Skúli Einarsson fv. formaður Matsveinafélags Íslands, fæddist á Raufarhöfn 23. júní 1926.

Hann lést 4. mars 2017.

Skúli Einarsson fv. formaður Matsveinafélags Íslands hefði orðið 96 ára 23. júní síðastliðinn. Skúli var kjörinn formaður Matsveinafélags Íslands árið 2004, 78 ára gamall. Hann sigldi félagi sínu í örugga höfn með sameiningu við Sjómannafélag Reykjavíkur og til varð Sjómannafélag Íslands. Skúli sigldi um heimsins höf og lifði ævintýri sjómennsku á mesta breytingaskeiði Íslandssögunnar.

Sjómannslíf, sjómannslíf,

draumur hins djarfa manns,

blikandi bárufans,

býður í trylltan dans.

Sjómannslíf, sjómannslíf,

ástir og ævintýr

fögnuð í faðmi býr,

brimhljóð og veðragnýr.

Ship-o-hoj, ship-o-hoj.

(Loftur Guðmundsson)

Skúli var pikkaló hjá frænda sínum, Jóhannesi Jósefssyni á Hótel Borg, og horfði á Winston Churchill halda ræða á svölum Alþingishússins í ágúst 1941. Guttinn opnaði dyr Hótels Borgar fyrir Marlene Dietrich þegar hún kom til að syngja fyrir ameríska hermenn. Síðari heimsstyrjöldin hafði brotist út í september 1939 og Ísland var hernumið af Bretum 10. maí 1940. Bandaríkjamenn höfðu tekið að sér hervernd Íslands. Stríð var fyrir ströndum. Orrustan um Atlantshafið stóð sem hæst.

Þó stríð væri fyrir ströndum, munstraði sextán ára guttinn sig sem messagutta á norskan ryðkláf, Tordenskjøld. Hann skildi eftir miða til forelda sinna: „Farinn á sjóinn. Kveðja Skúli.“ Útlitið var dökkt, þýskir kafbátar grönduðu kaupskipum Bandamanna á Atlantshafinu sem enginn væri morgundagurinn. Átján mánuðum síðar fór Skúli yfir á Dettifoss í siglingum yfir hafið til Bandaríkjanna. Tilviljun réð að Skúli var ekki um borð þegar þýskur kafbátur sökkti Dettifossi á Írlandshafi í febrúar 1945, fimmtán manns fórust.

Stríðinu lauk vorið 1945. Skúli var í Ameríkusiglingum og dokkaði við Bryggju 37 í New York. Stórborgin heillaði unga manninn. Manhattan var ævintýri líkust, Broadway, Empire State, Time Square. Skemmtistaðurinn Iceland var á 42. stræti þar sem dansað var öll kvöld, Russian Inn, Latin Quarter og Storkurinn þar sem íslensku sjómennirnir hittu kvikmyndadísina Ritu Hayworth sem var forvitin um hagi þeirra. Eftir stríð kom leikarinn heimsfrægi, Tyrone Power, til Íslands.

Skúli var kokkur á fjölmörgum skipum og bátum. Hann upplifði skútuöld, var munstraður á flutningaskútuna Ebbu Soffíu sem sigldi seglum þöndum milli Íslands og Evrópu, skírð í höfuðið á eiginkonu Óskars Íslandsbersa Halldórssonar, Ebbu Soffíu Kruuse. Skúli var á kolakyntum gufutogurum, nýsköpunartogurum og loks skuttogurum. Hann var á gömlu Súðinni, Heklu og Herðubreið í eigu Ríkisskipa, á hvalbátum feðganna í Hval. Skúli sigldi á vegum Skipadeildar SÍS Mælifelli, Arnarfelli, Stapafelli og Hvassafelli. Hann fór 100 daga skreiðartúr í skálmöldina í Nígeríu. Þá svaf Skúli með öxi undir kodda við öllu búinn enda skreiðin eftirsótt af glæpagengjum. Til skotbardaga kom þegar glæpagengi reyndi að komast um borð í Arnarfellið. Skipverjar gripu til vopna og hermenn skutu á eftir flýjandi ræningjum.

Skúli var liðlega hálfa öld til sjós og fór í land 1994. Hann var heiðraður á sjómannadaginn 1997. Skúli seldi ilúks-pylsur í miðbænum, sem auðvitað voru pylsur-skúli afturábak. Hann kórónaði lífsstarf sitt með því að koma Matsveinafélaginu í skjól.

Eiginkona Skúla var Inga Guðrún Ingimarsdóttir, sem lést í júlí 2001 eftir erfið veikindi, 72 ára að aldri. Þau höfðu þá kvatt dóttur sína, Jórunni Ingu, í september 1991, aðeins þrítuga eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Aðeins ári áður hafði hún fylgt manni sínum, Gunnari Eggerti Júlíussyni. Anna Linda tók að sér Gunnar Eggert, tveggja ára systurson sinn ásamt eiginmanni sínum, Pétri Kristjánssyni rokkara sem lést í september 2004.

Jónas Garðarsson.