Stangveiði
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Þessa dagana hefjast veiðar í síðustu laxveiðiánum, hverri á fætur annarri, og óhætt er að segja að byrjunin hafi verið upp og ofan. Þannig var gæðunum misskipt í húnvetnsku ánum síðustu daga; í opnun Laxár á Ásum veiddist aðeins einn lax, tveir í Vatnsdalsá við erfiðar aðstæður, áin í miklum vöxtum, en í Víðidalsá og Fitjá, rétt þar fyrir vestan, komu hins vegar 16 á land í opnun og veiðimenn kampakátir. Rólegt hefur síðan verið yfir Blönduveiðum en á fyrstu tveimur vikunum hafa aðeins veiðst níu laxar.
Dagur Ólafsson, 15 ára veiðimaður, var með föður sínum við veiðar í Laxá í Aðaldal og setti í gærmorgun í og landaði 102 cm laxi í Sandeyrarpolli á Nesveiðum. Tók nýgenginn og sterkur hængurinn Sunray Bismo og tók viðureignin um 40 mínútur áður en laxinum var landað nokkru neðar í ánni, í Dýjaveitum.
Af ánum á Vesturlandi sýna vikulegar veiðitölur Landssambands veiðifélaga á vefnum angling.is að fyrstu fimm dagana veiddust 27 laxar í Haffjarðará, sem er fyrirtaks byrjun. Í vikunni veiddust 47 laxar í Norðurá, þar sem smálaxar byrjuðu að tínast inn í auknum mæli, og í Þverá-Kjarrá veiddust á sama tíma 35. Blaðamaður var við efri hluta árinnar í vikunni, þar var mikið vatn og ferð á fiskinum sem er strax orðinn vel dreifður og var að veiðast frá efstu hyljum, við Rauðaberg, niður í þá neðstu, Selsstrengi.
Opnaði með sínum stærsta
Veiði hófst í Laxá í Dölum í gærmorgun og þrátt fyrir að lofthitinn væri einungis þrjár gráður þá byrjaði morgunninn heldur betur vel hjá einum veiðimannanna, Stefáni Sigurðssyni. Hann byrjaði á því að setja í lax við Dönugrjót en sá losaði sig. Betur gekk í hinum þekkta veiðistað Kristnipolli en þar náði Stefán að landa fyrsta 100 cm laxinum sem hann veiðir á Íslandi, 20-pundara, sem var jafnframt fyrsti veiddi lax sumarsins í ánni.Í samtali við Sporðaköst á Mbl.is sagðist Stefán hafa kastað litlum rauðum kón í hefðbundinn stórlaxastað í hylnum og þar tók „þessi líka svakalega fallegi lax“.
„Nú er maður kominn í hundraðkallaklúbbinn. Loksins og svakalega er það gaman. Ég hef veitt ábyggilega einhverja fimm hundruð laxa sem eru á bilinu 95 til 99 sentímetrar en þetta er fyrsti lax á Íslandi sem ég veiði sem nær hundrað sentímetrum,“ sagði Stefán æði lukkulegur.
Laxveiði hófst líka í Vopnafirði í gær og í Hofsá var tveimur landað á fyrstu vakt og fleiri misstust en kalt var í norðanáttinni, fjórar gráður. „Það var stuð á mönnum þrátt fyrir kuldann,“ sagði Ívar Kristjánsson í hádeginu en hann náði öðrum laxinum, 80 cm hæng sem tók rauðan kón í Þvottalækjarstreng. Hinn sem náðist var smálax. Ívar og félagi hans hafa mikla veiðireynslu í Hofsá og spáðu góðri opnun og betri en í fyrra en þá veiddust átta laxar. Fyrir tveimur árum veiddust hins vegar 33 í opnuninni.
Fyrsta vakt í Hafralónsá í gær var góð en sex löxum var landað.