Mjóddin Biðraðir mynduðust í gær við heilsugæslustöðina þegar fólk fjölmennti í bólusetningu til að fá örvunarskammtinn sinn gegn Covid-19.
Mjóddin Biðraðir mynduðust í gær við heilsugæslustöðina þegar fólk fjölmennti í bólusetningu til að fá örvunarskammtinn sinn gegn Covid-19. — Morgunblaðið/Eggert
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Sökum mikillar aðsóknar í fjórða skammtinn af Covid-19-bóluefni hefur Heilsugæsla höfuðborgarborgarsvæðisins boðið upp á opið hús í bólusetningar frá 21. júní síðastliðnum, og verður opið til 1.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Sökum mikillar aðsóknar í fjórða skammtinn af Covid-19-bóluefni hefur Heilsugæsla höfuðborgarborgarsvæðisins boðið upp á opið hús í bólusetningar frá 21. júní síðastliðnum, og verður opið til 1. júlí alla virka daga milli kl. 13 og 15 í Mjóddinni. Notast er við Pfizer-bóluefnið en einnig er hægt að fá bóluefni Janssen sé þess óskað.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Morgunblaðið að bólusetningar hafi gengið vel undanfarna daga. „Það hefur gengið vel og margir hafa komið alla dagana, um 700 manns. Og allir glaðir og þakklátir, þetta er náttúrulega almennt glaður hópur,“ segir hún og bætir við að undanfarnir dagar hafi verið skemmtilegir.

Aðspurð segir hún að haldið verði áfram með bólusetningar í næstu viku. „Við ætlum að taka næstu viku líka með sama hætti. Það er opið í bólusetningar á öllum heilsugæslustöðvunum og fólk getur pantað þar tíma í bólusetningu. En við ætlum að halda áfram samhliða með opið hús næstu viku í Mjóddinni og þá erum við að vonast til þess að allir þeir sem eru 80 ára og eldri og hafa áhuga á að fá fjórða skammtinn komi.“

Covid-19 ekki búið
» Alls greindust 272 smit síðastliðinn fimmtudag.
» Í gær lágu 46 manns á sjúkrahúsi með kórónuveiruna og 2 á gjörgæslu, þar af 31 á Landspítala og 1 á gjörgæslu þar.
» Opið hús er í heilsugæslunni í Mjódd fyrir fjórða skammt bólusetningar og einnig hægt að panta bólusetningu á öðrum heilsugæslustöðvum.