Eldflaugafyrirtækið SpaceX hefur rekið a.m.k. fimm starfsmenn eftir að þeir dreifðu bréfi þar sem þeir lýstu óánægju sinni með hegðun milljarðamæringsins Elons Musks, stofnanda og forstjóra félagsins.
Í bréfinu, sem deilt var á spjallsvæði starfsmanna helguðu andrúmslofti vinnustaðarins, stóð að framkoma Musks á opinberum vettvangi, og þá sérstaklega sú hegðun sem hann hefur sýnt af sér undanfarnar vikur, hafi dreift athyglinni frá meginverkefnum félagsins og verið starfsfólki SpaceX til vansa .
„Sem forstjóri félagsins og helsti talsmaður þess er Musk orðinn andlit SpaceX út á við og hvert tíst sem hann sendir frá sér er því í reynd yfirlýsing fyrir hönd félagsins,“ rituðu höfundar bréfsins.
Musk er þekktur fyrir að tjá sig mjög frjálslega á samfélagsmiðlum og hafa uppátæki hans oft hjálpað til að auka sýnileika þeirra fyrirtækja sem hann stýrir. Hefur Musk verið óvenju mikið í sviðsljósinu upp á síðkastið vegna fyrirhugaðra kaupa á Twitter . ai@mbl.is