Margir litu við hjá G. Run í Grundarfirði um sjómannadagshelgina þegar fólki bauðst að kynna sér starfsemina og nýtt hús netagerðar fyrirtækisins. Byggingin er 860 fermetrar að flatarmáli og er á hafnarsvæðinu í bænum. Áformað er að starfsemi hefjist í húsinu strax eftir sumarfrí, en að veiðarfæragerð hjá fyrirtækinu starfa tveir lærðir menn og einn sem er að læra fagið.
„Að byggja yfir netagerðina er hluti af þeirri uppbyggingu sem fyrirtækið hefur verið í síðustu árin. Verkefnin sem farið hefur verið í voru nauðsynleg til þess að við ættum framtíðina fyrir okkur,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G. Run. „Nýtt fiskvinnnsluhús var tekið í notkun fyrir um þremur árum og skipastóll okkar hefur verið endurnýjaður. Allt var þetta nauðsynlegt til að styrkja rekstur okkar og starfsemi til framtíðar, enda þótt skertar heimildir til veiða á næsta fiskveiðiári setji strik í reikninginn.“ sbs@mbl.is