„Ég hef unnið náið með Þórólfi síðan ég kom hingað og kynnst starfinu á allan hátt. Þá hef ég eðli málsins samkvæmt séð miklu meira en í meðalári. Sjálf er ég vön að takast á við áskoranir í mínu starfi og ég held að þetta muni eiga vel við mig,“ segir Guðrún Aspelund.
„Ég hef unnið náið með Þórólfi síðan ég kom hingað og kynnst starfinu á allan hátt. Þá hef ég eðli málsins samkvæmt séð miklu meira en í meðalári. Sjálf er ég vön að takast á við áskoranir í mínu starfi og ég held að þetta muni eiga vel við mig,“ segir Guðrún Aspelund. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Aspelund segir að ekki verði auðvelt að feta í fótspor Þórólfs Guðnasonar en hlakkar eigi að síður til að taka við starfi sóttvarnalæknis, enda sé það tækifæri til að láta gott af sér leiða.

Guðrún Aspelund segir að ekki verði auðvelt að feta í fótspor Þórólfs Guðnasonar en hlakkar eigi að síður til að taka við starfi sóttvarnalæknis, enda sé það tækifæri til að láta gott af sér leiða. Hún er skurðlæknir að mennt og er nýkomin heim eftir að hafa búið lengi í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ég kem aftan að Guðrúnu Aspelund á þessum bjarta en kalda fimmtudagsmorgni. Tek nefnilega ranga beygju og álpast óvart upp með starfsmannalyftunni á Höfðatorgi. Hún tekur sjálf á móti mér bakdyramegin hjá Embætti landlæknis, undrandi á svip. „Þú átt ekki að komast hingað upp án aðgangskorts en þið blaðamenn hafið auðvitað ykkar ráð,“ segir hún og skellir upp úr. Eftir á að hyggja fannst mér maðurinn, sem var í lyftunni þegar ég stökk þar inn, horfa eitthvað undarlega á mig. Guðrún fer með mig fram í móttöku, þar sem ég átti að skjóta upp kollinum, og ég lofa að bæta ráð mitt næst. Embætti landlæknis var í allt öðru húsi þegar ég sótti það heim síðast.

Við komum okkur fyrir í rúmgóðu fundarherbergi með þessu fína útsýni yfir miðbæinn. Enda þótt Guðrún hafi þegar tjáð sig stuttlega í fréttasamtölum, verð ég samt að byrja á því að spyrja hvers vegna hún hafi sóst eftir starfi sóttvarnalæknis, sem hún var ráðin til að gegna í vikunni og tekur við 1. september. Ekki hefur lítið mætt á forvera hennar, Þórólfi Guðnasyni, í heimsfaraldrinum sem gengið hefur yfir okkur undanfarin tvö ár og rúmlega það.

„Þórólfur hefur verið mjög farsæll í starfi og það verður ekki auðvelt að feta í fótspor hans,“ byrjar Guðrún. „Ég hef unnið á sóttvarnasviði Embættis landlæknis síðan haustið 2019 og fannst starfið áhugavert, þegar það losnaði. Ég hef trú á því að þetta sé gefandi starf og að ég geti látið gott af mér leiða. Ég hef unnið náið með Þórólfi síðan ég kom hingað og kynnst starfinu á allan hátt. Þá hef ég eðli málsins samkvæmt séð miklu meira en í meðalári. Sjálf er ég vön að takast á við áskoranir í mínu starfi og ég held að þetta muni eiga vel við mig.“

– Varstu hvött til að sækja um?

„Já, fólk kom að máli við mig. Það hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun. Ég hef kunnað mjög vel við mig hérna, þetta er góður vinnustaður og hér starfar mjög hæft fólk sem býr yfir mikilli þekkingu.“

Þess má geta að níu manns vinna á sóttvarnasviðinu, að sóttvarnalækni meðtöldum, en samtals um 70 manns hjá Embætti landlæknis. „Það er mikill styrkur fyrir sóttvarnalækni að vera hér til húsa, enda boðleiðirnar stuttar.“

Þríeykið var hreinskilið

Fáir menn hafa verið meira áberandi hér á landi frá því að faraldurinn braust út en sóttvarnalæknir og margir ábyggilega farnir að líta á Þórólf sem hluta af fjölskyldu sinni. Guðrún dáist að því hvernig hann hefur nálgast þetta verkefni, að vera andlit sóttvarna út á við. Aðrir á skrifstofunni hafa lítið sem ekkert fundið fyrir því álagi. Hún nefnir raunar þríeykið allt í þessu sambandi, Ölmu D. Möller, landlækni, og Víði Reynisson, yfirlögregluþjón. „Upplýsingafundirnir skiptu miklu máli fyrir þjóðina. Hún fann strax hvað þau voru hreinskilin með það sem var vitað um veiruna og faraldurinn á hverjum tíma, enda breyttist vitneskjan frá degi til dags.“

