Það verður ansi spennandi að fylgjast með Söru Björk Gunnarsdóttur í nýju ævintýri hjá ítalska stórveldinu Juventus.
Það verður ansi spennandi að fylgjast með Söru Björk Gunnarsdóttur í nýju ævintýri hjá ítalska stórveldinu Juventus.

Ekki þarf að koma neinum á óvart að Sara Björk hafi verið eftirsótt af Juventus og fleiri stórliðum, þar á meðal Chelsea og Manchester United, enda hefur hún þegar leikið fyrir tvö af stærstu félögum Evrópu, Lyon og Wolfsburg, á ferli sínum.

Reynsla Söru Bjarkar yfir höfuð, og þá ekki síst í Meistaradeild Evrópu, sem hún vann með Lyon á síðasta tímabili og einnig árið 2020, hefur eflaust átt stóran þátt í áhuga Juventus á henni.

Juventus er , eins og rakið er hér við hliðina, á stöðugri uppleið og náði sínum besta árangri í Meistaradeildinni í stuttri sögu félagsins á síðasta tímabili, er það féll naumlega úr leik gegn Söru Björk og stöllum í Lyon í fjórðungsúrslitum.

Eðlilega vill Juventus fara enn lengra í keppninni á næstu árum og ekki yrði ég hissa ef Sara Björk hjálpar liðinu í þeim efnum.

Sara Björk er sem kunnugt er í sambandi með Árna Vilhjálmssyni. Hann er einnig atvinnumaður í knattspyrnu hjá franska B-deildarliðinu Rodez, þar sem hann er samningsbundinn til tveggja ára til viðbótar.

Þar sem þau eru í sambúð og eiga barn saman, leiðir Árni væntanlega hugann að því að finna sér nýtt félag, og það þá helst á Norður-Ítalíu.

Nóg er af félögum í ítölsku B og C-deildunum sem eru staðsett á Norður-Ítalíu og því ættu möguleikar að vera fyrir hendi hjá Árna. Hvernig sem það allt saman æxlast, vonar maður auðvitað að þeim verði gert kleift að búa saman sem fjölskylda.