Markahæstur Gonzalo Zamorano fagnar glæsimarki sínu fyrir Selfoss í 2:0-sigri liðsins á Fjölni í gærkvöldi. Hann er nú jafnmarkahæstur í deildinni.
Markahæstur Gonzalo Zamorano fagnar glæsimarki sínu fyrir Selfoss í 2:0-sigri liðsins á Fjölni í gærkvöldi. Hann er nú jafnmarkahæstur í deildinni. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
Selfoss hafði betur gegn Fjölni, 2:0, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Selfossi í gærkvöldi.

Selfoss hafði betur gegn Fjölni, 2:0, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Selfossi í gærkvöldi. Með sigrinum endurheimtu Selfyssingar toppsæti deildarinnar, þar sem liðið er nú með tveggja stiga forskot á HK í öðru sætinu.

Spánverjinn Gonzalo Zamorano kom Selfossi yfir með glæsilegu skoti skömmu fyrir leikhlé. Zamorano hefur nú skorað sjö mörk í deildinni og er jafnmarkahæstur í henni. Undir lok leiks varð Guðmundur Þór Júlíusson, varnarmaður Fjölnis, svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Afturelding fékk þá Þór frá Akureyri í heimsókn og vann öruggan 4:1-sigur. Leiknum seinkaði um 75 mínútur vegna bilunar í flugvél sem flutti Akureyringa til Reykjavíkur.

Aron Elí Sævarsson skoraði tvívegis fyrir Mosfellinga og Georg Bjarnason eitt mark, auk þess sem Þórsarinn Orri Sigurjónsson skoraði sjálfsmark. Elvar Baldvinsson skoraði mark Þórs.