Enda þótt við búum ekki lengur við samfélagslegar takmarkanir, boð og bönn, þá er kórónuveiran hvergi nærri búin að stimpla sig út. Guðrún segir stöðuna þokkalega núna. „Það var meira um smit og veikindi í vetur en eftir lægð í faraldrinum í vor fer smitum nú aftur fjölgandi, eins innlögnum á spítala og því miður dauðsföllum,“ segir Guðrún. Um 180 manns hafa látist af völdum sjúkdómsins hér á landi. Í dag er farið eftir dánarvottorðum en ekki tilkynningum, þannig að þessi tala er ekki uppfærð eins ört og áður. Á móti kemur að hún er nákvæmari.

Guðrún segir þróun faraldursins hafa verið svipaða á hinum Norðurlöndunum, víða í Evrópu og Bandaríkjunum að undanförnu. „Margir spá því að smitum muni aftur fjölga í haust, þegar fólk fer að koma meira saman innandyra, skólarnir byrja aftur og þar fram eftir götunum. Þá virðist veiran þrífast betur í kulda en hita. Þetta er svo sem ekkert nýtt, bylgjur öndunarfærasýkinga skella venjulega á þegar haustar. Þetta er náttúruleg sveifla.“

– Sérðu jafnvel fyrir þér að enn og aftur þurfi að grípa til samfélagslegra takmarkana í haust?

„Ekki endilega. Þetta er auðvitað í fyrsta sinn sem gripið hefur verið til aðgerða af þessu tagi hér á landi. Þetta voru á köflum strangar takmarkanir en enginn vafi leikur á því að þær virkuðu. Okkur tókst að vernda heilbrigðiskerfið og viðkvæmustu hópana í þjóðfélaginu.“

Allir sem einn

– Metirðu stöðuna þannig, þá muntu ekki hika við að leggja til takmarkanir?

„Nei, ég mun ekki hika við það. Annað væri óábyrgt. Heilbrigðiskerfið okkar er í grunninn lítið og þolir ekki mikið álag. Við erum til dæmis ekki með mörg gjörgæslurými.“

– En komi til þess, heldurðu þá að þjóðin muni sýna því skilning?

„Já, ég held það. Þetta er ekki hægt nema að almenningur taki virkan þátt, allir sem einn. Þannig hefur það verið til þessa og þannig verður það vonandi áfram, komi til þess. En vonandi þarf ekki að grípa til svona aðgerða aftur.“

Sjálf fékk Guðrún Covid í byrjun febrúar á þessu ári en varð ekki mikið veik. „Ég var heppin, hóstaði í um sex daga en slapp að öðru leyti og hef ekki fundið fyrir neinum eftirköstum. Því má þó ekki gleyma að 5-10% glíma við langtímaáhrif af þessum veikindum, þrekleysi, þreytu, slen og annað.“

Guðrún segir mikilvægt að huga áfram að forvörnum, svo sem einstaklingsbundnum sóttvörnum og örvunarbólusetningu fyrir elstu og viðkvæmustu hópana. „Við erum að reyna að auka þátttöku í örvunarbólusetningu, fyrst og fremst hjá þeim sem eru 80 ára og eldri. Nágrannaþjóðirnar hafa fært þröskuldinn niður í 60-65 ár og mér finnst ekki ólíklegt að við fylgjum því fordæmi. Það er líka von á bóluefnum sem hafa verið sniðin að nýjum afbrigðum veirunnar. Virkni bóluefnanna dvínar á nokkrum mánuðum og þess vegna er mikilvægt að halda áfram að bjóða upp á þessa örvunarskammta.“

– Eruð þið alltaf jafnsannfærð um að bólusetningin virki?

