Svartidauði kostaði að talið er allt að 40 milljónir manna lífið í Evrópu á miðöldum. Farsóttin barst til Messina á Sikiley haustið 1347 og breiddist hratt út við kjöraðstæður, hreinlæti verulega ábótavant og návígi mikið. Pestin barst með flóm, sem rottur báru á milli. Aðrar hafnarborgir tóku við og geisaði fyrsta bylgjan af svarta dauða í sex ár í Evrópu. Leitt hefur verið getum að því að hún hafi fellt allt að helming íbúa álfunnar.
Lengi hafa menn velt fyrir sér hvar svartidauði hafi átt uppruna sinn og hafa böndin meðal annars borist að Kína. Nú telja vísindamenn hins vegar að þeir gætu verið komnir með svarið. Þeir hafa rakið slóðina til vatns í háfjöllum Kirgistans. Þar fundust áletranir á legsteinum frá 18. öld sem vöktu spurningar; banameinin voru nefnd með orðum sem merkja plága og dauðinn mikli, en heimildir voru um að sama sótt hefði geisað þar allt frá 13. öld. Nokkuð er síðan þessar áletranir fundust, en nú hefur þeim verið fylgt eftir með því að grafa upp jarðneskar leifar, sem þar voru neðar moldu.
Tókst að finna erfðaefni úr Yersinia pestis sem veldur svartadauða og sem meira er að staðfesta að öll síðari afbrigði plágunnar væru komin af þeirri sem geisaði í Kirgistan.
Það er merkilegt að hægt skuli vera að greina uppruna faraldurs, sem geisaði fyrir mörgum öldum, en enn skuli allt vera á huldu um upphaf kórónuveirufaraldursins, sem í tvö ár lamaði heimsbyggðina.