Gleðistundir hefjast á ný að Kvoslæk í Fljótshlíð með tónleikum á morgun, 26. júní, kl. 15. Þá mæta íslenskar söngperlur barokki og rómantík, eins og segir í tilkynningu. Um flutning sjá þau Margrét Stefánsdóttir, Jóhann I. Stefánsson og Jón Bjarnason. Þau flytja íslensk og erlend verk fyrir sópran, trompet og píanó.
Næsta gleðistund verður 16. júlí kl. 15 en þá mun Arndís S. Árnadóttir listfræðingur fjalla um Ámunda smið, sem smíðaði 13 kirkjur á 18. öld, allar í Rangárvalla- og Árnessýslu. Hann smíðaði einnig fjölmarga kirkjugripi, sem enn eru í kirkjum sveitanna.
Þann 13. ágúst segir Jóhann Ísak Pétursson jarðfræðingur frá náttúru landsins í nálægð Markarfljóts og 28. ágúst verður Dagstund með Schubert og Brahms. Þá munu Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari og vinir hennar flytja ljúfa tónlist eftir Johannes Brahms og Schubert.