Guðný Jóna Jónsdóttir fæddist á Skálanesi í Gufudalssveit 13. desember 1939. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 27. maí 2022.

Foreldrar Guðnýjar voru Jón Einar Jónsson, ættaður úr Gufudalssveit, f. 9.11. 1900, d. 31.1. 1997, og Ingibjörg Jónsdóttir, ættuð af Barðaströnd og úr Arnarfirði, f. 9.1. 1902, d. 2.3. 1989, bændur á Skálanesi.

Systkini Guðnýjar eru: Jónína Sigurlína, f. 1925, d. 2012, Hallgrímur Valgeir, f. 1927, d. 2012, Aðalheiður Gyða, f. 1933, d. 2011, Kristjana Guðmunda, f. 1934, d. 2020, Erlingur, f. 1936, d. 1937, Jón Erlingur, f. 1938, Svanhildur, f. 1942, Hjördís, f. 1945, Sverrir Finnbogi, f. 1947. Auk þess átti Guðný þrjá uppeldisbræður: Víglund Ólafsson, f. 1921, d. 1950, Gunnar Ingva Hrólfsson, f. 1944 og Jón Inga Kristjánsson, f. 1953.

Börn Guðnýjar eru: 1) Snædís Gíslín Heiðarsdóttir, (uppeldisdóttir) f. 1962, gift Ragnari Ólafi Guðmundssyni, f. 1959, börn þeirra eru: 1.1) Guðný Ösp, f. 1983, gift Fannari Hjálmarssyni, f. 1983, börn þeirra eru 1.1.1) Þiðrik, f. 2009 og 1.1.2) Iðunn, f. 2012. 1.2) Elín Björg, f. 1989, hennar sambýlismaður er Jón Ævar Tómasson, f. 1986. Börn þeirra: 1.2.1) Íris Edda, f. 2015, 1.2.2) Kári Snær, f. 2016, 1.2.3) Gauti Hrafn, f. 2020. 1.3) Guðmundur, f. 1995, hans sambýliskona er Sigríður Margrét Ágústsdóttir, f. 1996. 2) Ásta Valdís Borgfjörð Aðalsteins, f. 1971, maki Jóhann Jóhannsson, f. 1969. Börn Ástu eru 2.1) Ella Margret, f. 2006 og Ian Arthur, f. 2009. 3) Jón Einar Reynisson, f. 1974. Hans sambýliskona er Birna Jónsdóttir, f. 1973. Börn Jóns eru: 3.1) Karen Birta, f. 2001, 3.2) Dagur Smári, f. 2008. 4) Óskar Leifur Arnarsson, f. 1981, hans sambýliskona er Inga Hlín Valdimarsdóttir, f. 1982, dætur þeirra eru: 4.1) Jóna Guðrún, f. 2017 og 4.2) Helga Margrét, f. 2021. 5) Guðmundur Ingiberg Arnarsson, f. 1983, hans sambýliskona er Katla Sólborg Friðriksdóttir, f. 1996. Synir Guðmundar eru: 5.1) Arnar Levý, f. 2011 og 5.2) Elmar Benvý, f. 2013.

Guðný ólst upp á Skálanesi við hefðbundin landbúnaðarstörf. Ung fór hún að aðstoða systkini sín við heimilishald og barnapössun. Hún starfaði í fiskvinnslu á Patreksfirði og Akranesi. Veturinn 1958-59 fór hún í húsmæðraskólann á Staðarfelli á Fellsströnd. Guðný starfaði meðal annars sem ráðskona hjá Vegagerðinni, ráðskona í Reykhólaskóla og við ræstingar.

Útför Guðnýjar fer fram frá Reykhólakirkju, Reykhólum, á morgun, sunnudaginn 26. júní 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Hér kveð ég hinstu kveðju elsku mömmu mína.

Ekki átti ég von á þessu þegar þú komst með okkur vestur á Patreksfjörð, á milli jóla og nýárs, að svona stutt væri eftir. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Það er samt svo dýrmætt að hugsa til þess tíma sem þú áttir með okkur og sérstaklega ömmustelpunum þínum. Ömmubörnin voru þér svo dýrmæt og eins og þú sagðir svo oft að það væri ekki hægt að láta sér leiðast í kringum börn. Börnin sem fengu að alast upp í kringum þig fengu dýrmætt veganesti inn í lífið, en önnur fóru á mis við svo margt. Eftir smá hálkubyltu í byrjun febrúar og innlit á sjúkrahúsið á Patreksfirði sagðir þú starfsfólkinu að þú ætlaðir bara að vera hér í sumar að passa ömmustelpurnar.

