Árið 1990 voru í borgarstjórn kynntar skipulagstillögur um íbúða- og atvinnubyggð á Geldinganesi. Þar var m.a. gert ráð fyrir 6.000-7.000 manna byggð. Ekki hafði áður verið efnt til hugmyndasamkeppni um skipulagningu á jafn stóru svæði. Alls bárust 30 tillögur í samkeppnina og voru þrjár þeirra verðlaunaðar. Tillögurnar sýndu fram á margvíslega möguleika til að skapa fjölskrúðugt mannlíf og öfluga atvinnustarfsemi á þessu fallega svæði í borgarlandinu. Tillaga arkitektanna Hróbjarts Hróbjartssonar, Richards Ólafs Briem, Sigríðar Sigþórsdóttur og Sigurðar Björgúlfssonar hlaut fyrstu verðlaun.
Tillaga þeirra gerði ráð fyrir þriggja til sex hæða íbúðarhúsum sem staðsett yrðu á hábungu Geldinganessins og jafnframt lægri byggð fyrir margs konar sérbýli sem yrði umlukt hringvegi. Á svæðinu yrðu einnig garður, íþróttaaðstaða, svonefnt „menningartorg“, skólar og önnur aðstaða af því tagi.
Utan hringvegarins var gert ráð fyrir breiðu útivistarsvæði umhverfis allt nesið. Tillagan gerði ráð fyrir að það yrði látið ósnortið að öðru leyti en því að göngustígur yrði lagður fyrir ofan sjávarhamrana.
Óbætanleg skemmdarverk unnin á Geldinganesi
Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn frá 1994 til 2006 gerði ekkert með tillögu arkitektanna. Í staðinn var unnið óbætanlegt skemmdarverk á Geldinganesinu. Aðalskipulagi var breytt og ákveðið að Geldinganes yrði hafnar-, athafna- og iðnaðarsvæði. Gert var ráð fyrir uppbyggingu stórskipahafnar á sunnanverðu Geldinganesi. Á grundvelli þessara skipulagsbreytinga var ráðist í stórfellt grjótnám á sunnanverðu nesinu, sem sjálfstæðismenn mótmæltu harðlega. Í dag má sjá þar mikið svöðusár sem er minnismerki um þessa vanhugsuðu skipulagstillögu. Sem betur fer varð ekkert úr því að breyta þessari fallegu perlu í borgarlandinu í hafnar- og iðnaðarsvæði.
Geldinganes góður kostur fyrir íbúðabyggð
Mikilvægt er að borgaryfirvöld snúi sér sem fyrst að því að skipuleggja aðallega íbúðabyggð auk lóða undir atvinnuhúsnæði á Geldinganesi. Með tilkomu Sundabrautar er byggð þar afar vænlegur kostur.Í Reykjavík hafa á undanförnum 6-7 árum að mestu verið byggð hávaxin fjölbýlishús en lóðir undir sérbýli til einstaklinga hafa nánast ekkert verið á boðstólum. Til þess gefst gott tækifæri á Geldinganesi. Það er spurning hvort innkoma borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í leifarnar af gamla meirihlutanum muni einhverju breyta hvað lóðaúthlutanir til einstaklinga varðar. Ef það gerist ekki þá verður það áleitin spurning hvaða erindi Framsóknarflokkurinn átti inn í nýjan meirihluta.
Höfundur er fv. borgarstjóri.