[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lestur bóka hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu frá því ég man eftir mér.

Lestur bóka hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu frá því ég man eftir mér. Lestur minn hefur svo breyst nokkuð samhliða þeim miklu tæknibreytingum sem gengið hafa yfir heiminn undanfarinn áratug, sem sést kannski best á því að ég les orðið miklu meira beint af Ipad en af bókum.

Sem barn fékk ég sérstakt dálæti á Frank og Jóa -bókunum auk þess sem Daninn Ole Lund Kirkegaard var í miklu uppáhaldi. Á unglingsárum fór ég að lesa Morgan Kane , sem eru örugglega verstu bókmenntir sem ég hef lesið. Á sama tíma kynntist ég líka frumkvöðlum norrænu glæpasögunnar, Sjöwahl og Wahlöö. Síðan hef ég haft lítið gaman af slíkum bókmenntum að undanskildum Norðmanninum Jo Nesbö. Einnig tók ég ungur miklu ástfóstri við Einar Kárason.

Eftir því sem árin hafa liðið les ég þó minna af skáldskap nema þá helst þegar áðurnefndur Einar eða Hallgrímur Helgason gefa út bækur. Nýlegur sagnabálkur Einars um Íslendingasögurnar og ævintýri Gests í Segulfirði eftir Hallgrím Helgason eru eitthvað það besta sem ég hef lesið.

Í dag hef ég samt mest gaman af því að lesa ævisögur, sögulegar frásagnir og eftir atvikum sjálfshjálparbækur. Ævisögur sem skrifaðar eru af húmor og raunsæi af fólki sem tekur sig ekki of alvarlega og er laust við sjálfsupphafningu og tilgerð geta veitt mér endalausan innblástur. Ég reyni svo að lesa mikið til að efla mig og styrkja í leik og starfi.

Ég hef nýlega lokið við lestur merkilegrar bókar, The Bitcoin Standard eftir hagfræðinginn Saifedean Ammous. Það er bók sem ég hef hugsað mikið um og á hún mjög vel við á þeim tímum sem við lifum núna. Lights Out er svo frábær samantekt um fall stórfyrirtækisins General Electric sem sýnir manni vel mikilvægi góðrar stefnu stjórnenda. Ein besta ævisaga sem ég hef lesið nýlega er The Ride of a Lifetime eftir Robert Iger forstjóra Disney. Þar skilur maður hvernig réttur stjórnandi getur rétt af fallandi fyrirtæki. Það er alltaf falleg saga að lesa.