Viðsnúningur Fréttamaður klórar sér í höfðinu við Hæstarétt í gær en fylgjendur fóstureyðinga mótmæla ákaft.
Viðsnúningur Fréttamaður klórar sér í höfðinu við Hæstarétt í gær en fylgjendur fóstureyðinga mótmæla ákaft. — Getty Images/AFP/Nathan Howard
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Milljónir bandarískra kvenna munu glata lögbundnum rétti sínum til fóstureyðingar í kjölfar dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna í gær sem sneri eldri dómi réttarins í máli Roe gegn Wade frá 1973.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Milljónir bandarískra kvenna munu glata lögbundnum rétti sínum til fóstureyðingar í kjölfar dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna í gær sem sneri eldri dómi réttarins í máli Roe gegn Wade frá 1973.

Nýi dómurinn, sem sex íhaldssamari dómarar réttarins kváðu upp gegn sératkvæði hinna þriggja frjálslyndari, hefur þau réttaráhrif að einstökum ríkjum Bandaríkjanna er nú í lófa lagið að setja lög sem banna fóstureyðingar. Er því spáð að helmingur 50 ríkja muni nú lögfesta annaðhvort bann eða takmarkanir á fóstureyðingum.

Ný lög sett áður en dómur gekk

Hafa þrettán ríki þegar sett lög sem unnt verður að framfylgja eftir dóm Hæstaréttar í gær, svokölluð „trigger laws“ sem eru þeirrar náttúru að lagaframkvæmdin sjálf er á bið þar til lagaumhverfi eða aðrar kringumstæður breytast. Skýring þess að slík lög voru afgreidd áður en dómur Hæstaréttar féll í gær er það fáheyrða atvik að 2. maí í vor var skjali með drögum að dómsorði meirihlutans lekið úr þessum æðsta dómstól Bandaríkjanna.

Vefmiðillinn Politico birti lekaskjalið og þar með hófu einstök ríki þegar undirbúning lagasetningar gegn fóstureyðingum auk þess sem fylgjendur fóstureyðinga hófu mótmæli sem náðu hámarki fyrir utan Hæstarétt á fimmtudaginn.

Fljótt á litið er talið að 36 milljónir bandarískra kvenna á barneignaaldri glati rétti sínum til fóstureyðingar í kjölfar dóms gærdagsins, sé mark takandi á tölfræði sem samtökin Planned Parenthood hafa gefið út, en þau reka stofur vítt og breitt um Bandaríkin þar sem konur geta gengist undir fóstureyðingu auk þess að fá getnaðarvarnir og almenna ráðgjöf.

Í máli Roe gegn Wade forðum taldi Hæstiréttur rétt kvenna til að gangast undir fóstureyðingu stjórnarskrárvarinn. Varð niðurstaða sjö dómara gegn tveimur að rétturinn til fóstureyðingar fyrstu þrjá mánuði meðgöngu væri óskoraður, næstu þrjá leyfilegur með nokkrum takmörkunum en slík aðgerð bönnuð með öllu síðustu þrjá mánuðina. Lagasetning nokkurra ríkja áratugina á eftir dró þó töluvert úr þessum réttindum.

Hvarf Hæstiréttur því með dómi gærdagsins frá því að um stjórnarskrárvarinn rétt væri að ræða með svofelldu dómsorði: „Við sláum því þar með föstu að stjórnarskráin feli ekki í sér réttindi til fóstureyðingar [...] og valdið til að setja reglur um fóstureyðingu beri að veita fólkinu og kjörnum fulltrúum þess.“

Hatrammar lögfræðideilur

Ákaflega sjaldgæft er að bandarískir hæstaréttardómar gangi algjörlega í berhögg við fyrri dóma réttarins og segja stjórnmálaskýrendur vestra pólitískt moldviðri nú í aðsigi sem skipta muni þjóðinni í tvær fylkingar.

Í ríkjum á borð við Michigan, Pennsylvania og Wisconsin, þar sem mjótt er á munum milli fylgjenda og andstæðinga fóstureyðinga, er jafnvel gert ráð fyrir því að lögmæti fóstureyðinga muni sveiflast með einstökum kosningum. Annars staðar gætu hatrammar lögfræðideilur staðið fyrir dyrum sem snerust meðal annars um hvort leyfilegt yrði að heimsækja önnur ríki til að fara í fóstureyðingu eða panta þungunarrofslyf í pósti.