Íslenska liðið F.v. Þröstur Þórhallsson, Helgi Ólafsson, Margeir Pétursson, Jón L. Árnason, Jóhann Hjartarson og Jón Gunnar Jónsson liðsstjóri.
Íslenska liðið F.v. Þröstur Þórhallsson, Helgi Ólafsson, Margeir Pétursson, Jón L. Árnason, Jóhann Hjartarson og Jón Gunnar Jónsson liðsstjóri. — Morgunblaðið/Þórunn Guðmundóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska liðið sem teflir á HM öldungasveita 50 ára og eldri í Acqui Terme á Ítalíu er skipað sömu einstaklingum og tóku þátt í þessari keppni á Ródos vorið 2019. Í borðaröð er sveitin þessi: Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, Jón L.

Íslenska liðið sem teflir á HM öldungasveita 50 ára og eldri í Acqui Terme á Ítalíu er skipað sömu einstaklingum og tóku þátt í þessari keppni á Ródos vorið 2019. Í borðaröð er sveitin þessi: Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, Jón L. Árnason og Þröstur Þórhallsson. Liðsstjóri er Jón Gunnar Jónsson.

Keppnin fer fram í tveimur aldursflokkum en í 50+ flokknum eru þátttökuþjóðirnar 23 talsins. Íslenska liðið er í 4. sæti á styrkleikalistanum og fór af stað með sigrum á Svíum og Kanadamönnum. Verr gekk gegn Englendingum í 3. umferð sem eru með Michael Adams og Nigel Short á 1. og 2. borði. Viðureignin tapaðist 3:1 en hefði getað endað með jafntefli; Margeir Péturssson var með unnið tafl gegn Hebden en varð að sætta sig við jafntefli og greinarhöfundur átti jafntefli gegn Adams en tímahrakið tók sinn toll. Í 4. umferð unnu Íslendingar kvennasveit Englands 4:0. Þá voru Englendingar og Bandaríkjamenn efstir með 7 stig en Íslendingar í 3.-7. sæti með 6 stig.

Það er misjafnt hve mikið liðsmenn hafa teflt síðustu árin. Hvað undirbúning fyrir skákir varðar þá má alltaf reikna með vel undirbúnum andstæðingi. Andstæðingur greinarhöfundar í eftirfarandi skák hefur skrifað tvær bækur um enska leikinn, en að því komst ég ekki fyrr en að skák lokinni. Í byrjun tafls kom ég honum á óvart með óvæntum leik í afbrigði enska leiksins sem Magnús Carlsen hefur gert vinsælt.

HM öldungasveita, Acqui Terme 2022; 2. umferð:

David H. Cummings – Helgi Ólafsson

Enskur leikur

1. c4 Rf6 2. Rc3 e5 3. Rf3 Rc6 4. e4 Bc5

Oftar leika menn 4. ... Bb4 því næsti leikur hvíts þykir beittur.

5. Rxe5!? Rxe5 6. d4 Bb4 7. dxe5 Rxe4 8. Df3 f5!?

Tiltölulega nýr „snúningur“ í stöðunni. Ein hugmyndin er sú að leiki hvítur 9. exf6 kemur 9. ... O-O! og 10. Dxe4 strandar þá vitanlega á 10. ... He8! og drottningin fellur. Leikurinn virtist kom Kanadamanninum á óvart en hann hugsaði sig um í 40 mínútur.

9. Be2

Skarpara er 9. Bd3 og eftir 9. ... Rxc3 kemur 10. a3 Bc5 11. bxc3 með flókinni stöðu.

9. ... De7 10. Bf4 b6 11. O-O Bxc3 12. bxc3 Bb7 13. Bd3 Rc5 14. De3 Rxd3 15. Dxd3 g5 16. Bd2 f4 17. f3 O-O-O

Byrjun svarts hefur heppnast fullkomlega. Kóngsstaðan er traust og stórsókn peða þegar í undirbúningi.

18. Hae1 Hhg8 19. Hf2 Hdf8 20. Dd4 Hg6 21. Hee2 He6 22. Hf1 h5 23. 23. Bc1 c5 24. Dd3 Bc6 25. h3 Dg7 26. Bd2 Hfe8 27. Hfe1 Hxe5 28. Hxe5 Hxe5 29. Hxe5 Dxe5 30. Kf2 Kb7 31. Bc1 h4!

Lengi vel hafði svartur hótað að leika g4-g4 en nú lokar hann á þann möguleika. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að biskup hvíts er fangi peða svarts og kemst hvergi.

32. Bd2 Ka6 33. Bc1 d6 34. Bd2 Bd7 35. Bc1 Be6 36. Bd2 Bf5 37. De2 Dxe2+ 38. Kxe2 Bb1 39. a3 Ka5

– og hvítur gafst upp.

Nepo efstur í áskorendamótinu

Miðað við fyrri yfirlýsingar virðast líkurnar á því að Magnús Carlsen verji heimsmeistaratitilinn fara minnkandi. Þegar áskorendamótið í Madrid er tæplega hálfnað hefur Alireza Firouzsja ekki unnið skák og er í neðsta sæti. Caruana og Nepo unnu báðir á fimmtudaginn og staðan eftir sex umferðir er þessi: 1. Nepomniachtchi 4 ½ v (af 6) 2. Caruana 4 v. 3. – 4. Rapport og Nakamura 3 v. 5. – 7. Duda, Ding og Radjabov 2½ v. 8. Firouzsja 2 v.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Höf.: Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)