Það var hart tekist á í leikjum gærdagsins á Orkumótinu í Vestmannaeyjum og skein einbeitingin úr augum leikmanna Gróttu og Hamars þegar lið þeirra mættust í gær. Þar sem bæði lið leika í bláum búningum léku Gróttumenn í gulum vestum og skoruðu þeir tvö mörk gegn einu marki Hamarsmanna.
Orkumótið, sem einnig hefur verið kallað Pollamótið, hefur verið haldið á hverju ári í Vestmannaeyjum frá árinu 1984, en þar keppir 6. flokkur karla í knattspyrnu. Hafa margir af okkar dáðustu knattspyrnumönnum stigið sín fyrstu keppnisskref á mótinu og hefur það fyrir löngu fest sig í sessi í dagatalinu á knattspyrnusumrinu.
Mótinu lýkur í dag með keppni í 28 riðlum. Eru fjögur lið í hverjum riðli og eru því 112 mismunandi lið sem leiða saman hesta sína. Viðrað hefur vel til knattspyrnuiðkunar og þykir víst að dagurinn verði keppendum ógleymanlegur.