„Já, það erum við. Hún kemur ekki í veg fyrir smit en við erum með góð gögn í höndunum um árangur. Bóluefnin vernda fólk og draga úr líkum á alvarlegum veikindum og dauðsföllum.“

Enda þótt við séum að mestu farin að lifa eðlilegu lífi á ný, hangir kórónuveiran enn yfir okkur. Guðrún ber ekki á móti því og skilur vel að mikil þreyta hafi gripið um sig á tímabili í baráttunni við vágestinn. „Svo virðist nú sem ákveðnu jafnvægi hafi verið náð. Við lifum til þess að gera eðlilegu lífi en samt skilur fólk alveg að ekki sé hægt að hætta alveg að hugsa um veiruna og bregðast við henni. Við megum ekki sofna á verðinum.“

– Er hugsanlegt að kórónuveiran eigi eftir að hanga yfir okkur árum saman?

„Það er ekki útilokað. Faraldurinn hefur breyst mikið nú þegar og þetta gæti orðið veira sem kemur árlega, eins og inflúensa. En hún gæti líka horfið alveg. Veirur koma og fara og erfitt er að spá um framhaldið hjá þessari. Svo mikið höfum við lært af þessum faraldri. Það er erfitt að útrýma svona veirum alveg meðan staðan er ekki sú sama alls staðar í heiminum.“

Búum okkur undir faraldra

– Burtséð frá kórónuveirunni, eigum við eftir að sjá fleiri heimsfaraldra á komandi tímum?

„Já, ég held það. Það er auðvitað ekki sjálfgefið en við ættum samt að búa okkur undir það. Allur er varinn góður. Það er líklegra en hitt að við eigum eftir að sjá fleiri faraldra, enda er miklu meiri hreyfing orðin á fólki en nokkru sinni í sögunni. Fyrir utan ferðalög fólks, þá fjölgar flóttamönnum til dæmis jafnt og þétt, vegna styrjalda og annars sem hrekur fólk frá heimilum sínum. Loftslagsbreytingar munu bara auka slíka flutninga. Öllu þessu fylgir aukin hætta á útbreiðslu smitsjúkdóma. Þetta þurfa ekki að vera eins bráðsmitandi veirur og kórónuveiran, sem breiddist auðvitað út á miklum hraða. Við gætum til dæmis þurft að takast oftar á við inflúensu en sú veira er sífellt að breyta sér.“

Apabólan er nýjasta dæmið um slíka boðflennu. Þó er hún ekki enn komin á það stig að vera skilgreind sem heimsfaraldur en mat á henni er í stöðugri endurskoðun. Fram hefur komið að hún sé alls ekki eins smitandi og kórónuveiran og Guðrún telur ólíklegt að apabólan verði að faraldri hér á landi.

Enda þótt kórónuveiran hafi yfirtekið allt seinustu misserin, heyrir vitaskuld margt fleira undir sóttvarnasviðið hjá landlækni. „Starf okkar er mjög fjölbreytt,“ útskýrir Guðrún. „Það snýst í grunninn mikið um lýðheilsu, sem er málaflokkur sem ég hef mikinn áhuga á. Við sinnum einnig forvörnum, þar sem bólusetningar fyrir börn og fullorðna leika stórt hlutverk. Eins sinnum við fræðslu og upplýsingagjöf af ýmsu tagi, svo sem varðandi kynsjúkdóma. Við höfum líka eftirlit með sýklalyfjanotkun. Röng notkun slíkra lyfja getur leitt til sýklalyfjaónæmis, sem er alvarlegt og vaxandi vandamál víða um heim. Við vöktum líka smitsjúkdóma, komum að skimun og öðru slíku. Þó matarsýkingar séu ekki smitsjúkdómur, þá eru þær einnig á okkar borði og tengjast fæðuöryggi og margt, margt fleira. Ég nefndi loftslagsbreytingar áðan. Þær eru nýtt vandamál ef svo má segja, það að skoða áhrif þeirra á sýkla og útbreiðslu þeirra. Það fer líka talsverður tími í að rýna í tölfræði og hinar ýmsu kúrfur. Sérfræðingar á því sviði vinna fyrir okkur. Það er mjög mikilvægt að fá gögn ört inn og geta unnið úr þeim í rauntíma. Það er í mörg horn að líta hjá sóttvarnalækni og samstarfsfólki hans.“

Sóttvarnalæknir er í góðu samstarfi við hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki, svo sem Landspítalann sem raðgreinir hinar ýmsu sýkingar, og Íslenska erfðagreiningu, sem Guðrún segir hafa unnið gríðarlega mikilvægt starf meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Alþjóðasamstarf hefur líka verið að aukast og sóttvarnalæknir hefur ákveðnar skyldur gagnvart Sóttvarnastofnun Evrópu. „Við sendum þeim upplýsingar og fáum upplýsingar frá þeim í staðinn. Það hefur virkað mjög vel í Covid. Það er sérstaklega náið samstarf milli Norðurlandanna, sem við höfum notið góðs af. Þórólfur hefur verið mjög duglegur að funda með norrænum kollegum sínum og ég mun fylgja því fordæmi,“ segir Guðrún. Sem dæmi um þetta nefnir hún samstarfið um kaup á bóluefni.

