— Ljósmynd/Páll Stefánsson
Áhyggjurnar skína úr svip úkraínsks drengs í flóttamannabúðum í Palanca á landamærum Moldóvu og Úkraínu á meðan stúlkan við hlið hans leikur sér að því er virðist áhyggjulaus. Rúmlega hálf milljón flóttamanna frá Úkraínu hefur nú leitað hælis í Moldóvu.

Áhyggjurnar skína úr svip úkraínsks drengs í flóttamannabúðum í Palanca á landamærum Moldóvu og Úkraínu á meðan stúlkan við hlið hans leikur sér að því er virðist áhyggjulaus. Rúmlega hálf milljón flóttamanna frá Úkraínu hefur nú leitað hælis í Moldóvu. Moldóva er eitt fátækasta land Evrópu og þar búa 2,6 milljónir manna. Ekkert land hefur tekið á móti jafnmörgum flóttamönnum frá Úkraínu miðað við höfðatölu.

Moldóva fékk á fimmtudag stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu ásamt Úkraínu. „Framundan er erfið leið, sem mun krefjast mikillar vinnu og framtaks,“ sagði Maia Sandu, forseti Moldóvu, og gaf um leið til kynna að þessum tíðindum myndu fylgja aukin velferð, tækifæri og regla fyrir þjóð sína. Í Moldóvu var í fyrra kosin stjórn sem er hlynnt inngöngu í ESB. Hún hefur reynt að efla tengslin vestur á bóginn og óttast ásælni Rússa.

Páll Stefánsson ljósmyndari var á ferð í Moldóvu og kynnti sér stöðuna í landi sem á nóg með sjálft sig, en lætur sig ekki muna um að taka á móti flóttamönnum frá grannríkinu opnum örmum. Frásögn hans og myndir eru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.