrjám, þétting byggðar um þróunarása borgarlínu og þrengingar stofnbrauta aldrei komið til sögunnar. Ekki heldur rándýr stafræn verkefni á borð við „Gróðurhúsið“. „Mannyrkjustöð“ Hljómskálagarðsins hefði ekki heldur komið til, þar sem borgarbúum býðst að „tengjast sinni innri plöntu“ með því að dýfa tánum í moldarílát og blanda saman við sveppi af kartnöglum annarra.
Framtíð kærleiksheimilisins
Eins og skrattinn úr sauðarleggnum bættist kærleiksheimilinu áðurnefndur liðsauki. Þar með hófst sú einkennilega atburðarás sem nú stendur yfir, sneydd allri lógík. Stjórnmálaflokkar sem hafa mæst eins og stálin stinn á Alþingi haldast nú í hendur í borginni með þann „píratalega sáttmála“ að leiðarljósi sem kjósendur höfnuðu.
Kærleiksheimilið minnir svolítið á kameljón; það er lífseigt, augun vísa sitt í hvora áttina og það getur skipt um lit eftir því hvernig landið liggur. Framtíðarflétta þess verður eins og spennandi bíómynd: Grípandi byrjun þar sem hinn mynddæli borgarstjóri verður í lykilhlutverki og svo torræð miðja þar sem frambjóðandi Framsóknar (RÚV?) fær að spreyta sig á píratalegri hugmyndafræði. Ógerlegt er að segja fyrir um endinn og því ástæða til að fylgjast vel með þar til bíóinu lýkur. Hjá okkur ríkir fulltrúalýðræði. Höfum hugfast að við, þessi 64% kjósenda, kusum ekki kærleiksheimilið. Var Framsóknarflokknum ljóst hvað við vildum?
Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum. meyvantth@gmail.com