Hver er konan?

En nóg um nýja starfið og framtíðina. Hverfum nú aftur til fortíðar og könnum bakgrunn nýskipaðs sóttvarnalæknis. Hver er Guðrún Aspelund?

„Ég er Reykvíkingur, fædd og uppalin fyrstu árin í Vesturbænum, á Öldugötunni. Síðan fluttum við út á Seltjarnarnes, þar sem yndislegt var að búa og alast upp við frelsi og góðan félagsskap. Ég kynntist mörgum af mínum bestu vinkonum á þessum árum, bæði í Mýró og Való. Ég var mikið í íþróttum sem stelpa, í handbolta hjá Gróttu og fótbolta í KR.“

Faðir Guðrúnar er Erling Aspelund, sem lengi vann hjá Loftleiðum/Flugleiðum og Sambandinu en síðar hjá Air Atlanta. Hann er nú sestur í helgan stein. Móðir hennar, Kolbrún Þórhallsdóttir, lést í fyrra. Hún var á sinni tíð frumkvöðull í ritvinnslu og vann lengi sem læknafulltrúi á Landspítalanum. Guðrún á þrjá bræður, Erling, sem rekur ferðaþjónustu, Karl, sem er leikmynda- og búningahönnuður og prófessor í textíl og hönnun við háskóla í Bandaríkjunum, og Thor, sem er tölfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Sá síðastnefndi kom heldur betur að glímunni við heimsfaraldurinn með tölfræðilíkunum sínum og útreikningum. „Thor hefur reynst okkur betri en enginn en það samstarf kom til áður en ég byrjaði hérna. Þeir sóttvarnalæknir kynntust meðan Þórólfur var í doktorsnámi,“ segir Guðrún brosandi.

Eftir gagnfræðapróf lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík. Þá var Guðrún þegar búin að fá áhuga á vísindum. Eftirlætisfög hennar voru stærðfræði og raungreinar almennt. Það kom því fáum á óvart að hún skyldi rita sig inn í læknisfræði við Háskóla Íslands eftir stúdentspróf. „Ég spáði líka í lyfjafræðina en læknisfræðin varð ofan á. Mér fannst anatómían heillandi, auk þess sem læknisfræðin er skemmtileg blanda af vísindum og mannlegum samskiptum. Ég fann mig strax vel í náminu og komst í gegnum hinn fræga klásus, enda bjó ég að góðum undirbúningi úr MR.“

Það hafði líka áhrif að tvær mágkonur hennar voru á þessum tíma við nám í læknadeildinni, Arna Guðmundsdóttir innkirtlasérfræðingur og Erna Kojic smitsjúkdómalæknir. „Það kveikti í mér að fylgjast með þeim.“

Meðan á kandídatsárinu stóð ákvað Guðrún að fara í skurðlækningar. „Mér fannst að það ætti vel við mig, auk þess sem ég var með góðar fyrirmyndir á Landspítalanum, sérstaklega Jónas Magnússon og Margréti Oddsdóttur.“

Valdi Bandaríkin

Valið stóð um að fara til Norðurlandanna eða Bandaríkjanna í sérnám. Guðrún stefndi vestur yfir haf, enda með góða tengingu þangað enda þótt hún hefði aldrei búið þar sjálf. „Foreldrar mínir bjuggu í tíu ár í Bandaríkjunum en voru nýflutt heim þegar ég fæddist. Fyrir vikið höfum við alltaf átt vini vestra og ferðast mikið þangað. Ég var því spenntari fyrir þeim möguleika og Margrét Oddsdóttir kom mér í kynni við Dana Andersen, sem var einn yfirmanna á skurðdeildinni í Yale, auk þess sem hann var með rannsóknastofu. Það er ekki auðvelt fyrir útlendinga að komast þarna að en Dana tók mig inn á rannsóknarstyrk og ég var hjá honum næstu tvö árin að rannsaka sjúkdóma í brisi.“

