Mynd af hermanni með svínsandlit, hálsklút með stjörnu Davíðs og áletrunina „Mossad“ á hjálminum á sýningunni Documenta í Þýskalandi hefur vakið harða gagnrýni. Verkið er eftir indónesíska listahópinn Taring Padi.
Mynd af hermanni með svínsandlit, hálsklút með stjörnu Davíðs og áletrunina „Mossad“ á hjálminum á sýningunni Documenta í Þýskalandi hefur vakið harða gagnrýni. Verkið er eftir indónesíska listahópinn Taring Padi. — AFP/Uwe Zucchi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Berlín. AFP. | Forystumenn gyðinga og sendiráð Ísraels í Þýskalandi lýstu í upphafi vikunnar yfir „andstyggð“ á andgyðinglegum myndum á Documenta, einni helstu listahátíð heimsins, sem haldin er í Kassel í Þýskalandi um þessar mundir.

Berlín. AFP. | Forystumenn gyðinga og sendiráð Ísraels í Þýskalandi lýstu í upphafi vikunnar yfir „andstyggð“ á andgyðinglegum myndum á Documenta, einni helstu listahátíð heimsins, sem haldin er í Kassel í Þýskalandi um þessar mundir.

Miklar deilur hafa staðið um hátíðina í aðdraganda hennar, vegna þess að hópi palestínskra listamanna, sem hafa gagnrýnt Ísrael harðlega, var boðið að taka þátt í henni.

Tveimur dögum eftir að hátíðin var sett, blossaði upp gagnrýni á indónesíska listahópinn Taring Padi, sem bæði þýsk stjórnvöld og talsmenn gyðinga sögðu að gengju of langt.

Ástæða þess er veggmynd, sem nefnist „Réttlæti fólksins“. Þar gefur að líta svín með hjálm, sem á er letrað „Mossad“, en svo nefnist þýska leyniþjónustan. Í sama verki er mynd af manni með langa lokka við gagnaugun, sem oft eru tengdir við strangtrúaða gyðinga. Hann er jafnframt með vígtennur, blóðhlaupin augu og svart höfuðfat með einkennisstöfum SS-sveita nasista.

„Okkur býður við andgyðinglegum þáttum sem eru til sýnis á Documenta 15-sýningunni,“ sagði í yfirlýsingu frá ísraelska sendiráðinu. „Þættir í ákveðnum verkum minna á áróður, sem Goebbels og þrjótar hans notuðu á svartnættistímum þýskrar sögu,“ sagði í yfirlýsingunni. Bætt var við: „Hér hefur ekki aðeins verið farið yfir allar rauðar línur, þær hafa verið tættar upp.“

Josef Schuster, forystumaður Miðstjórnarráðs gyðinga í Þýskalandi, sagði að „listrænu frelsi sleppti þar sem útlendingahatur hæfist“.

Claudia Roth, menningarráðherra Þýskalands, sagði einnig að þarna væri „takmörk listræns frelsis“ að finna og hvatti sýningarstjórana í Kassel til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana.

Volker Beck, forseti Þýsk-ísraelska félagsins, sagði í samtali við dagblaðið Bild að hann ætlaði að kæra myndina til saksóknara.

Í kjölfarið tilkynntu stjórnendur Documenta að indónesíski listahópurinn hefði ákveðið að hylja verkið og setja upp skýringar við hlið þess.

Rúmlega 1500 listamenn og hópar sýna verk sín á Documenta. Í fyrsta skipti frá því að hátíðin hóf göngu sína, árið 1955, sér hópur um stjórn sýningarinnar, Ruangrupa frá Indónesíu.

Í aðdraganda sýningarinnar var stjórnendahópurinn gagnrýndur fyrir að meðal sýnenda væri hópur, sem kallast The Question of Funding, vegna tengsla sinna við hreyfinguna BDS, sem vill sniðganga Ísrael.

Þýska þingið skilgreindi BDS sem andgyðingleg samtök árið 2019 og lagði bann við að opinbert fé rynni til þeirra. Um helmingurinn af ráðstöfunarfé Documenta, sem nemur 42 milljónum evra (5,8 milljörðum króna), rennur úr ríkissjóði.

Þegar Frank Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, opnaði sýninguna um liðna helgi, kvaðst hann hafa íhugað að sniðganga hana. Hann sagði að þótt einhver gagnrýni væri réttlætanleg á þætti í stefnu Ísraela, á borð við landnemabyggðir, væri viðurkenning á Ísraelsríki „grundvöllur og forsenda umræðunnar“ í Þýskalandi.

Hann sagði að það vekti óhug að aðilar utan Evrópu og Norður-Ameríku neituðu að taka þátt í menningarlegum viðburðum, sem gyðingar frá Ísrael tækju þátt í. Þá fannst forseta Þýskalands sláandi að enginn listamaður úr röðum ísraelskra gyðinga ætti fulltrúa á Documenta að þessu sinni.