Þórir Stephensen
Þórir Stephensen
Eftir Þóri Stephensen: "Ég hef séð að oft hefur bænin bjargað. Vanmetum ekki slík lífsgildi."

Á netinu sé ég að Landlæknisembættið íslenska hefur staðið sig mjög vel í fræðslu um sjálfsvíg hér á landi, um fjölda þeirra og annað þeim tengt. Það hefur einnig birt ágæta leiðsögn handa fjölmiðlum um hvernig staðið skuli að fréttaflutningi af slíkum atburðum. Það er og ekki síst, að embættið hefur birt á netinu leiðbeiningar til fólks sem er í slíkri sálarneyð, að sjálfsvíg er ofarlega í huga. Loks er hjálparsími Rauða krossins, 1717, afar dýrmætur í þessum efnum.

Það vekur athygli mína, að þjóðkirkjunnar er hvergi getið í þessum efnum. Hún auglýsir enga hjálp. Samt vinna prestar mikilvægt og gott starf á þessu sviði og eiga þar langa og farsæla sögu.

Mín eigin reynsla af þessum vettvangi segir mér, að stundum verði ýmsir sálrænir erfiðleikar mönnum ofviða af því að þeir kunna ekki að biðja, hafa aldrei lært hvernig hægt er að leita andlegs styrks í bæn til Guðs, styrks sem oft vinnur kraftaverk. Ég þekki gildi þessara hluta af því að ég hef margsinnis orðið vitni að því hvernig einlæg bæn brotins manns, karls eða konu, hefur róað hug hans, létt byrðar hans og endurvakið gleði hans, er hann hefur skynjað að nýtt, ósýnilegt, andlegt afl hefur fundið sér leið inn í líf hans og umbreytt þar mörgu.

Þess vegna hvet ég alla til bænar og ekki síst foreldra til að kenna börnum sínum bænir. Ekki bara falleg vers, heldur sýna þeim einnig hvernig þau geti talað við Guð með sínum eigin orðum. Það eiga þau að geta gert hvar sem er. Ég man hve fermingarbörnin mín voru oft hissa, er ég sagði þeim að þau gætu farið með bæn inni á klósetti eða í strætó á leiðinni í skólann. Guð er alls staðar, þess vegna er hægt tala við hann hvar sem er.

Ég tel að kirkjan þurfi að vera sýnilegri á þessu sviði. Það yrði örugglega vel þegið af almenningi, ef öðru hvoru yrði boðið til eins kvölds námskeiðs í sóknum landsins um bænahald, þar sem rætt væri yfir kaffibolla um gagn, þörf og framkvæmd einstaklingsbundinnar bænar og svo fengju þátttakendur blað með prentuðum bænum í nesti með sér heim. Úr þeim mætti svo velja eftir smekk.

Það barn sem hlýtur slíka leiðsögn að heiman, eignast með henni einhvern sterkasta fáanlegan skjöld til varnar, þegar erfiðleikar lífsins knýja dyra og verða á stundum illskeyttir. Hver unnin barátta skapar svo aukinn þroska og hæfni til að verjast enn betur í næstu orrahríð ævinnar. Allt skapar þetta andlega sterkan einstakling, sem verður fjölskyldu sinni og samfélagi dýrmætur um leið og hann finnur sína eigin lífshamingju.

Kristin bæn hentar þó ekki öllum til sáluhjálpar og margir finna sér aðrar leiðir, sem reynast þeim vel. En ég hef séð, að oft hefur bænin bjargað. Vanmetum ekki slík lífsgildi.

Leitið til prestanna ykkar ef einhverjar spurningar vakna. Þeir munu glaðir biðja með ykkur, sé þess óskað, og koma til móts við ykkur eins og unnt er.

Höfundur er fyrrverandi dómkirkjuprestur.

Höf.: Þóri Stephensen