Að því loknu sótti Guðrún um nám í almennum skurðlækningum í Yale enda „komin inn fyrir þröskuldinn“. Það er fimm ára sérnám og Guðrún þurfti að sækja um nýtt dvalarleyfi vegna þess. Það gekk treglega og að því kom að henni var vísað úr landi. Það var að vonum mikill skellur og hún óttaðist að staðan yrði tekin af henni. Hún beið milli vonar og ótta heima á Íslandi en á daginn kom að fleiri í hennar stöðu höfðu lent í sömu vandræðum við aðra háskóla. Það varð til þess að Joe Lieberman, öldungadeildarþingmaður Connecticut, gekk í málið og leysti það. Eftir mánuð gat Guðrún því snúið aftur til Yale. „Ég á honum mikið að þakka. Það var mjög óþægilegt að bíða heima og framtíðin var óráðin í heilan mánuð.“

Annar Íslendingur, Arnar Geirsson, var í námi við Yale á sama tíma og útskrifuðust þau Guðrún saman.

Að því loknu lá leið Guðrúnar til Toronto í Kanada, þar sem hún sérhæfði sig næstu tvö árin í barnaskurðlækningum, þar sem aðgerðir á nýburum er helsta sérhæfingin, við Hospital for Sick Children.

Eftir það fékk Guðrún vinnu við Columbia-sjúkrahúsið í New York. „Auðvitað horfði maður aðeins heim en fyrsti kostur á þessum tíma var samt að vera áfram úti. Ég var mjög heppin að komast að hjá Columbia, sem er gríðarlega öflugur háskólaspítali. Hann er mjög stór og mikið að gera við Morgan Stanley Children's Hospital, þar sem ég vann næstu tíu árin, frá 2007-2017. Og líkaði mjög vel.“

Auk skurðlækninganna sinnti Guðrún rannsóknum, kennslu og þjálfun, sem henni þótti mjög gaman að gera með aðalstarfinu. Þá kom hún að ritun fræðigreina.

Eftir áratug á Columbia var Guðrún ráðin í stöðu yfirlæknis barnaskurðlækninga hjá Westchester Medical Center í New York. „Það var ekki eins og að ég vildi komast frá Columbia, þar sem mér leið mjög vel. En þetta var ákveðin áskorun, stjórnunarstarf og mannaforráð sem freistuðu mín. Það spilaði líka inn í ákvörðun mína að Westchester var ekki í nema korters fjarlægð frá heimili mínu en ég var upp undir klukkutíma að komast á Columbia. Þetta var mjög spennandi tækifæri og mér líkaði vel á Westchester.“

Heimavinnandi í Bretlandi

Eftir aðeins eitt ár á nýja spítalanum skipuðust veður í lofti. Eiginmanni Guðrúnar, Gunnari Jakobssyni lögfræðingi, sem unnið hafði fyrir banka í New York í 20 ár, bauðst að taka við spennandi starfi í Lundúnum. Úr vöndu var að ráða en að vel íhuguðu máli ákváðu hjónin að flytjast búferlum til Bretlands ásamt dætrum sínum tveimur, Kolbrúnu, sem er að verða 16 ára, og Kristínu, sem er á 13. ári.

Við Guðrúnu blasti nýr veruleiki í Lundúnum. „Ég er ekki með læknaleyfi í Bretlandi, þannig að fyrstu sex mánuðina var ég heima. Það kom sér svo sem ágætlega, enda stelpurnar að byrja í nýjum skóla í öðru landi. Það var gott að geta hjálpað þeim í gegnum það. Þetta voru auðvitað mikil viðbrigði, enda hafði ég alltaf unnið mikið, auk þess sem almennt er minna um frí í Bandaríkjunum en á Íslandi.“

Guðrúnu líkaði alls ekki illa að vera heimavinnandi en eftir þessa sex mánuði fór hún samt að líta í kringum sig eftir nýju starfi. „Mér leiddist ekki heima en það stóð samt aldrei til að þetta yrði til frambúðar. Þegar ég sá starf yfirlæknis auglýst á sóttvarnasviðinu hér hjá landlækni, ákvað ég að sækja um.“

Þetta var haustið 2019 og hún fékk starfið. Hún var til að byrja með mest í fjarvinnu en kom eina viku í mánuði til landsins og vann á skrifstofunni, sem þá var á Rauðarárstíg.

