Flóttamenn Komum flóttafólks hefur fjölgað skyndilega síðustu daga.
Flóttamenn Komum flóttafólks hefur fjölgað skyndilega síðustu daga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Sigríður Arnalds gsa@mbl.is Fjöldi þess fólks frá Úkraínu sem sækir um dvöl hér á landi hefur skyndilega aukist, en síðastliðna daga hafði þeim hægt og þétt fækkað.

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

Fjöldi þess fólks frá Úkraínu sem sækir um dvöl hér á landi hefur skyndilega aukist, en síðastliðna daga hafði þeim hægt og þétt fækkað.

Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri vegna komu flóttamanna frá Úkraínu til Íslands, greinir frá þessu í samtali við Morgunblaðið. Hann segir enga sérstaka skýringu á þessari fjölgun.

Frá áramótum hafa 1.932 flóttamenn komið hingað og þar af eru 1.232 þeirra frá Úkraínu, en 64% þeirra eru konur og 36% karlar.

„Þetta eru töluvert fleiri flóttamenn en við höfum tekið við árin áður, en stærsta árið hingað til komu um 1.100 flóttamenn og þegar líður á árið munu þeir líklegast vera um 4.000 talsins,“ segir Gylfi og bætir við:

„Við búum okkar undir það að fleiri flóttamenn muni leita hingað í haust. Flugfarið er dýrara á sumrin og því kemur á óvart þessi fjölgun á komum flóttafólks núna.“

Gylfi segir vel ganga að útvega fólkinu vinnu, en um 300 eru nú þegar komin með atvinnuleyfi í gegnum Vinnumálastofnun og einhverjir hafa fundið vinnu sjálfir. Aðra sögu er þó að segja af húsnæðismálum þar sem mikill skortur er á húsnæði um allt land. „Þetta er ástand sem við þurfum að bregðast hratt við, því þetta bætist ofan á þá húsnæðiskrísu sem er í landinu,“ segir Gylfi.

Um 50 manns hafa snúið aftur til Úkraínu eftir að hafa fengið dvalarleyfi hér á landi. Gylfi telur líklegt að einhverjir þeirra komi aftur til Íslands, þar sem þeim sé frjálst að ferðast eins og þeim sýnist eftir að þeim hafi verið veitt leyfi hér. Hann telur stærstu áskorunina núna felast í því að koma fólkinu betur inn í samfélagið og veita því húsnæði, þar sem mikill skortur er á leiguhúsnæði í öllum landshlutum og leiguverð sé tiltölulega hátt.