Reykjavíkurflugvöllur Innviðaráðuneytið leggur þunga áherslu á að borgin fresti öllum áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar.
Reykjavíkurflugvöllur Innviðaráðuneytið leggur þunga áherslu á að borgin fresti öllum áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Innviðaráðuneytið telur með öllu óásættanlegt að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir í Skerjafirði án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti sé búið að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Leggur ráðuneytið þunga áherslu á að borgin fresti öllum áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og hefji engar framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggur fyrir. Þetta kemur fram í bréfi frá innviðaráðuneytinu til borgarinnar, sem dagsett er 16. júní.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og starfandi borgarstjóri, segir borgina ætla að verða við ósk ráðuneytisins og verður framkvæmdum frestað um sinn. Ekki sé þó gott að seinka uppbyggingunni en samningar verði virtir.

Þann 21. janúar sendi Isavia minnisblað til ráðuneytisins þar sem farið var yfir aðstæður sem væru að skapast á Reykjavíkurflugvelli vegna framkvæmda og uppbyggingar af hálfu Reykjavíkurborgar, og þá sérstaklega vegna uppbyggingar Nýja Skerjafjarðar. Ráðuneytið óskaði í kjölfarið eftir svörum frá borginni, m.a. um með hvaða hætti ætti að tryggja að framkvæmdir við flugvöllinn hefðu hvorki áhrif á flugöryggi né rekstraröryggi hans. Þá var jafnframt óskað eftir því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Í svari borgarinnar sem barst 12. apríl var fjallað um áhrif nýrrar byggðar á vindafar og ókyrrð og hvaða aðgerðum átti að beita til að tryggja öryggi á framkvæmdatíma.

Þolanleg áhætta

Í umsögn Isavia til ráðuneytisins, sem dagsett er 2. maí, kemur fram að áhyggjur félagsins hafi ekkert minnkað við lestur svarbréfs borgarinnar. Hafi þar m.a. komið fram í vindafarsgreiningu NLR að uppbygging muni hafa áhrif á aðstæður á braut en að áhættan hafi verið metin sem „þolanleg“. Aftur á móti þurfi að grípa til öryggisráðstafana og mótvægisaðgerða, sem sé á ábyrgð rekstraraðila flugvallarins.

Þá segir einnig í minnisblaði Samgöngustofu frá 3. maí að breytingar á aðstæðum flugvallarins geti haft áhrif á starfsleyfi hans og kallað á íþyngjandi mótvægisaðgerðir og/eða rekstrartakmarkanir sem geti m.a. snúið að lokun flugbrauta eða flugvallar að hluta eða öllu leyti.

Í bréfi innviðaráðuneytisins til borgarinnar 16. júní segir að ný byggð í Skerjafirði muni að óbreyttu draga út rekstraröryggi flugvallarins, sem sé í beinni andstöðu við samkomulag ráðherra og borgarstjóra frá því í nóvember 2019 þar sem sérstaklega var áréttað að rekstraröryggi flugvallarins yrði tryggt á meðan unnið væri að undirbúningi gerð nýs flugvallar.

Ráðuneytið hefur nú sett á laggirnar starfshóp sérfræðinga sem eiga að vinna flugfræðilega rannsókn á fyrirhuguðu byggðinni í Skerjafirði og áhrifum hennar og tilheyrandi framkvæmda á flugöryggi og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Í honum eiga m.a. sæti sérfræðingar Isavia, Veðurstofunnar, háskólasamfélagsins, Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Reykjavíkurborgar. Er stefnan sett á að hópurinn skili niðurstöðum eigi síðar en 1. október næstkomandi.

„Það er bara mjög mikilvægt að það sé sameiginlegur skilningur af hálfu allra á því hvernig þessum málum er háttað,“ segir Einar og bætir við: „Við leggjum bara áherslu á eins og allir að þrengja ekki að flugvellinum þannig að hann verði ónothæfur.“