Guðrún hafði ekki unnið lengi hjá landlækni þegar Gunnari bauðst starf varaseðlabankastjóra í Reykjavík sem hann þáði. „Það var í sjálfu sér ekki flókin ákvörðun. Við höfðum alltaf haft á bak við eyrað að koma heim, Ísland togar alltaf í mann, og rétta tækifærið kom þarna.“

Hún ætlaði raunar að vera í Lundúnum sumarið 2020 og flytja heim um haustið en þá kom Covid. „Það réði því að ég flýtti komunni heim; ástandið breyttist dag frá degi og allt stefndi í útgöngubann í London. Þau voru líka ærin, verkefnin hérna hjá sóttvarnalækni. Við pökkuðum því í ferðatöskur og drifum okkur heim. Áttum að vísu íbúð hérna heima, sem auðveldaði málið. Á þeim tímapunkti bjuggumst við bara við að fara aftur út um sumarið að sækja búslóðina en af því varð ekki vegna stöðunnar í faraldrinum. Ég kom aldrei aftur í íbúðina okkar í London. Gunnar fór löngu seinna og gekk frá gámnum.“

Þurfti að læra að rata upp á nýtt

– Þú bjóst erlendis í rúm tuttugu ár. Finnst þér margt hafa breyst í millitíðinni?

„Já, mikil ósköp. Borgin hefur breyst mikið, byggðin stækkað og maður þurfti eiginlega að læra að rata upp á nýtt,“ svarar hún hlæjandi. „Við komum auðvitað oft heim meðan við bjuggum úti en það var yfirleitt ekki nema í viku á sumrin og viku um jólin. Ferðamönnum hefur líka fjölgað mikið. Maður upplifir það allt öðruvísi þegar maður býr hérna. Hvert sem maður fer um landið rekst maður á fólk á ferðalagi, sem er mjög skemmtilegt. Eins og sumarið 2020, þegar við fórum hringinn, eins og allir aðrir Íslendingar.“

Enda þótt Reykjavík hafi stækkað mikið er hún enn þá bara litla systir New York og Lundúna. „Það er margt þægilegra hér, bara umferð tvisvar á dag, snemma á morgnana og aftur seinni partinn. Boðleiðirnar, að ná til fólks, eru líka miklu styttri. Hér þekkja allir alla og maður sér sama fólkið hér og þar. Hraðinn í Reykjavík er líka minni en úti, sérstaklega í New York, þar sem fólk getur verið ágengt.“

Hún hugsar eigi að síður með hlýju til Stóra eplisins, enda eignuðust þau hjónin marga góða vini þar. „Það var líka mjög gaman að búa í London og Toronto og Kanadamenn eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér; hjálplegri og afslappaðri en Bandaríkjamenn. Auk þess er auðveldara að eiga við kerfið þar.“

– Eruð þið alkomin heim?

„Já, við lítum svo á. Við erum í góðum störfum hér og það er gott að vera nálægt fjölskyldu og vinum. Við vildum líka að dætur okkar fengju tækifæri til að búa á Íslandi.“

– Gengur þeim vel að aðlagast?

„Fyrsta árið var erfitt, ég viðurkenni það. Þær tala auðvitað og skilja íslensku en móðurmál þeira er samt sem áður enska. Covid hjálpaði heldur ekki til, samkomutakmarkanirnar og allt það, sem kom illa við skólabörn. En það gengur vel núna og þær hafa fundið sig. Þær eru hins vegar heimsborgarar og gætu hæglega endað annars staðar en á Íslandi í framtíðinni. Ég get svo sem lítið sagt við því, fór sjálf utan í nám,“ segir hún og hlær.

Hjólar, hleypur og teiknar

Talið berst í lokin að áhugamálum og Guðrún er fljót að nefna útivist af ýmsu tagi. „Ég hjóla mikið og til dæmis alltaf í vinnuna, þó það sé ekki nema um tíu mínútna leið. Ég fer á svigskíði þegar það er hægt og eftir að við fluttum heim er ég byrjuð á gönguskíðum, sem er mjög skemmtilegt. Ég hleyp líka sem líkamsrækt og hef tvisvar hlaupið hálft maraþon.“

– Og stefnir á heilt?

„Nei, alls ekki,“ svarar hún hlæjandi. „Ég er frekar á leiðinni í hina áttina, 5-10 kílómetrar er ágætt.“

Loks lét hún gamlan draum rætast og skellti sér í nám í teikningu í Myndlistarskóla Reykjavíkur. „Ég teiknaði mikið sem krakki en það hefur legið niðri öll þessi ár – þar til nú. Nú teikna ég í frístundum, sem er mjög skemmtilegt og afslappandi.“

Ekki veitir víst af, góða. Þú ert ekki að taka við neinu fótabaðsstarfi.