Guðsþjónusta var haldin við útialtarið á Esjubergi á Kjalarnesi í gær í tilefni af Kjalarnesdögum. Fólk frá Úkraínu, sem nú býr á Kjalarnesi, var boðið sérstaklega velkomið. Eftir athöfnina var öllum boðið í kjötsúpuveislu í félagsheimilinu Fólkvangi.
Einnig fór fram í gær fjöruhreinsun og gróðursetning með Skógræktarfélagi Kjalnesinga.
Kjalarnesdagar hófust á fimmtudaginn og þeim lýkur á morgun. Dagskrá dagsins í dag hefst klukkan 14 í Fólkvangi við Klébergsskóla. Sirkus Ísland verður með sýningu klukkan 14.30, kaffihús verður opið og sölubásar, einnig verða hoppukastali og tívolítæki á staðnum. Björgunarsveitin Kjölur býður upp á fjórhjólaferðir og slökkvi- og björgunarsveitarbílar verða til sýnis ásamt ýmsu fleiru.
Á morgun verður m.a. boðið upp á ratleik klukkan 12 og örnefna- og sögugöngu með Sögufélaginu Steina kl. 16-18. Gangan hefst í Brautarholti og verður gengið þaðan að Arnarholti og Hofi. gudni@mbl.is