Það er svo skrítið að geta ekki tekið upp símann og slegið á þráðinn til þín. Sagt fréttir af lífinu hér fyrir vestan, leyfa þér að heyra í Jónu Guðrúnu og Helgu Margréti og spjalla um gamla tíma. Að geta ekki lengur hringt og beðið um ráð í allri matseld, verkunaraðferðir og geymslutíma, eldunartíma, jafnings- og sósugerð. Allar sögurnar af stórfjölskyldunni, formæðrum og forfeðrum, ástum og ævi. Af æsku þinni og uppeldi og kynnum af fólki. Minningarnar af fyrstu árunum í gamla torfbænum á Skálanesi með ömmurnar í kringum þig og þegar þið stóra fjölskyldan svo fluttuð í nýja steinsteypta húsið þegar þú varst 5 ára gömul. Hús sem í dag teldist minna en sumarhús. Það að vera fædd um það leyti þegar landið komst á á heimskortið og tæknibyltingin ruddist inn á ógnarhraða með öllum sínum breytingum. Þegar maður var yngri gat maður stundum orðið svolítið þreyttur í eyrunum að heyra allar þessar sögur en seinna urðu þær algjör fjarsjóður, veganesti og hluti af fræðum og grúski. Ég man þær ekki allar. Oft hef ég hugsað, og sérstaklega núna, að á akstri um Barðastrandarsýslur hefði ég átt að láta upptökutæki ganga.

Einhvern veginn tókst þér að láta hlutina ganga upp og koma fimm börnum út í heiminn þó stundum hafi á móti blásið. Þú varst alltaf svo hraust. Stundirnar út í náttúrunni hafa þar haft mikið að segja. Síðustu árin fór, eins og gengur með hækkandi aldri, að bera á ýmsum kvillum. En aldrei var kvartað. Í upphafi heimsfaraldursins, með öllum þeim töfum í heilbrigðisþjónustu og meðferð sem fylgdi, greindist þú með illkynja mein. Meðferðin virtist samt hafa gengið vel en í vor kom í ljós að meinið hafði tekið sig upp aftur.

Þessa vísu raulaði ég oft með þér þegar ég var lítill. Hvort þetta varð til hjá okkur eða hver höfundurinn er, veit ég ekki.

Bjart er yfir Breiðafjörð,

bæirnir í ljóma.

Skálanes og Reykhólar,

skarta þar með sóma.

Allt veganestið og stuðningurinn sem ég bý að er ég svo óendalega þakklátur fyrir. Þekkingin og minningarnar munu alltaf fylgja mér. Takk fyrir allt elsku mamma. Hvíl í Guðs friði.

Óskar Leifur.

„Ég skal mála allan heiminn elsku mamma, svo alltaf skíni sól í húsið þitt.“ Hversu oft ég söng þetta fyrir mömmu þegar ég var lítil stúlka og alltaf fékk ég bros og knús að launum, þetta lag áttum við saman.

Móðir mín var alltaf fínust allra, hún var gædd þeirri náðargáfu að vera einstaklega smekkleg og velja útlit sitt vel, hárið fallega lagt og fatnaðurinn elegant. Hún bar af á mannamótum enda lagði hún sig fram við að vera vel tilhöfð, eftir því var tekið og um það rætt.

Listamaðurinn móðir mín; man ég eftir öllum stundunum við eldhúsborðið heima þegar hún tók hvíta pappírinn utan af Tímanum og teiknaði heilu ævintýrin um hesta og kindur, krumma, hundana og önnur dýr í sveitinni, allt sem hún svo gæddi lífi með sinni einstöku sagnagáfu. Sagnagáfa hennar kom einnig mjög sterkt fram í riti, minnist ég sendibréfa hennar sem ég fékk send til Bandaríkjanna þar sem ég var skiptinemi, þau voru eins og spennandi framhaldssaga, ég gat ekki beðið eftir að finna ró og næði til að lesa þau, og engin leið var að leggja þau frá sér fyrr en lestri var lokið. Í sendibréfunum sagði hún ekki bara sögur af því sem drifið hafði á daga þeirra heima, heldur líka hvað væri í gangi á Íslandinu ylhýra, man ég er ég opnaði eitt bréfið og las upphafssetninguna: „Ríkisstjórn Íslands er fallin!“ og ég saup hveljur. Hún gerði svona einhvern veginn alla hluti skemmtilega og spennandi í frásögn sinni, meira að segja stjórnarkrísu á Íslandi fyrir 17 ára ungling í útlandinu.

