Þó stundum sé brugðið á leik í unglingavinnunni þýðir það ekki að leti svífi yfir vötnum. Má ekki vera gaman í vinnunni? Þessi mynd er tekin við Reykjavíkurtjörn í ágúst 1972.
Þó stundum sé brugðið á leik í unglingavinnunni þýðir það ekki að leti svífi yfir vötnum. Má ekki vera gaman í vinnunni? Þessi mynd er tekin við Reykjavíkurtjörn í ágúst 1972. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fullorðnir báru ekki nægilega mikla virðingu fyrir unglingavinnunni sumarið 1982, ef marka má bréf til Velvakanda. Þá vildi fréttamaður á hljómleikum Human League í Laugardalshöllinni bara hafa tal af stúlkum undir áhrifum áfengis, samkvæmt sömu heimild. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Það er gömul saga og ný að við, fullorðna fólkið, höfum misgóðan skilning á unglingum, þörfum þeirra og þrám. Það hefur ábyggilega ekkert breyst frá því að fyrirbrigðið unglingur kom fyrst fram á sjónarsviðið á síðustu öld, í þeirri merkingu sem við leggjum nú í orðið.

Ekki þurfti að segja söguhetju okkar í þessari Tímavél, Maríönnu sem var með nafnnúmerið 6464—9515, neitt um það sumarið 1982 en hún sá ástæðu til að stinga niður penna og rita Velvakanda í Morgunblaðinu bréf – af gefnu tilefni.

Eins og kurteisra ungmenna er siður, byrjaði Maríanna á því að gera grein fyrir sér; hún vann sum sé í unglingavinnunni og fékk þar á tímann 19,34 krónur. Höfundar aðsendra greina mættu gjarnan almennt fara að hennar fordæmi og láta upplýsingar um kaupið sitt fylgja með skrifunum. Það hjálpar alltaf upp á samhengið.

„Það sem ég vil segja,“ sagði Maríanna svo, „er að fyrir nokkru skrifaði kona nokkur í Velvakanda og sagði m.a. að unglingarnir lægju tímunum saman í leti, meðan þau ættu að vinna, og allt eins gott væri að senda þeim kaupið beint heim.“

Maríanna bar ekki á móti þessu, nema að því leyti að allir væru dæmdir eins. Sumir ynnu sínu vinnu vel en aðrir ekki. „Það eru ekki allir eins.“

Hún greindi því næst frá nokkrum atvikum, til að sýna fram á hvernig fólk er ólíkt. „Ég og nokkrar stelpur vorum að sópa í steikjandi hita. Kona í húsi einu horfði á okkur. Ein stelpan stoppaði við og sagði við konuna: „Góðan daginn, gott er blessað veðrið.“

„Já,“ segir konan en bætir við: „Eruð þið að vinna eða skemmta ykkur?“

„Bæði og,“ svöruðum við.

„Er ekki borgað eitthvað fyrir vinnuna?“ sagði konan.

„Jú, einhvern skít á priki,“ sögðum við.

„Jæja,“ sagði hún og fór.“

Þetta þótti Maríönnu neyðarlegt því þær stöllurnar voru að sópa þykkan sand, sem var af völdum fullorðna fólksins, en töluðu og hlógu við vinnuna. „Mér er sem ég sæi fullorðna fólkið standa við að sópa sand, sem væri kannski af annarra völdum og unglingar segðu eitthvað þessu líkt við það.“

Þá vildi hún geta annars atviks. Hún og fleiri voru að sópa götu í sól og hita. Er þau höfðu sópað eftir götunni endilangri, kom út maður og sagði við ungmennin: „Þið eruð að púla við að sópa, því leggist þið ekki niður og farið í sólbað?“

Sum sé, misvísandi skilaboð.

Eitt fannst Maríönnu leiðinlegt varðandi unglingavinnuna. „Við megum ekki hafa segulband hjá okkur, en það er þannig með suma, að þeim finnst þeir vinni betur undir léttri tónlist. Ég viðurkenni það fúslega að sumir geta verið latir, en það á ekki að dæma alla eftir einum.“

Hér sést ekki edrú manneskja

Að því sögðu venti Maríanna kvæði sínu í kross og beindi orðum sínum að fjölmiðlum. „Ég þekki stelpu sem fór á hljómleikana með Human League í Laugardalshöllinni. Þar sem hún stendur, kemur að fréttamaður, er vill hafa tal af stúlkum undir áhrifum áfengis. Hann segir: „Hér sést ekki edrú manneskja.“ Vinkona mín stóð við hliðina á þessum stelpum en fréttamaðurinn þóttist ekki sjá hana. Ef fréttamenn vilja segja eitthvað, þá skulu þeir segja satt frá.“

Heyr, heyr!

Og hér var okkar kona komin á skrið. „Þetta á við um fleiri blaðamenn. Þetta skulu blaðamenn o.fl. sem vilja taka viðtöl hafa í huga. Fullorðna fólkið (frétta- og blaðamenn) vilja alltaf niðurlægja unglingana með því að taka myndir af þeim illa stöddum.“

Hún lauk máli sínu á eftirfarandi sneið til fullorðna fólksins: „Á sautjánda júní var mikið fyllerí. Samkvæmt mínum dómi kunnu þeir [unglingarnir] þar betur að fara með vínið en fullorðna fólkið.“

Að sjálfsögðu í þrumustuði

Tónleikar bresku popphljómsveitarinnar Human League, sem Maríanna gat um hér að framan, fóru fram í Laugardalshöllinni 12. júní 1982 á vegum Listahátíðar í Reykjavík. Eftirvæntingin var mikil, svo sem sjá mátti á auglýsingu frá Listahátíð í Morgunblaðinu: „Konsertinn í kvöld er sá síðasti í þessari tónleikaferð Human League og í kvöld ætla þeir að slútta þessari reisu með stæl og verða að sjálfsögðu í þrumustuði. Eitt af lögum Human League er nú á toppnum í USA.“

Góður rómur var gerður að tónleikunum. „Það verður að segjast hreint út, að Human League kom á óvart,“ sagði Sigurður Sverrisson í umsögn sinni í Morgunblaðinu. „Í rauninni var lítt vitað við hverju mátti búast en svona eftir á að hyggja eru þetta tónleikar, sem ég hefði ekki viljað missa af. Human League tókst nefnilega það, sem svo ákaflega fáum hefur tekist til þessa, að ná almennilegum hljómi í Höllinni. Ekki spillti fyrir að „showið“ í kringum allt saman var einkar vel framkvæmt. Ljósin skemmtilega notuð og litskyggnur Adrians Wrights settu mikinn svip á tónleikana, enda er hætt við að án þeirra hefðu þeir ekki orðið það sem þeir urðu.“

Og stemmingin var fín, að sögn Sigurðar. „Tónlist Human League er fyrst og fremst danstónlist. Mátti enda sjá það á viðbrögðum unglinganna í Höllinni, sem dönsuðu margir hverjir eins og þeir ættu lífið að leysa. Framan af var nokkuð þungt yfirbragð á tónleikunum, en eftir að ísinn var rækilega brotinn með „Don't You Want Me“ og gólfið líktist mest iðandi mauraþúfu, tóku þeir aðra stefnu.“

Engum sögum fór af unglingadrykkju.