Sigurmark Kristall Máni Ingason skoraði sigurmark Víkings í sigrinum nauma á Inter d'Escaldes í gærkvöldi með góðum skalla um miðjan síðari hálfleikinn. Um annað Evrópumark Kristals var að ræða í öðrum Evrópuleik hans.
Sigurmark Kristall Máni Ingason skoraði sigurmark Víkings í sigrinum nauma á Inter d'Escaldes í gærkvöldi með góðum skalla um miðjan síðari hálfleikinn. Um annað Evrópumark Kristals var að ræða í öðrum Evrópuleik hans. — Morgunblaðið/Hákon Pálsson
Evrópukeppni Gunnar Egill Daníelsson Víðir Sigurðsson Ríkjandi Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík unnu nauman 1:0-sigur á Inter d'Escaldes, meisturunum frá Andorra, í úrslitaleik forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Víkingsvelli í gærkvöldi, og tryggðu sér þar með sæti í undankeppni keppninnar.

Evrópukeppni

Gunnar Egill Daníelsson

Víðir Sigurðsson

Ríkjandi Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík unnu nauman 1:0-sigur á Inter d'Escaldes, meisturunum frá Andorra, í úrslitaleik forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Víkingsvelli í gærkvöldi, og tryggðu sér þar með sæti í undankeppni keppninnar.

Víkingur sýndi ekki sínar bestu hliðar í leiknum í gærkvöldi og þá sér í lagi ekki í fyrri hálfleik þegar gestirnir frá Andorra fengu tvö dauðafæri og langsamlega bestu færi hálfleiksins. Þau fóru þó sem betur fer forgörðum og staðan því markalaus í leikhléi.

Undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi síðari hálfleiks voru Víkingar búnir að ná betri stjórn á leiknum en tókst þó ekki að skapa sér færi. Það var ekki fyrr en Arnar Gunnlaugsson þjálfari hóf að gera skiptingar eftir tæplega klukkutíma leik að heimamenn sköpuðu sér loks færi að einhverju ráði.

Nikolaj Hansen komst nálægt því að koma Víkingum yfir á 65. mínútu þegar hann fékk góða sendingu frá varamanninum Karli Friðleifi Gunnarssyni en skaut rétt framhjá. Skömmu síðar, á 68. mínútu, kom svo sigurmarkið. Það skoraði Kristall Máni Ingason með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Karli Friðleifi.

Víkingar voru komnir á bragðið og fengu tvö góð færi til viðbótar nokkrum mínútum eftir markið. Þeim fór hins vegar fækkandi undir lokin er heimamenn ákváðu að freista þess að halda fengnum hlut og sigldu þeir að lokum naumum sigri í höfn.

Mæta Malmö og Milos næst

Sigur Víkinga þýðir að þeir mæta Svíþjóðarmeisturum Malmö í fyrstu umferð undankeppninnar en fyrri leikurinn fer fram í Malmö 5. júlí og sá seinni á Víkingsvellinum 12. eða 13. júlí.

Þjálfari Malmö er Milos Milojevic, þjálfari Víkinga á árunum 2015 til 2017 og áður leikmaður og aðstoðarþjálfari þeirra.

Sennilega eiga Víkingar ekki mikla möguleika á að slá Malmö út en sigurinn í gærkvöld gefur þeim eftir sem áður mjög góða möguleika fyrir framhaldið. Tapi þeir fyrir Malmö flytjast Víkingar yfir í 2. umferð Sambandsdeildarinnar þar sem þeir mæta tapliðinu úr viðureign The New Saints frá Wales og Linfield frá Norður-Írlandi. Þar ættu Víkingar að eiga virkilega möguleika á að sigra og komast enn lengra í keppninni.

Komi Víkingar hinsvegar á óvart með því að slá Malmö út fara þeir í 2. umferð Meistaradeildarinnar og mæta þar Ballkani frá Kósóvó eða Zalgiris frá Litháen. Þar ættu einnig að liggja talsverðir möguleikar á að komast lengra.

Andorramennirnir í Inter fara hinsvegar strax yfir í 2. umferð Sambandsdeildarinnar og mæta annaðhvort Pyunik Jerevan frá Armeníu eða CFR Cluj frá Rúmeníu. Tvö öflug lið þar á ferð og þrautreynd í Evrópumótum.