Mamma var ljúf og góð, hlý og brosmild. Bjó hún yfir miklum húmor og gat fundið það spaugilega í hversdagslegum hlutum, skellihlegið að allskonar vitleysu í gestum og gangandi. Hún var ræðin og átti einstaklega auðvelt með að spjalla við alla um hvað sem var, alveg sama hvort hún var kunnug viðkomandi eður ei, hún var opin og hreif fólk með sér í sannri gleði um umræðuefnið hverju sinni. Mér er minnisstætt að einu sinni hringdi hún óvart í vitlaust númer og talaði í korter við ókunnuga manneskju, þetta var á meðan það kostaði skildinginn að nota símann, sagði ég við hana með brosi í röddinni: „Bara þú, mamma mín.“

Alltaf var hún tilbúin að hjálpa öðrum, hvort sem það voru vinir, fjölskylda, systkini, allir hafa notið góðs af hennar hjálpsemi og velvild. Það átti betur við mömmu að vinna fram eftir en að vakna fyrir allar aldir, enda var kvöldið tíminn sem hún gat notið þess að vera ein, þá hafði hún frið út af fyrir sig; frá erli dagsins, börnum og búi.

Hún var fædd og uppalin í sveit og það var alltaf sveitastelpa í henni. Sveitin og náttúran voru hennar, alltaf fannst henni best að komast út í náttúruna og njóta. Og nú ákveður hún að kveðja þennan heim þegar íslensk flóra skartar sínu fegursta.

Hvíla í friði, elsku mamma.

Frumburðurinn þinn,

Ásta Valdís Borgfjörð Aðalsteins.

Með sorg og söknuð í hjarta kveð ég elskulega móður mína.

Þetta líf er svo óútreiknanlegt. Aðeins fjórum dögum áður en mamma lést, spjölluðum við saman heillengi um daginn og veginn. Hún var staðráðin í að ná sér upp úr veikindunum og komast aftur heim, vestur í Reykhólasveitina.

En ég er þakklátur fyrir að eiga ótal minningar um samverustundir okkar mömmu síðustu 38 árin.

Þær sem standa helst upp úr eru ferðalögin okkar, bæði innanlands og utan. Betri ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér. Mamma gat sagt manni endalaust af sögum, ljóðum og fróðleik um gamla tímann og landið. Síðasta sumar fórum við Vestfjarðahring á sjómannadeginum og enduðum í veisluhöldum á Þingeyri hjá Snædísi og fjölskyldu. Þetta þótti mömmu alveg frábær ferð en hún hló líka að æðibunuganginum í mér.

Síðasta ferðalagið sem við fórum í saman var þegar við tvö keyrðum frá Þingeyri seinna um sumarið í blíðskaparveðri og tókum okkur allann heimsins tíma í að njóta dagsins. Við stoppuðum t.d. við Dynjanda, við Foss í Arnarfirði þar sem amma fæddist og á Hnjóti hjá Óskari og Ingu.

Við fórum líka í nokkur ferðalög út fyrir landsteinana, m.a. til Kaupmannahafnar, Belfast og Óslóar. Við höfðum látið okkur dreyma lengi um að heimsækja ættingja í Kanada og ætluðum að láta verða af því í haust að fara á ættarmót þar. Mikið hefði mömmu þótt það gaman.

Mamma var svo natin og barngóð. Hún var alltaf boðin og búin til að passa ömmustrákana sína, Arnar og Elmar. Þeir elskuðu ömmu sína svo mikið og þótti fátt betra en að vera heima hjá ömmu og leyfa henni að dekra við sig, en þeir voru henni svo dýrmætir. Amma leyfði þeim að bralla svo margt með sér og eldaði besta matinn fyrir þá. Núna munum við elda kubbasteik saman og minnast ömmu.

Elsku mamma, ég sakna þín svo mikið og tímanna okkar saman. Nú veit ég að þér líður vel og ert komin á vit ævintýranna.

Ég elska þig. Þinn sonur,

Guðmundur Ingiberg

Arnarsson.