Einar Baxter fæddist 11. október 1944. Hann lést 31. maí 2022. Útförin fór fram í kyrrþey.

Einar Baxter vinur minn og svili er allur eftir þunga sjúkdómslegu. Hann er harmdauði þeim, sem þekktu hann. Á kveðjustund langar mig til að minnast hans með nokkrum orðum og rifja upp minningar frá liðnum áratugum.

Einar var meðalmaður á hæð, ljós yfirlitum, léttur í spori og vel á sig kominn. Alltaf var hann snyrtilegur til fara.

Einar var í útliti líkur móðurfólki sínu frá Túni á Eyrarbakka og Egilsstaðakoti í Flóa. Hann var heilsugóður og árrisull með eindæmum. Ekki misdægurt áður en hann veiktist vorið 2019.

Veturinn 1962-1963 var hann í Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal í Biskupstungum. Fyrir tvítugt flutti Einar til Reykjavíkur.

Við Einar kynntumst á þorra 1969. Ég tel mig hafa kynnst Einari nokkuð vel. Við vorum mjög ólíkir en náðum þrátt fyrir það vel saman. Einar tók eftir mörgu sem aðrir veittu ekki athygli hér í Reykjavík. Hann var fróðleiksfús og las sér til um margt og mundi lengi.

Einar var ljúfur í viðmóti og ávarpsgóður en að vissu marki einfari og nokkuð sérvitur. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt hann hækka röddina öll þessi ár. Hann var góðviljaður maður sem vildi hjálpa sínu fólki ef hann hafði nokkur tök á. Einar og tengdafaðir okkar, Bjarni Þ. Vigfússon (1919-2007), náðu vel saman og reyndist Einar honum eins og besti sonur ef svo má að orði komast.

Frá unga aldri hafði Einar dálæti á bandarískum bílum og gjörþekkti þessa stóru bíla sem framleiddir voru eftir 1940. Ég man að 1969 átti Einar Chevrolet-fólksbíl, árgerð 1955. En síðast átti hann gamlan Lincoln sem hann notaði aðeins yfir sumarið. Það kom mér oft á óvart hversu vel hann var að sér um gamla bíla.

Lengi vann hann í múrverki með vini sínum Jóni Eðvaldssyni (1946-1982). Síðar var hann verkstjóri hjá Byggðaverki hf. þegar Kringlan var í byggingu. Júlíus Júlíusson (1942-2018), byggingameistari hjá Byggðaverki, og Einar urðu góðir vinir. Einar var röggsamur verkstjóri.

Síðast var hann leigubifreiðarstjóri hér í Reykjavík og átti alltaf bíl af gerðinni Toyota. Aðrar tegundir taldi hann bila of mikið! Fastir viðskiptavinir Einars voru margir og kunnu vel að meta hversu áreiðanlegur og hjálpsamur hann alltaf var.

Einar fór oft til Þýskalands. Þar var hann eins og heima hjá sér. Einar var vel heima í sögu Þýskalands og var það kappsmál að þekkja vel til staða og staðhátta. Hann hafði góða athyglisgáfu og tók vel eftir því sem fyrir augu hans bar á ferðalögum.

Hér heima fór hann flest sumur eina ferð með vinum sínum í veiði á Arnarvatnsheiði.

Ég á góðar minningar frá 1990 þegar ég var „handlangari“ og hann að múra raðhúsið í Jöklafoldinni.

Við hjónin þökkum Einari góð kynni og sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Þorgils Jónasson.